Mannanöfn og matur
Árin 1973–1975 komu út á íslensku barnabækurnar Jósefína, Húgó og Jósefína og Húgó eftir sænska höfundinn Maria Gripe (1923–2007) með myndum eftir eiginmann hennar Harald Gripe (1921–1991). Bækurnar komu út í Svíþjóð 1961–1966 en Iðunn gaf bækurnar út hér á landi. Þýðendur voru þrír. Anna Valdimarsdóttir þýddi fyrstu bókina, Líney Jóhannsdóttir þá í miðið en Vilborg Dagbjartsdóttir þá einustu. Þýðendaskiptin hafa eflaust haft einhver áhrif á textann, þau kannski augljósust að aðalpersóna bókarinnar er sögð heita Anna Grå í þeirri fyrstu en í annarri bókinni heitir hún Anna Grámann. Óhætt er að segja að þessar þrjár bækur hafi skipt Gripe talsverðu máli. Hún hlaut Nils Holgersson verðlaunin árið 1963 fyrir Húgó og Jósefínu og var þar með komin á beina braut sem rithöfundur; áratug síðar tók hún við tvennum verðlaunum fyrir heildarframlag sitt til barnamenningar: helstu barnabókaverðlaunum Svíþjóðar, kennd við Astrid Lindgren, og alþjóðlegum barnabókaverðlaunum IBBY sem kennd eru við H.C. Andersen en áður höfðu þau verðlaun fallið í skaut höfunda á borð við Astrid Lindgren, Erich Kästner og Tove Jansson. Hér á Íslandi var bókum hennar einnig vel tekið og þannig fengu bæði Jósefína og Húgó verðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur sem besta þýdda barnabókin árin sem þær komu út. Maria Gripe lærði heimspeki og trúarbragðasögu á stúdentsárum sínum og áhrif þess á verk hennar eru auðsæ, ekki síst á þessar þrjár bækur sem fjalla um freistingar og fall, um útlegð og útskúfun, um tryggð og svik. Eitt helsta umfjöllunarefnið er barnsleg uppreisn Jósefínu gegn hlutskipti sínu en einkum skilgreiningu umheimsins á henni sjálfri sem fram kemur í því að hún hafnar eigin nafni. Hún heitir nefnilega ekki Jósefína Jóhanderson heldur hefur sjálf tekið sér það nafn í stað Anna Grå. Jósefínu finnst nafnið sem hún hefur hlotið við fæðingu íþyngjandi, að bera slíkt nafn sé „eins og að ganga í of stórum skóm“. Hún hefur því ritað nafnið með risastórum bókstöfum á botninn á pappakassa og ýtt honum lengst inn í klæðaskápinn. Þar bíður nafnið þess að falla að persónunni: „Og eftir það er Anna Grå ekki lengur til. Hún gleymist gjörsamlega“. Jósefína hefur reynt að taka völdin, vill ráða hver hún er og hvað hún heitir og þar með freista þess að skapa eigin persónuleika og eigið líf. Á Önnu er ekki framar minnst í þessari bók en í þeirri næstu hefur Jósefína skólagöngu sína og þá rís Anna upp eins og illskeytt afturganga. Skyndilega les kennarinn upp nafnið „Anna Grámann“ og allt snýst fyrir Jósefínu. Kennarinn er ekki tilbúin til að leyfa Jósefínu að bera nafnið sem hún hefur sjálf valið sér („í skólanum verður við að bera okkar réttu nöfn“) en málamiðlun næst strax í upphafi skólaársins með því að hún sleppir því einfaldlega að nefna Jósefínu Önnunafninu. Jósefína hafði verið dauðhrædd um að nafnið birtist aftur á öðrum skóladegi: „Þetta hræðilega nafn! Á það að ofsækja hana líka í dag?