Sveinn sveina og karl karla
Þór kemur að sundi einu á leið úr austurvegi, hittir þar fyrir ferjumann sem fer að þrasa við hann og neitar honum um far. Þessi ferjukarl er sennilega Óðinn í dulargervi en Þór ber ekki kennsl á guðinn sem í Snorra-Eddu er faðir hans og sennan leiðir ekki til neins, er aðeins umgjörð um fróðleik um guðina tvo. Þór stendur eftir strandaglópur sem hótar karli öllu illu á fremur máttleysislegan hátt. Þetta er Hárbarðsljóð, eitt fjölmargra samtalskvæða Konungsbókar þar sem goðin eru í öndvegi. Eins og Terry Gunnell hefur opnað augu margra fyrir er hér eins konar leikrit á ferð sem sennilega hefur verið flutt, hugsanlega helgileikur þó að ekki sé öruggt að það sé ort í heiðni.
Eins og ævinlega eru margar flækjur í að þýða kvæðið og margt torkennilegt í því. Ferjumaðurinn segir Þór dauða móður hans en annars er hvergi minnst á það fráfall. Eins segist ferjumaðurinn í þjónustu Hildólfs sem í nafnaþulum Skáldskaparmála er sagður einn af sonum Óðins en er annars óþekktur. Sérstaka athygli hefur frasinn „væta minn ögur“ vakið enda er ögur stakyrði og margir hafa túlkað þetta sem klúryrði, þ.e. að ögur vísi til kynfæra Þórs sem að sjálfsögðu blotni ef hann reynir að vaða yfir sundið. Er sú túlkun sótt til Hjalmars Falks en er ekki sennileg þó að ýmsir þýðendur hafi átt erfitt með að standast hana.
Annað sem hefur vakið athygli fræðimanna er sennan í upphafi sem síðan þróast í mannjöfnuð milli Óðins og Þórs sem virðist þó aldrei átta sig á að hinn eineygi alföður sé þar á ferð. Raunar birtist Þór sem hinn mesti sauður og einfeldingur í þessu kvæði, þvert á mynd hans í ýmsum öðrum kvæðum í Konungsbók, s.s. Alvíssmálum og Lokasennu. Afrek Þórs eru hefðbundin en Hárbarður stærir sig aðallega af samskiptunum við hitt kynið. Þó að Óðinn sé kenndur við ýmsar konur í Snorra-Eddu er hann samt ekki ástar- eða frjósemisguð en í Hárbarðsljóðum er áherslan á þessa hlið hans.
Þó að margir helstu fræðimenn okkar geri lítið úr því að Óður eiginmaður Freyju sé upphaflega Óðinn og eins hafi Frigg og Freyja þróast úr sömu gyðju eru tengslin milli Óðins og Freyju samt svo margháttuð að það virðist ekki ólíklegt að á einhverjum tíma hafi einhverjir Norðurlandabúar litið á þau sem par af frjósemisgoðum. Það er vitaskuld ekki sú túlkun sem Snorri Sturluson valdi síðar en guðinn í Hárbarðsljóðum er ekkert sérlega líkur Óðni í Eddu og enn síður í Heimskringlu.