Dirk Bogarde og fjárkúgararnir

Þar sem Janet Green bar á góma hér um daginn ákvað ég að láta loksins verða að því að horfa á ensku kvikmyndina Victim (1961) eða Fórnarlambið. Hún var sýnd í sjónvarpi þegar ég var 13 ára en sennilega hefur ekki komið til greina að ég sæi hana fyrir fermingu. Þetta er spennumynd sem fjallar um fjárkúgara en sker sig úr þar sem fórnarlömb þeirra eru karlmenn sem hafa átt mök við aðra karla en þeir eru ekki fordæmdir nema af einstaka fordómafullum persónum þó að árið sé 1961 og athæfið bannað. Aðalpersónan er lögfræðingurinn Melville Farr (leikinn af Dirk Bogarde sem sjálfur átti mann og varð sennilega ekki stærri stjarna í Hollywood vegna þess að hann neitaði að kvænast til að sýnast). Farr er giftur en hefur átt í sambandi við ungan mann sem hann sleit af tillitssemi við konu sína en það er til ljósmynd af þeim og Farr vekur því athygli fjárkúgunarhrings. Konan íhugar að yfirgefa hann en þegar þjónn hans sér myndina af þeim unga manninum segist hann einfaldlega ekki hafa neina ástæðu til að draga heilindi Farrs í efa. Svipuð viðhorf koma fram hjá lögreglustjóranum sem telur lögin sem gera mök karla ólögleg bera mikla ábyrgð á fjárkúgurum.

Myndin snýst um siðferðislega glímu Farrs sem vill í fyrstu borga til að halda stöðu sinni og virðingu í samfélaginu en ákveður síðan að vitna gegn fjárkúgurunum til að fá lögunum breytt þó að hann viti að það geri frama hans að engu — ekki ósvipað hugrekki og Bogarde sýndi með því að leika í þessari mynd — og konan ákveður að lokum að standa með manni sínum enda var hann heiðarlegur við hana áður en þau giftust. Við sjáum líka í myndinni fjölbreytt úrval „öfugugga“ sem allir eru bara venjulegir menn, jafn fjölbreyttur hópur og restin af samfélaginu, sumir kjarkaðir, heiðarlegir og vinir vina sinna en aðrir ekki. Á tímum þegar til siðs var að hlæja að kvenlega skræka hárskeranum eða kjólasalanum er þessi fjölbreytileiki frekar hressandi.

Á endanum snýst þetta allt um að ná fram réttlæti fyrir „Boy“, unga manninn sem Farr hafði fallið fyrir en fremur sjálfsmorð eftir að hafa stolið til að borga fjárkúgurunum. Farr hefur sýnt honum kulda og hunsað hann seinustu mánuði en er í iðrunarkasti alla myndina; brennir þó myndina af þeim í lokin af því að konan hans virðist eiga rétt á því. Hún er hetja myndarinnar ásamt öðrum vini „Boy“ sem virðist aldrei íhuga nein önnur viðbrögð en að afhjúpa fjárkúgarana sem eru óyndislegt par, bitur eldri kona og ungur maður á mótorhjóli leikinn af Derren Nesbitt sem var vanur að leika nasista í kvikmyndum 7. áratugarins. Svo er gamall hattakarl sem mig grunaði lengi og virðist standa í eins konar fjársvikum en ekki vera beinlínis einn af fjárkúgurunum og ekki heldur litli bóksalinn sem var jafn heillaður af „Boy“ heitnum og allir aðrir og er bitur vegna andláts hans en virðist þó ekki vera í fjárkúgarahópnum.

Áðurnefnd Janet Green (höfundur The Long Arm og Midnight Lace) skrifaði handritið ásamt eiginmanni sínum. Það sést á því að hún hefur verið spök af viti og víðsýn langt umfram samtímann sem þarf ekki að koma á óvart miðað við gáfur hennar almennt. Það er líka gott að muna að þó að ekki sé hægt að gera kröfu til eldri bóka um nútímaleg viðhorf var fortíðin samt ekki einsleit og alltaf var til fólk sem sá það sem margir sjá nú.

Previous
Previous

Gosi og Wittgenstein

Next
Next

Prestsetrið og prentbókin (eða: það vantar fleiri síður eins og þessa)