“. Löngu síðar hefst einelti gegn Jósefínu og nafnið er lykilatriði í því. Ofríkisstúlkan Gunnlaug kallar Jósefínu „Önnu Pönnu“ og hefur látið semja um hana heróp: „Anna Panna étur kex, átján hundrað sjötíu og sex“ eða „Anna Panna étur salt, átján hundruð þá var kalt“. Þó að fortíðin öll (einkum 19. öldin) sé greinilega frekar andstyggileg og nothæf í stríðni og hið sama gildir um þann hversdagslega mat kex og salt þá er aðalatriðið í stríðninni greinilega Önnunafnið. Og sögunni lýkur með að Anna á afmæli. Jósefína hefur líka hafnað afmælisdeginum: „Níundi desember er þegar kominn. Afmælisdagur Önnu. En Jósefínu dettur ekkert í hug, því þessi dagur er ekki haldinn hátíðlegur heima. Hún vill ekki heita Anna, þess vegna er tuttugasti og fyrsti ágúst látinn vera afmælisdagur Jósefínu. Án þess að gruna nokkuð illt fer Jósefína í skólann þennan dag“. Við tekur lokaeinvígi um réttinn til að skilgreina Jósefínu. Kennarinn vill ekki viðurkenna að Jósefína sé ekki Anna, heimtar að afmælissöngurinn sé sunginn og Anna hyllt. Jósefína lætur ekki undan, þakkar ekki fyrir sig og segist ekki heita Anna: „Hvað varðar þau um hvors annars afmælisdaga? Er það ekki einkamál þeirra sjálfra“. Við tekur ískalt nafnastríð en að lokum lætur kennslukonan undan, fer að hlæja og skrifar nafnið Jósefína á töfluna í stað nafnsins Anna. Jafnframt viðurkennir hún að Jósefína eigi sinn afmælisdag í ágúst. Stríðið er þannig unnið og í seinustu bókinni er ekkert minnst á Önnu Grámann (eða Grå). Kennaragreyið þjónar auðvitað tveimur herrum: annars vegar hinu opinberu kerfi sem viðurkennir ekkert nafn nema Anna Grámann. Hins vegar börnunum sem henni hefur verið treyst fyrir. Í fyrstu reynir Ingiríður Sveinsson kennari að gera málamiðlun en að lokum virðist hún átta sig á því að skylda hennar við Jósefínu er æðri en skyldan við ríkið. Barátta Jósefínu að mörgu leyti hliðstæð baráttu kúgaðra hópa hvarvetna í tíma og rúmi til að fá að skilgreina sjálfa sig. Í mörgum tilvikum er sú barátta rétt að hefjast.
Jósefína er líka í uppreisn gegn sjálfum Guði almáttugum. Hún hefur sinn fróðleik um Guð úr bókum: „Allir vita hver Guð faðir er. Hann er elztur á jörðu og á himnum. Hann er eldri en allt sem til er í heiminum, því að hann varð fyrstur til og skapaði síðan allt hitt aleinn. Á myndum virðist hann líka vera gamall og þreyttur. Jósefína á sjálf mynd af honum í bók sem pabbi faðir gaf henni. Hann er fallegur gamall maður með hvítt hár og skegg. Jósefína kallar hann Guð föður“. Börnunum í þorpinu finnst hún of gamaldags og hún ákveður að það sé vegna þess að hún á ekki nýjan kjól og er of síðhærð. Þess vegna klippir hún bæði sjálfa sig og kjólinn og er nú ósnyrtileg eins og börnin í þorpinu: „það gerir ekkert til. Því ósnyrtilegri sem krakkarnir eru, þeim mun meira láta þeir til sín taka“ og henni finnst „eitthvað bæði djarflegt og hættulegt við ósnyrtilegu börnin“. Hún kemur í þorpið svona klædd og tyggur tyggigúmmíið sitt kæruleysislega til að vera djarfleg og hættuleg. En börnin hlæja að henni og fara á sundnámskeið án hennar. Í örvæntingu sinni og félagslegri útskúfun ákveður Jósefína að synda í staðinn ein í litlum læk sem er kallaður Englalækurinn „því að það er sagt að lítil börn geti drukknað í honum og orðið að englum“. Henni finnst hún ekki góð og þæg eins og engill eftir að hafa breytt sér í nútímalegt barn en samt dettur hún í lækinn og er næstum drukknuð. Á seinustu stundu er Jósefínu bjargað – af manni sem hún þekkir strax af mynd sem Guð föður af myndinni í bókinni: „Já, hann er auðþekktur“. Hvort sem það stafar af sjálfsmyndarkreppu hennar