Íslensk fantasía og menningararfur

Um þessar mundir er Ófreskjan, þriðja bókin af fjórum í sögunni Álfheimar að koma í bókabúðir og ekki get ég verið þögull yfir slíkum viðburði. Þessi bókaflokkur snýst um fornan menningararf sem ég sný á haus til að greina hann betur heimspekilega en samt með aðferðum frásagnarinnar. Eins og sumir lesendur muna kannski var Nýársnóttin eftir Indriða Einarsson fyrsta leiksýning Þjóðleikhússins árið 1950 og það er sú rómantíska 19. aldar álfahefð Íslendinga sem ég grandskoða með því að flytja fjóra nútímaunglinga í álfaheim. En ég geri það ekki með því að endurtaka leikmynd og búninga 19. aldar eins og oft er gert heldur reyni ég að velta fyrir mér tilgangi álfasagnanna og mikilvægi þeirra fyrir íslenska áheyrendur í óiðnvæddu samfélagi 19. aldar ekki síst með að taka 21. aldar fólk með og þannig skapa ég árekstra sem geta verið áhugaverðir fyrir lesendur án þess að vera eins konar „fan fiction“ upp úr Jóni Árnasyni eða J.R.R. Tolkien. Bókaflokkurinn hefur frá fyrstu bók snúist um að koma lesendum á óvart og vera þvert á væntingar þeirra og raunar væntingar fantasíu- og ævintýralesenda yfirleitt. Þannig eiga bókmenntir að vera að minni hyggju.

Afar listrænar og fallegar verðlaunakápur Atla Sigursveinssonar hafa orðið bókaflokknum til happs en ég legg áherslu á að texti bókanna sé líka fallegur og ekki aðeins hreinræktaður talmálsstíll. Það skapar vanda fyrir íslenska fantasíuhöfunda að hér er lítill lesendahópur (og handgenginn ensku) jafnvel þó að þær séu markaðsettar sem ungmennabókmenntir og þess vegna þurfa bækurnar að vera barnabækur líka og taka tillit til yngri lesenda og það hef ég reynt að gera en án þess þó að laga stílinn alfarið að talmáli 10-12 ára. Þó að bækur eigi að vera skemmtilegar og spennandi er enn mikilvægara að þær fái lesendur til að hugsa og festist þeim í minni. Einn lesandi sem elskar bækurnar er mikilvægari en margir sem lesa þær í flýti og gleyma þeim svo. Þess vegna legg ég allt kapp á að þessar bækur séu ófyrirsegjanlegar og óklisjukenndar en söguþráðurinn samt svo sannfærandi að lesendum finnist að B hljóti að leiða af A. Það er mikilvægt að bjóða upp á bækur sem ekki minna á tölvuleiki eða fljóta á stjörnustatus höfundarins en stundum erfitt á farsíma- og Netflixöld. Fólk opnar bækur og spyr sig hvort úr þeim yrði góður sjónvarpsþáttur. Raunar held ég að svo sé um allar góðar bækur (með réttri aðlögun) en aðalatriði hverrar bókar á samt að vera textinn og áhrifin sem hann hefur á lesendur þegar bókin er lesin.

Ófreskjan er fyrsta bókin af þessum fjórum sem gerist alfarið í „hinum fagra heimi“ eins og íbúar hans kalla hann með svipuðum hroka og þegar Vesturlandabúi segir „vestræn gildi“ en okkar heim kalla álfarnir „gráa heiminn“ og ég gleðst ef það fer í taugarnar á einhverjum lesendum því að til þess er leikurinn gerður. Eins og lesendur vita snúast bækurnar fjórar líka um frumefnin vatn, jörð, loft og eld eins og sjá má á kápunum og það var satt að segja örlítið erfitt að skrifa loftbókina, ekki þó að sviðsetja viðburði í loftinu enda er það ekki mikilvægast heldur er unnið með þá eiginleika sem dulspekingar eigna frumefnunum. Þannig einkennast eldpersónuleikar af metnaði, ástríðu og óþolinmæði (eins og Dagný í bókunum), jarðpersónuleikar eru stöðugir, jarðbundnir og skynsamir (eins og Soffía), vatnspersónuleikar eru djúpir, fróðleiksþyrstir og viðkvæmir (eins og Pétur) og loftpersónuleikar eru óstöðugir, málglaðir og vinsamlegir (eins og Konáll). Auðvitað eru þessi fræði engin vísindi en það eru álfar ekki heldur og mér finnst kjörið að koma lesendum í samband við alla þessi vafasömu speki, fyrir utan að kenna þeim smá sanskrít — þó að ekki væri nema til að færa einum og einum evrekaaugnablik þegar viðkomandi uppgötvar tengslin sjálfur á lífsleiðinni (ég reikna ekki með að nein börn eða ungmenni lesi þessa síðu og hef því engu spillt).

Einhver kann að spyrja hvað ég eigi við með bróðurnum, risanum, ófreskjunni og gyðjunni sem eru nefndar í bókartitlunum. Þetta eru raunar þær persónur fyrir utan frumefnakrakkana sem mestu skipta í bókaflokknum og „höfuðandstæðingur“ þeirra í hverri bók — en ég vil raunar helst ekki hafa hlutina svo einfalda í mínum bókum og er sennilega ekki að spilla neinu þó að ég segi að öllum bókunum ljúki á heilbrigðum efa um muninn á góðu og illu sem ekki veitir af á þessum áróðurs- og falsfréttatímum.

Previous
Previous

Auga listamannsins, auga morðingjans

Next
Next

Hvar kaupir maður dingalinga?