Stutt neðanmálsgrein um okkur Wodehouse

Mesti heiður sem mér hefur hlotnast var í sumar þegar vinkona mín líkti senu í bók eftir mig við ræðu Gussie Fink-Nottle í Right Ho, Jeeves eftir P. G. Wodehouse. Óverðskuldaður heiður því að ég gæti aldrei náð þeirri snilld en mér fannst ánægjulegt að vera nefndur í sömu andrá. Þegar ég ákvað að læra bókmenntafræði fyrir mörgum áratugum bjó í mér óskhyggja um að ég myndi skrifa um allar eftirlætisbækurnar mínar og helst heila bók um alla mikilvægustu höfundana og þar hefði P. G. Wodehouse auðvitað verið ofarlega á blaði enda er ég alinn upp á heimili sem var troðfullt af bókum hans og ég átti foreldra sem höfðu nógu mikil tengsl við England til að vita að nafn hans er borið fram með ú en ekki ó. En vandinn við að skrifa um Wodehouse er að mann langar bara til að skrifa upp allar bestu setningarnar hans því að þær eru ófáar. Wodehouse var þvílíkur ritsnillingur að þó að hann skrifaði bara skemmtilegar afþreyingarbækur, söngleiki án söngva, öfunduðu allir fremstu höfundar Englands hann af orðkynnginni og ritsnilldinni. Annar eins náttúrusnillingur hefur varla fæðst.

En þó að það sé ekkert gaman að bókmenntagreina svona fyndinn höfund sem ætlaði sér ekkert meira en að skemmta langar mig til að deila með ykkur verkefni mínu fyrir nokkrum árum bara til gamans. Ég var svo heppinn að taka að mér Wodehousesafn fjölskyldunnar árið 2012 (nei, ég lána ekki þær bækur, ekki heldur innan fjölskyldu, þið verðið að bíða eftir að ég deyi) og síðan keypti ég þær bækur um Jeeves og Bertie Wooster sem mig vantaði með aðstoð regnskógarins og las allar þrettán bækur P. G. Wodehouse um Jeeves í útgáfuröð sem er svona: 1. The Inimitable Jeeves, 2. Carry On, Jeeves, 3. Very Good, Jeeves, 4. Thank You, Jeeves, 5. Right Ho, Jeeves, 6. The Code of the Woosters, 7. Joy in the Morning, 8. The Mating Season, 9. Jeeves and the Feudal Spirit, 10. Jeeves in the Offing, 11. Stiff Upper Lip, Jeeves, 12. Much Obliged, Jeeves, 13. Aunts Aren’t Gentlemen. Í þessu tilviki er þrettán ekki óhappatala því að þær eru hver öðrum betri og ég mæli með að allir aðdáendur Jeeves og Bertie leiki þetta eftir mér.

Auðvitað eru endurtekningar í bókum Wodehouse, fjölmargar. Eitt það dularfyllsta við þennan Mozart gamanbókmenntanna er einmitt hvernig honum tókst að endurtaka sig svona mikið en halda alltaf ferskleikanum. Bækurnar eru skrifaðar frá því að hann var á fertugsaldri fram undir nírætt en það er aldrei þreyttur og gamall maður sem heldur á penna. Eins er Wodehouse snillingur í óáreiðanlega sögumanninum. Allar sögurnar eru frá sjónarhorni Bertie Wooster sem er auðvitað fífl en hann er ekki algjört fífl heldur að einhverju leyti eins og við öll. Hann ofmetur sjálfan sig fullkomlega nema á stundu neyðar þegar hann hleypur í faðm Jeeves sem alltaf leysir málið með einstökum mannskilningi sínum.

Ég hef aldrei séð gömlu sjónvarpsþættina með Ian Carmichael og Dennis Price en myndir af þeim eru á sumum bókunum mínum (sjá að ofan). Stephen Fry og Hugh Laurie stóðu sig mjög vel í sjónvarpsþáttunum um 1990 sem við vorum svo heppin að sjá öll saman meðan foreldrar mínir lifðu enn — þau voru hrifnari af Fry en Laurie sem þeim fannst stundum of heimskulegur á svipinn og ég held að þau hafi greint Bertie í bókunum rétt þar. Sérstaklega ánægð vorum við öll með leikarann sem lék Roderick Spode (hann heitir John Turner og lifir enn á tíræðisaldri), hliðstæðu nasistaleiðtogans Oswalds Mosley sem enginn mátti vita að hannaði líka kvennærföt undir dulnefninu Eulalie. Þættina má horfa á aftur og aftur þó að þeir jafnist samt ekki á við sögurnar því að Wodehouse orðar hlutina þannig að þess verður að njóta setningu fyrir setningu.

Previous
Previous

Selkollusaga Dickers

Next
Next

Auga listamannsins, auga morðingjans