eða sektarkennd hrapar hún strax að þeirri ályktun að Guð sé kominn að sækja hana til að vera með hinum englunum og muni binda enda á líf hennar. Hún ákveður að reyna að telja honum trú um að hún sé ekki hæf til að vera engill, hún sé einskis virði, og að lokum segir hún honum að hún hafi borðað af forboðna trénu og þá virðist maðurinn sem hún þekkir aftur sem Guð föður hætta við að taka hana til sín og snýr burt. En síðan kemur í ljós að Guð hefur ekki sleppt henni heldur er mættur á prestsetrið í líki garðyrkjumannsins Antons Guðmarssonar. Það blasir við Jósefínu að henni hefur mistekist að telja honum hughvarf og fá hann til að hætta við að gera sig að engli. Guð er kominn í garðinn og vill greinilega sækja Jósefínu: „Það er hún sem hann vill fá“. Jósefína hefur áður rætt hinn dularfulla nýja garðyrkjumann Anton Guðmarsson við nýja vinkonu sínu Lýru sem hefur sagt: „Garðyrkjumaður er hann nú ekki“. Þegar hún reynir að fá frekari vitneskju úr gömlu konunni um hver Anton sé segir hún: „Sést það ekki langar leiðir?“. Þó að það blasi líklega við flestum lesendum að gamla konan meinar eitthvað allt annað túlkar Jósefína þessi orð þannig að Anton sé Guð sjálfur og nafn hans verður frekara sönnunargögn fyrir hinu sama. Bókin er samin á þeim tíma sem framsetningin á Guði sem gömlum skeggjuðum karlmanni er farin að þykja gamaldags en Jósefína er saklaus fangi hennar. Þegar hún sér Anton fyrst eftir að hann bjargar henni frá drukknun finnst henni Guð vera kominn og allt sem gerist síðan staðfestir grun hennar. Það er mikill þurrkur þetta sumar og þegar Jósefína spyr hvort hann hafi ákveðið að það rigni ekki í dag svarar Anton: „Manneskjan spáir en Guð ræður“. Jósefína skilur þetta sem hótun: „Hann stendur þarna svo öruggur með sjálfan sig. Hann ræður, segir hann. Hann á við, að hann ráði líka yfir Jósefínu“. Jósefína sannfærist um að þurrkurinn sé hluti af bölvun sem stafi af henni, hún sé bannsett þar sem hún hafi óhlýðnast og neiti að koma með Guði þegar hann vill sækja hana í annan heim. Ekki bætir úr skák þegar hún sér guðsmynd sína, garðyrkjumanninn Anton Guðmarsson, horfa upp í himininn og segja: „Hann rignir ekki á morgun heldur“. Þetta skilur Jósefína vitaskuld sem áhrínisorð. Að lokum veikist Jósefína og hvað gefur Anton henni nema heila örk af glansmyndum af englum? Þetta er vitaskuld falleg gjöf frá gamla manninum — en í ljósi þess að hennar ótti og sannfæring eru að Guð vilji sækja hana til himna verða englarnir að enn einni hótuninni og viðbrögð Jósefínu eru að halda áfram að þrjóskast við; í þetta sinn klippir hún hausinn af öllum englamyndunum. Varla er hægt að hugsa sér stærri og róttækari uppreisn trúaðs barns. Það er ekki fyrr en þá að presturinn faðir hennar uppgötvar að eitthvað undarlegt er á ferð og veiðir alla söguna upp úr Jósefínu. Þá getur hana frætt um að ekki sé að marka myndir listamanna af Guði þar sem enginn viti hvernig Guð líti út og Anton sé aðeins venjulegur garðyrkjumaður sem hafi raunar áður verið sjómaður. Þar með léttir hann þungu fargi af Jósefínu. Hún er ekki lengur andstæðingur almáttugs Guðs sem er kominn til að deyða hana og hefur stöðvað rigninguna til að refsa henni. Í lok bókarinnar fer að rigna, eins og til staðfestingar á að Jósefína sé laus undan banni og bölvun.
