Friedkin og trukkarnir
Kvikmyndin Sorcerer (1977) í leikstjórn hins snjalla en nýlátna William Friedkin sem ég hef áður vikið orðum að hér (það var skrif um Cruising nálægt jólum ef ég man rétt) naut lítillar hrifningar gagnrýnenda jafnt sem áhorfenda á sínum tíma og töldu margir skipbrot hennar marka dauða „nýja Hollywood“ með allri sinni tilraunastarfsemi og tilvistarangist en við tók Stjörnustríðsöld í Hollywood. Sorcerer er sannarlega ekkert bjartsýnisljóð heldur nöturleg lýsing á grimmd, spillingu og fátækt í Kólombíu á dögum hinnar langvinnu borgarastyrjaldar þar í landi. Fylgt er fjórum mönnum sem hver um sig hefur hrakist burt úr fyrra lífi og lifa nú í allnokkurri eymd undir dulnefni (konur skipta engu máli í þessari mynd). Hefst myndin á þeim fjórum ólíku sögum sem leiða mennina að lokum saman í kólombískum útnára. Þeim er þá boðið fremur óyndislegt en hálaunað starf sem er að keyra trukka með nítróglýseríni milli landshluta en sprengiefnið er orðið óstöðugt og gæti sprungið hvenær sem er en þar að auki eru ræningjar og ofbeldismenn á hverju strái. Augljóslega er hér á ferð vinna fyrir þá eina sem eru orðnir leiðir á lífinu. Sagan er byggð (líklega fremur lauslega) á skáldsögu Frakkans Georges Arnaud, Le salaire de la peur, sem hafði áður verið kvikmynduð með góðum árangri.
Mennirnir sem taka verkið að sér eru engir mátar og milli þeirra ríkir talsverð spenna og tortryggni en þeir þurfa þó að vinna saman gegn náttúruöflunum og öðrum ógnum til að eiga minnsta möguleika á að ljúka þessu erfiða verki. Í aðalhlutverkinu er Roy Scheider sem leikur seigan og staðfastan írskan bandítt; hann var mikil stjarna á þessum tíma (hver man ekki eftir Kjamma?) en það dugði ekki til að vekja áhuga á myndinni. Í hópnum er upphaflega einn gamall nasisti sem þykist heita Marquez en honum er svo stútað af draugfínum nýkomnum leigumorðingja sem vill fá starfið hans. Hinir tveir ökumennirnir eru Palestínumaður og niðurlægður franskur fjármálamaður (íslenskur kollegi hans hefði fremur skrifað bók en að fara til Kólombíu). Gammar sveima reglulega yfir þeim á erfiðu ferðalagi þar sem þeir þurfa að koma trukkunum yfir einbreiðar brýr (ógnarlangt og afar krefjandi atriði) og ótal aðra erfiða hjalla og í einu atriði hrekkir þá flissandi frumbyggi.
Augljóslega leika vígalegir en lúnir trukkarnir ekki minna hlutverk í kvikmyndinni en mennirnir sem eru þó oft í nærmynd, skítugir og sveittir. Annar hópurinn (tveir menn) springur í loft upp nálægt sögulokum og þeir tveir sem eftir lifa verða skömmu síðar fyrir árás stigamanna og eftir að hafa drepið einn þeirra fremur subbulega með skóflu stendur Roy Scheider einn eftir bíllaus og allslaus. Seinustu spor hans með sprengiefnið minna ekki lítið á ferð Sóma og Fróða til Mordor en hann skilar þó starfi sínu, er fagnað sem hetju og virðist standa með pálmann í höndunum í lokin þegar við sjáum að óvinir hans á Írlandi hafa þefað hann uppi og elt alla leið til Suður-Ameríku; þar með er myndinni lokið með dúndrandi raftónlist. Friedkin hefur þannig látið okkur mynda tengsl við aðalpersónur sem eru í lokin dauðar eða í bráðri lífshættu en svo myrkur boðskapur féll illa í kramið undir lok 8. áratugarins þegar hetjurnar áttu að sprengja helstirni í loft upp og fá verðlaun frá prinsessu í kjölfarið (nema þeir væru kafloðnir prímatar).
Sorcerer fékk litla viðurkenningu þangað til nýlega þó að hinn kunni kvikmyndarýnir Roger Ebert næði að vera á undan sínum tíma og hældi hann strax um 1980. En að lokum komust kaldhæðnin og svarti húmorinn aftur í tísku og nú telja ýmsir kvikmyndanördar (og ekki síður yngri kvikmyndagerðarmenn) hana vera snilldarverk. Má gleðjast yfir því að hinn skemmtilega önugi Friedkin hafi náð að lifa það endurmat.