Prestsetrið og prentbókin (eða: það vantar fleiri síður eins og þessa)
Um daginn var Prestsetursins getið á hinni ágætu bókmenntasíðu Kaktusinn en ritstjóri hennar var að leita umfjöllunar og ritdóma um bókina og greip í tómt; datt helst í hug að það væri vegna þess að bókin væri gefin út á óhefðbundnum tíma. Eitthvað kann að vera til í því en á hinn bóginn er ekki hægt að segja að mikil bókmenntaumfjöllun fari fram í jólabókaflóðinu heldur. Staðreyndin er sú að umfjöllun um bókmenntir er að mestu horfin úr íslenskum fjölmiðlum og öðrum miðlum og meðal annars þess vegna er þessi síða til; ég kaus heldur að kveikja á eldspýtu en bölva myrkrinu. Ég hef líka fjallað um eigin bækur hér þó að hlutleysi sé ekki mögulegt en a.m.k. hef ég sannanlega lesið þær — á 15 ára ferli sem útgefinn höfundur hef ég nokkrum sinnum fengið umfjöllun í fjölmiðlum sem krafðist ekki lesturs nema kápunnar. Ekki er að búast við því að örfá tímarit geti gert öllum bókum ársins skil heldur þó að flestir höfundar kysu eflaust vandaða umfjöllun í tímaritum en stjörnugjöf fjölmiðla. Á öldinni sem leið fengu líka ótrúlega margar bækur ritdóma, allt frá 1 og upp í 10. Fjölmiðlar sögðu jafnvel frá efni tímarita líka og á þeim árum keyptu bókasöfn líka talsvert fleiri eintök af bókunum en nú er. Kannski liggur vitleysan í að binda trúss sitt við útdautt form!
Samt trúi ég því ekki að bókin sé í raun útdauð, þvert á móti er ég sannfærður um að það sé hægt að komast með aðstoð bóka á staði sem ekki er hægt að nálgast í neinu öðru formi vegna þess að athöfnin að lesa er annað en að hlusta eða horfa. Þar með geri ég ekki lítið úr hinu en ég held mig við lestur prentbóka vegna þess að ég trúi — sem raunvísindalegar athuganir staðfesta raunar án þess að ég telji þær alltaf færa manni mikinn sannleika umfram eigið innsæi — að það auki virkni heilans á jákvæðan hátt. Það kallar auðvitað á sérstakt samband höfundar og lesanda sem er alls ekki augljóst; öfugt við sviðsetningu leikverks eru höfundur og lesandi einir og hittast aðeins í textanum. Höfundur getur aðeins náð árangri með því að koma við kaun ókunnrar manneskju með berstrípuðum orðum og hefur engin önnur hjálpartæki. Þetta fellur mér raunar vel. Best þætti mér ef lesendur vissu ekki hvað ég heiti eða hvernig ég lít út. Mig dreymir um að eignast lesendur í framtíðinni sem vita ekkert um mig og vonast til að eiga einhverja slíka nú þegar. Sem höfundur öfunda ég Saffó ósköpin öll þó að sem manneskja njóti ég þeirra forréttinda umfram hana að draga enn andann.
Ekkert sem ég segi um Prestsetrið á þessari síðu getur komið í staðinn fyrir það sem aðrir góðir lesendur kynnu að hafa um bókina að segja á öðrum miðlum eða netinu yfirleitt en þar sem ég er að mestu utan samfélagsmiðla heyri ég fátt um það. Rithöfundar eru líka í erfiðri stöðu yfirleitt að fjalla um bækur og þess vegna ættu að vera til fleiri vefsíður sem flestra lesenda. Ég veit af lesendum Prestsetursins vegna þess að sumir hafa nálgast mig á kaffihúsum, málþingum, börum og á Laugaveginum (þeim eina sem ég hætti mér á) og sagt sína skoðun. Eins veit ég að sala bókarinnar er þokkaleg (hún varð metsölubók Íslands í viku eða tvær án útgáfuboðs eða fjölmiðlaumfjöllunar) þrátt fyrir hið sláandi umfjöllunarleysi sem Kaktusinn tók eftir og vakti athygli á. Öll sú sala er einungis vegna netkynningar útgefanda, reynslu kaupenda af fyrri bókum og hinu fræga „word-of-mouth“ sem virðist vera til í raunheimum þó að það komi lítið fram í netheimum. Mér finnst ágætt að eiga einhverjum skuld að gjalda fyrir góða kynningu og opinbert umtal en sem stendur eru þeir ekki margir. Stundum óska ég þess í laumi að eitthvað af því fólki sem hælir bókunum við mig — og ég er þakklátur fyrir það — gerði það síðan við aðra líka og kannski er sú raunin þó að það sjáist ekki á netinu. Allra best fyndist mér auðvitað ef fólk hefði samband og vildi ræða umfjöllunarefni bókarinnar eins og gerðist sérstaklega með Skollaleik fyrir tveimur árum. Sem betur fer er ekki útséð um það því að framhaldslíf bóka er alls ekki háð því sem gerðist fyrstu 5-6 mánuðina í lífi þeirra.