Auga listamannsins, auga morðingjans

Kvikmyndin Peeping Tom (1960) þótti svo pervertaleg að ferli enska leikstjórans Michael Powell var í raun lokið með henni en myndin er þó núna talin ein af 100 bestu bresku myndum allra tíma. Ógæfa hennar var sennilega að vera á undan sínum tíma (þó að 1960 sé raunar ár margra frægra hryllingsmynda). Fléttan í myndinni er að kynóður morðingi tekur kvikmynd af sjálfum sér myrða fórnarlömb sín og myndin hefst ekki aðeins á myndavélarauga hans heldur fylgir því drjúga stund — mörgum árum síðar varð myndataka frá sjónarhorni morðingjans næstum að klisju en á þeim tíma var þetta sláandi nýjung. Gagnrýnendur fylltust hins vegar viðbjóði allir sem einn og öfugt við Hitchcock naut Powell ekki gráglettni myndarinnar sem er þó talsverð. Myndin er á svipuðum brautum og ýmsar seinni myndir Alfreðs, ekki síst Frenzy sem notar sömu aðalleikkonu og vísar þannig óbeint í Peeping Tom. Í báðum myndum er hún lengi einkennilega óhrædd við morðingjann. Aðalleikarinn er aftur á móti þýskur (úr Sissy-myndunum með Romy Schneider) en leikur enska persónu, á þann hátt nær Powell sniðulega að draga fram útlagastöðu hans. Hann er leigusali ungu konunnar „sem gengur um eins og leigjandi sem skuldar leigu“, er eitt fyrsta dæmið í kvikmyndum um hægláta unga morðingjann ásamt Norman Bates sem einnig komst á tjald sama ár. Líklega komst enginn annar en Hitchcock upp með að nota slíka persónu í kvikmynd árið 1960. Jafnvel enn áhugaverðara er sjúklegt og kynóralegt samband hans við myndavélina sem minnir óhugnanlega á farsímaþrældóm margra í nútímanum.

Strax í upphafi myndarinnar kemur í ljós að morðinginn er ekki alfarið einn í sínum perraskap. Einn af kúnnum hans er blaðasali sem segir að blöð „með stelpum“ seljist best og sá selur vafasöm blöð til hattakarls á áttræðislaldri sem merkt eru „educational“. Að þeim viðskiptum loknum tekur ljósmyndarinn okkar myndir af stúlku sem biður hann um að láta áverkana eftir kærasta hennar ekki sjást á myndunum sem hann tekur af henni. Síðar í kvikmyndinni fylgjumst við með karlkyns leikstjóra sem pönkast á aðalleikonu sinni sem þarf að detta mörgum sinnum fyrir hann. Auðvitað eru þessir ágætu menn ekki morðingjar enda féll (karlkyns) gagnrýnendum illa samhengið sem morðinginn með myndavélina er settur í, þ.e. að ofbeldi hans gegn konum sé aðeins einn þáttur í því ofbeldi sem karlkynið beitir konur almennt og yfirleitt, bæði með höndunum, augunum og með myndavélum. Líkt og í Psycho fær sálfræðingur orðið til að greina manninn með skoptofílíu (segir hann hafa „augu föður síns“) en miðað við hegðun annarra karlpersóna í myndinni er hann ekki sá eini.

Óhugnanlegasta atriði myndarinnar er líklega þegar morðinginn sviðsetur morð sitt á aukaleikkonunni Vivian, það er bæði langdregið og eflaust óbærilega spennandi á sínum tíma þegar áheyrendur hafa átt von á að Vivian gæti jafnvel sloppið en það tekur hana sjálfa þó góða stund að verða hrædd við meinleysislegan myndavélaperrann. Ekki mikið skárra er atriðið þegar ljósmyndarinn og morðinginn sýnir áhugasömu nágrannastúlkunni myndir sem faðir hans (leikinn af leikstjóranum Powell sjálfum) tók af honum barnungum og eru ekki síður krípí en hans eigin þó að á annan hátt sé. Þannig liggur ábyrgðin á skrímslinu augljóslega hjá foreldrinu (eins og í tilviki Norman Bates) og í þessu tilviki holdgervingi feðraveldisins og sálfræðitilraunum hans á eigin barni sem lið í að rannsaka óttann. Powell gefur til kynna að ljósmyndarar, kvikmyndagerðarmenn og vísindamenn séu sadistar og myndataka og kvikmyndataka í eðli sínu ofbeldi. Er nema von að gagnrýnendum litist illa á þann myrka boðskap? — en einmitt hann hefur gert myndina áhugaverða enn í dag.

Flaut morðingjans áður en hann drepur er nánast orðin klisja í myndum, tónninn eins og pars pro toto og hið sama gildir um fótatak morðingjans sem blind, veraldarvön en áfengissjúk konan á neðri hæðinni vantreystir og varar dóttur sína við honum. Hún er skemmtilegur höfuðandstæðingur morðingjans, kaldhæðin, tortryggin og með augu í hnakkanum eins og góðar óblindar mömmur hafa líka. Þó að hún sjái ekki morðingjann og myndir hans sér hún samt í gegnum hann umfram alla aðra og heimsækir hann upp á efri hæð til að vara hann við. Þau eiga áhugaverðar samræður um augað og innsæið, blinda konan augljóslega mótvægi við myndavélaóða manninn. Að lokum ná þau eins konar samkomulagi sem ungi maðurinn uppfyllir í lokin þegar hann lætur fallast á fallískan oddinn á eigin myndavél. Þetta erótíska sjálfsmorð eru ekki upplífgandi sögulok fyrir áhorfendur og þess galt myndin eflaust á sínum tíma.

Previous
Previous

Stutt neðanmálsgrein um okkur Wodehouse

Next
Next

Íslensk fantasía og menningararfur