Gosi og Wittgenstein

Barbie er ansi skemmtileg mynd en enginn hægðarleikur að reyna að ráða í hvað hún merkir. Á tímabili hélt ég að Greta Gerwig og Noah Baumbach væru jafnvel að hæðast að menningarfræðum enda vantar ekki tiltölulega merkingarsnautt orðalag eða frasa úr þeim um miðbik myndarinnar en að lokum snýst sagan upp í að vera nútímalegur Gosi, herhvöt til kvenna að hætta að vera dúkkur og verða manneskjur í staðinn. Fyrir utan lokaatriðið er myndin umvafin stundum yfirþyrmandi íróníu. Hún er beinlínis frá Mattel en gert er góðlátlegt grín að fyrirtækinu og eins goðsögninni um að Barbie hafi frelsað konur og leyst kynjajafnréttisvandann. Um leið er glímt við þann vanda að Ken er aðeins til sem viðhengi annars en fær ekki að vera hann sjálfur.

Fléttan í myndinni snýst um leikfangaland (Barbieland) og raunheiminn. Kona í höfuðstöðvum Mattel hefur verið að teikna daprar Barbiedúkkur og það hefur smitast yfir í leikfangaheiminn þannig að Barbie og Ken þurfa að ferðast yfir í raunheiminn til að leysa málið en þá kemur í ljós að Barbie er alls ekki talin sú frelsishetja kvenna sem hún taldi sjálfa sig vera — augljós skilaboð til hinna fjölmörgu frelsara og bjargvætta sem eru tíðir gestir í fréttum — og Ken fær þá hugmynd að flytja feðraveldið inn til Barbieheimsins sem verður síðan flækjan sem þarf að leysa með aðstoð Amy úr Superstore. Einhverjir einfaldir viðtakendur myndarinnar hafa andæft henni sem karlahatri sem merkir að Gerwig og Baumbach hafa náð að hrekkja fólk með menningarfræðiparódíu sinni. Mun eðlilegra er að túlka söguna sem þroskasögu Kens sem þarf að verða hann sjálfur í stað þess að vera viðhengi við Barbie. En svo finnst þeim það ekki nóg þannig að þau bæta við Gosa-sögunni um Barbie. Þannig grefur myndin á endanum undan dúkkunni sem hún hyllir samt líka.

Myndin er auðvitað fyndin á fremur saklausan hátt og fjarska litrík, maður getur ímyndað sér að það sé gaman fyrir hópa að fara á hana í bíó saman (ég sá hana bara einn í sjónvarpinu). Eflaust er hún líka góð fyrir vörumerkið sem lifir sennilega einungis af með allri þessari íróníu í nútímanum en þessi ofgnótt merkingarskýringa sem borin er á borð hefur fyrst og fremst þau áhrif á mig að fara að finnast að Barbie sé þrátt fyrir allt bara sæt dúkka og kannski ekkert merkingarbærari en leggur og skel voru áður en dúkkur urðu til. Á endanum merkja Barbie-dúkkur hvaðeina sem stelpur og strákar sem leika sér með þær ákveða og allar túlkanirnar sem kynntar eru í myndinni fá mig eiginlega til að líta á dúkkuna sem hálfgert tóm, eins og greyið hann Allan, vinur Kens, sem er orðinn afar þreyttur á eigin tilgangsleysi í Barbieheiminum.

Annars fór ég að hugsa um Wittgenstein og leikföng sem myndhverfingu þegar myndin var í algleymingi. Kannski eru Gerwig og Baumbach líka að reyna að segja eitthvað um veruleikann sem leik en þegar Gosaminnið er kynnt til sögu í lokin finnst mér boðskapurinn vera að þessi myndhverfing dugi skammt. En kannski er Barbie fyrst og fremst klárasta og hæfileikaríkasta fólk Hollywood að leika sér eins og börn og þá væri bara vitleysa að spyrja um merkingu og boðskap.

Previous
Previous

Til hamingju, Jon Fosse!

Next
Next

Dirk Bogarde og fjárkúgararnir