Þjáningar þess sem veit betur

Einu sinni spurði ég Svövu Jakobsdóttur hvort hún hefði hitt Christu Wolf vegna þess að tvær af eftirlætisskáldsögum mínum um tvítugt voru Gunnlaðar saga og Kassandra eftir Christu. Þær reyndust hafa hist en Svava hafði fátt um Christu að segja og var miklu hrifnari af Heinrich Böll sem einnig hafði verið staddur þar. Fá kynni hafa veitt mér meiri og varanlegri gleði en vináttan við Svövu en ég get ekki heldur neitað áhrifum Christu Wolf, ef eitthvert eitt verk mótaði Glæsi var það Kassandra sem ég hafði einu sinni náð að kenna í yndislestrarnámskeiði í MR við fremur litlar undirtektir; nemendur gleyptu hinar bækurnar í sig með áfergju en náðu ekki miklu sambandi við endursköpun grískra goðsagna í anda femínísmans. Ég var kannski óvenjulegur á þessum aldri, að uppgötva alls konar bókmenntir og Christa náði að höfða mjög til mín.

Christa Wolf (1929-2011) var austur-þýskur höfundur, félagi í SED og vann fyrir Stasi, að vísu mjög treg og mun meira var njósnað um hana sjálfa. En fyrir þetta var hún auðvitað úthrópuð á ruglárunum um 1990 þar sem frjálshyggjan óð uppi og enginn viðurkenndi að vera sósíalisti (ég notaði það orð eitt sinn um sjálfan mig á þeim árum og þá hlógu fyrirlitlega ýmsir hægrikratar sem hafa síðan þóst mjög róttækir seinni árin; ég þekki þeirra sanna eðli). Christa studdi ekki sameiningu Þýskalands og taldi Austur-Þýskaland ekki alslæmt en auðvitað gagnrýndi hún samfélag sitt harðlega í flestum sínum skáldsögum, m.a. Kassöndru sem er forn goðsaga endursögð „á röngunni“ eins og Svava hefði kallað það, af samúð með jaðarsettum manneskjum, meðal annars konum og þeim sem hafa óvenjulegar gáfur. Framsýni Kassöndru er hættuleg og ógnar bæði hennar eigin heimalandi og kúgaranum sem hefur drepið fjölskyldu hennar og hertekið hana sjálfa. Bókin er í einföldum stíl enda var það hugsjón kommúnistans Christu að vera skiljanleg en hún er líka fáguð og falleg.

Kynslóð Christu Wolf og Svövu Jakobsdóttur er fædd og uppalin í kerfi sem bauð konum aðeins upp á valdaleysi og báðar sáu þær mikilvægi þess að endurskoða allt og fara í saumana á grunninum sjálfum, á goðsögunum. Mér skilst að margar fleiri skáldsögur Christu fjalli um einstaklinginn andspænis kerfinu, um möguleikann á hetjuskap og þörf mannsins fyrir að laga sig ekki algerlega að kerfinu, hvort sem það er alvont eða ekki. Að því leyti var hún auðvitað eðlilegur andstæðingur kerfiskarla heimalands síns en eins þeirra sem við tóku.

Ein ástæða þess að Kassandra fór á dagskrá hjá mér í námskeiðinu á sínum tíma er að ég er sérstakur aðdáandi hugsandi (eða analýtískra) höfunda sem nýta heimspekilega möguleika skáldskaparins. Sumir höfundar hafa gott vald á málinu en fátt áhugavert fram að færa en best auðvitað ef þeir ná tökum á hvorutveggja.

Previous
Previous

Sveinn sveina og karl karla

Next
Next

Selkollusaga Dickers