Selkollusaga Dickers
Um daginn rakst ég á Sannleikann um mál Harry Quebert á Sjónvarpi Símans og ákvað að horfa þó að ég hafi lesið bókina fyrir fáeinum árum en samt aðeins haft óljósar minningar um hana. Höfundurinn Joël Dicker vakti mikla athygli fyrir þessa bók á sínum tíma, varð metsöluhöfundur á þrítugsaldri og fékk þar að auki Goncourt-verðlaunin fyrir unga höfunda. Um allan heim var bókin síðan seld sem eins konar skáldsaga um skáldsagnagerð, „metafiction“ sem væri ólíkt bókmenntalegri en aðrar spennu- og glæpasögur. Mér fannst Dicker hins vegar hafa fátt merkilegt um skáldskap að segja, raunar fannst mér „metafiction“ kaflarnir álíka tilgerðarlegir, uppblásnir og innihaldslausir og heiti tilbúnu skáldsögunnar Upphaf illskunnar sem á að hafa gert Harry Quebert frægan (og bókmennakennarinn Quebert uppfullur af banalítetum) en í venjulegu sakamálaköflunum kom frásagnargáfa Dickers betur fram fram þannig að bókin reyndist auðlesin og spennandi, ekkert síðri en Arnaldur á góðum degi. Ég geri hins vegar þær kröfur til bókmennta að ég muni eftir þeim og þessi bók hefur ekki staðist það próf; mér veitti ekki af þættinum til að rifja hana upp og uppgötva að þetta er ein af þessum sögum sem byrjar vel en síðan gengur ekkert að botna allar væntingarnar sem haganleg spennugerð hefur skapað. Kannski vegna þess að Dicker treysti efni sínu ekki vel og hefur kannski ekki mjög mikið fram að færa annað en löngunina til að vera frægur rithöfundur, bókin er sópdyngja af alls konar sögum og þemum sem þvælast fyrir öðru eins og í gamalmennaíbúð allt of fullri af húsgögnum.
Eiginlega það eina sem ég mundi úr bókinni var ungi höfundurinn Marcus Goldman sem var illa haldinn af „imposter syndrome“ enda ægilegt gervimenni og með alvarlega ritstíflu þrátt fyrir frábærar viðtökur og metsölu fyrstu bókarinnar sinnar. Í bókinni ákveður hann að lokum að skrifa bók um sinn gamla kennara Harry en hún reynist álíka fölsk og restin af ferli hans. Þessi persóna er sennilega sú sannasta í bókinni og líka það besta við þáttinn, í meðförum leikarans Ben Schnetzer sem er sífellt hlaupandi, boxandi eða að stunda aðra líkamsrækt sem skapar þá hugmynd að starf rithöfundarins sé mjög testósteróndrifið, karlkyns og ekki ósvipað íþróttum. Schnetzer tjáir brothætta en vöðvastælta karlmennsku nútímametsöluhöfundarins með miklum ágætum. Harry sjálfur er hins vegar hálfgerð klisja í þætti sem bók eins og mig minnti en það næstbesta við þáttinn (eins og bókina) er sviðsetningin í smábæ í Maine (eftir að flestir íslenskir veitingastaðir fóru að bjóða upp á „Maine course“ er þetta orðið fyndnasta ameríska ríkið) sem fær mann til að hugsa um Emily Dickinson og Gilmore-mæðgurnar. Þátturinn er sannarlega áferðarfallegur, bæði senurnar frá árinu 1975 og það sem gerist í nútímanum. Yfirleitt boðar það samt ekki gott fyrir sögu ef maður horfir meira á bakgrunninn en það sem er í forgrunni. Það minnir svolítið á þá íslensku leikstjóra sem lögðu forðum svo mikið upp úr leikmyndinni að þeir gleymdu alveg handritinu. The Mare of Easttown sem ég ræddi nýlega hér á síðunni var með ekki ósvipað svið en ólíkt heiðarlegri og sannari sögu.
Annar kosturinn við þáttinn er að Dennis Nedry úr Júragarðinum [„Don’t go cheap on me, Dodgson!“) er þar í litlu hlutverki, þ.e. hinn búsældarlegi Wayne Knight, orðinn talsvert eldri, og allt lifnar við rétt á meðan hann er á sviðinu. Damon Wayans Jr. stendur sig líka vel í hlutverki lögreglumanns sem á í frekar klisjukenndu ásturhaturssambandi við höfundinn unga sem smám saman fær að valsa heldur ólíklega um allt með honum eins og hann hafi opinbera stöðu. Að öðru leyti er fléttan samsafn af endalausum grunsamlegum þorpsbúum (og einu „þorpsskrímsli“ sem raunar er sem betur fer afbyggt í lokin) sem margir eru logandi af girnd í garð bráðþroska fimmtán ára stelpu sem að lokum reynist hliðstæð miðdegisdjöflinum Selkollu. Nákvæmlega hvað áhorfandinn á að gera við forsögu hennar er alveg handan míns skilnings. Sennilega var stúlkan jafn einkennilega óáþreifanleg og ósennileg í bókinni og í þáttunum, stúlka skrifuð af gagnkynhneigðum karlmanni sem hefur enga gáfu til að túlka hana enda aðallega snjall í að láta heiminn trúa því að hann sé miklu betri höfundur en raunin er enda felist gildi bókmennta í metsölu og fléttusnúningum og það vantar ekki heldur myndir af Dicker í opinni skyrtu og með seiðandi augnaráð á rithöfundaþingum því að mestöluhöfundur í síðkapítalískum heimi þarf helst að líta út fyrir að vera að springa úr aðsniðnum fötunum af líkamlegu atgervi. Dicker má þó eiga að honum gengur vel að skrifa sjálfan sig á kómískan hátt í líki gyðings frá New York og fær prik fyrir það frá mér. Ótalmörg sniðugheitatilsvör hans í samtölum persónanna virka líka ívið betur í sjónvarpi en í bók.
Sennilega eru verðlaun Dickers og sannfæring margra gagnrýnenda um að bókin sé snjöll úttekt á skáldskapnum því að þakka að aðalpersónurnar eru rithöfundar en sú saga nær samt engri dýpt vegna djúprar sannfæringar Dickers um að metsala einkenni góðar bækur og drukknar auk heldur í öllum flækjunum og snúningunum í ofhlaðinni sögu stúlkunnar Nolu sem næstum allir fullorðnir karlmenn í þorpinu blandast í því að slíkur er máttur hennar og konur auðvitað til þess gerðar að æra karlmenn. Höfundurinn ungi heldur hins vegar blessunarlega typpinu utan við þorpið og sakamálið, hans einu persónulegu tengsl eru við „föðurinn“ Harry og föðurmorð hans snýst auðvitað um að afhjúpa Harry sem ritþjóf sem að lokum gerir yfirbót með því að leyfa öðrum að eignast sinn texta í staðinn. Frekar yfirdrifin flétta og ekki það sem ég kalla bókmenntir en ágæt skemmtun, einkum í sjónvarpinu. Hitt prikið fær þátturinn fyrir Ben Schnetzer sem vonandi fær að glíma við aðeins betri sögur í framtíðinni.