Hvar kaupir maður dingalinga?

Um daginn var ég sem endranær staddur á Spotify þegar ég rakst á nafnið Malvina Reynolds og hélt strax að þetta væri söngkonan sem hefði gert nýja útgáfu af laginu „Little Boxes“ (Litlir kassar) fyrir sjónvarpsþáttinn Weeds sem ég horfði stundum á fyrir tæpum 20 árum. En þegar ég fór að lesa mér til var þetta ekki söngkona úr nútímanum og hennar útgáfa ekki ný heldur er Malvina Reynolds beinlínis höfundur lagsins en ekki Pete Seeger sem að vísu flutti það fyrstur og gerði frægt.

Eins og allir vita sem þekkja eitthvað til þjóðlagatónlistar eru litlu kassarnir búnir til úr „dingalinga“ sem er þýðing á „ticky-tacky“ í enskunni en munurinn er raunar sá að þó að Reynolds byggi til orðið þá er það tilbrigði við eldra orðið „tacky“ sem áður var í notkun fyrir ómerkilegt efni en „dingalinga“ er eiginlega bara bull og minnir ekki á neitt sérstakt. Nú mun íslenski textinn vera eftir hinn ágæta Þórarin Guðnason lækni sem varð að sjónvarpsstjörnu á 9. áratugnum þegar hann kom fram í auglýsingu fyrir bókina Hverju svarar læknirinn? (1982) en þýðingin virðist frekar byggingartæknilega einfeldingsleg þótt hún sé áhugaverð að öðru leyti.

Malvina Reynolds var fædd árið 1900 og lést 1978, barn innflytjenda frá Austur-Evrópu. Hún var með doktorspróf í ensku en hafði líka reynslu af fiðluleik þegar hún fór að semja lög í þjóðlagastíl eftir að hafa hitt hinn fræga Pete Seeger. „Little Boxes“ samdi hún fyrir Seeger árið 1962 en að sögn kom lagið henni í hug í ökuferð um Kaliforníu þar sem smáhýsin spruttu upp hratt á þeim árum. Lagið er vitaskuld einfalt en mjög snjallt og hún naut mikillar virðingar í heimi þjóðlagatónlistar seinustu árin sem hún lifði. Þó er hún ekki frægari en svo að ég hef þekkt sönginn mestalla ævina en frétti fyrst að Malvina væri höfundur þess fyrir nokkrum vikum.

Previous
Previous

Íslensk fantasía og menningararfur

Next
Next

Skilnaðargremjan