Þegar Jósefína reynir að strjúka að heiman rekst hún á gamla konu sem minnir hana á norn en eins og sumar ævintýranornir á hún fullt hús matar og áður en varir hefur hún gefið Jósefínu hnefafylli af karamellum og þær verða vinkonur á yfirborðslegan hátt. Jósefína er stödd í miðju brotthlaupi og gerir ekki greinarmun á skáldskap og veruleika. Þannig blandar hún gömlu konunni Júdit Lýru í strokustelpusögu sína og „veit varla lengur upp á hverju hún á að finna til að fá fleiri karamellur“ og heldur áfram að skálda sögur um að hún eigi engin leikföng og sé lamin á prestsetrinu. Þetta finnst kerlingu áhugavert en öfugt við Jósefínu er hún ekki þátttakandi í ævintýri um strokubarn heldur tekur sögunni sem áhugaverðu slúðri um prestshjónin. Jósefína flýr frá Lýru með kettlinga sem átti að drekkja og ætlar ekki að koma aftur því að kattarmorðin hafa vakið óhug hennar en hún er þó ekki hólpin; dag einn hittir hún gömlu konuna aftur og nú er hún föst í eigin lygavef. Þó veit hún hvað er á seyði og kemur raunar í hug sagan um Hans og Grétu og nornina í sætabrauðshúsinu sem tróð í þau mat aðeins til að fita þau og éta en samt endurtekur sagan sig. Lýra býður henni ís, karamellur og tyggigúmmí og þar með er Jósefína keypt: „með munninn fullan af súkkulaðikremi og augun límd við kökufatið fyrir framan sig“. Þannig fellur Jósefína. Hún er keypt fyrir kökur til að segja raunasögur um erfitt líf sitt á prestsetrinu. Hún fer að kalla gömlu konuna „Lýru ömmu“ og sest í fang hennar og segir sögur gegn loforði um dúkkur. Hún finnur til í maganum og líður alls ekki vel enda að svíkja foreldra sína. Hún þráir samúð Lýru og sætindi en samt unir hún sér ekki vel því að það eru meinbugir á þessari nýju vináttu. Hún er grundvölluð á skröksögum og illmælgi og Jósefína getur ekki unað sér vel undir þeim kringumstæðum. Að lokum stendur hún á hleri og heyrir þá gömlu konuna tala í símann og rekja frásagnir hennar sjálfrar af illu atlæti sínu heima fyrir ókunnum hlustanda og þá rennur að lokum upp fyrir henni hversu stórkostleg svik hennar eru; hún hefur selt mannorð fjölskyldu sinnar fyrir kökur. Þetta veldur því að hún flýr í ofboði frá Lýru ömmu sem raunar skýtur löngu síðar upp kollinum eins og illur fortíðardraugur í bókinni Húgó. Um leið áttar hún sig á því að bölvunin sem hefur holdgerst henni í líki Antons Guðmarssonar er í nánum tengslum við hegðun hennar sjálfar. Það er ekki fyrr en fyrirgefningin birtist henni í skilningi og samúð föðurins að hún endurheimtir fyrri gleði. Í seinni bókunum leiðir sætinda- og matarfíknin Jósefínu í fleiri raunir sem lýkur með að hún setur sjálfri sér harðar en þó sveigjanlegar megrunarreglur.
Maria Gripe glímdi í sínum barnabókum við tilvistarspurningar eins og hver maður sé og um færi mannsins til að móta eigin sjálfsverund með húmor og íróníu að vopni. Eins kemur barnið sér í þá stöðu að hafna Guði og svíkja foreldra sína með lygum. Þó að Jósefína sigrist á erfiðleikunum kemur skýrt fram hversu brothætt og viðkvæm hún er og hvernig rökhugsun barnsins hleypur með hana í gönur sem eru bæði farsakenndar en um leið grafalvarlegar.