River og Keanu

Eitt af því sem ég man eftir úr fyrstu utanlandsferð minni í ágúst 1992 er bíóið á Piccadilly þar sem voru risavaxnar auglýsingamyndir af Keanu Reeves og River Phoenix í My Own Private Idaho í leikstjórn Gus Van Sant sem ég hafði séð í Laugarásbíó í upphafi sama sumars en allur munur var á því hversu hátt myndin fór í Lundunum og á Íslandi sem segir sennilega sína sögu um þessi tvö samfélög á þeim tíma. Sennilega varð mér starsýnt á þessar myndir á afmælisdegi Phoenix árið 1992 og í gær átti River líka afmæli án þess að ég myndi það en eitthvað dró mig til að horfa aftur á myndina sem ég hef ekki séð árum saman (og í kjölfarið I Love You to Death sem River og Keanu eru líka báðir í ásamt einvalaliði og er enn fyndnari en mig minnti). My Own Private Idaho var og er besta og sannasta mynd Van Sant (betri en þær tvær sem hann fékk óskarstilnefningu fyrir þó að það séu alveg punktar í Good Will Hunting) en ég man ekki lengur hvort fjölskyldan átti eftir að sjá hana saman heima. Sannarlega höfðum við öll séð Hinrik 4, fyrri og seinna hluta en þau ágætu Shakespeare-leikrit eru innblástur myndarinnar að hluta. Pabbi fékk alla Shakespeare-syrpuna frá RSC í fimmtugsafmælisgjöf en mig grunar að ég hafi verið sá eini í fjölskyldunni sem náði að sjá öll leikritin og þekkti auðvitað allar Shakespearevísanirnar í þessari mynd um karlhórur í vesturhluta Bandaríkjanna.

Shakespeare var mjög virðuleg ástæða til að hafa gaman af myndinni, einnig innsýnin sem hún veitti í líf flækinga og jaðarfólks í vestrinu (ekki bara Idaho heldur líka Oregon og ríkinu Washington) en á þeim tíma var tilfinningasamband aðalpersónanna Mike og Scott sem River og Keanu léku alls ekki í tísku í heiminum og sérlega vandræðalegt hér á landi. Þeir vinna fyrir sér sem hórur og leggjast með bæði konum og körlum og stundum hvor með öðrum í gamni en þegar Mike (River) játar Scott (Keanu) ást sína verða hvörf í sögunni og þar sem persóna Keanu er í raun forstjórasonur í uppreisn (hliðstæða prinsins í Hinrik 4.) getur hann nú hafnað jaðarlífsstílnum og snúið aftur til ríkidæmisins með stúlku sem hann hefur kynnst á Ítalíu. Hinn á engan slíkan kost og verður eftir í heimi flækinganna þar sem óblíð örlög bíða hans sennilega. Við skiljum við hann á veginum og tveir dularfullir menn draga hann sofandi inn í bíl sinn, vonandi ekki í illum tilgangi (nema þetta sé draumur).

Aukaflétta í sögunni var svefnsýkin sem Mike var illa haldinn af og er nýtt til að gefa allri sögunni draumkennt yfirbragð og rímar vel við ýmis furðuelement í frásagnarhættinum (t.d. tvær einkennilegar stillikynlífssenur). Fyrir vikið er stundum erfitt að átta sig á hvað eigi að vera veruleiki og hvað draumur og þó að Van Sant lagi Shakespearesamræðurnar að nútímamáli eiga einnig þær sinn þátt í að skapa sérkennileg framandgervingaráhrif, sem og frammistaða Udo Kier í myndinni (hann dansar við lag eftir hinn dásamlega Klaus Nomi heitinn sem ég þarf einhverntímann að gera skil á þessari síðu). Í einu eftirminnilegasta atriði myndarinnar eru River og Keanu forsíðumynd á klámblaði og spjalla við aðra forsíðustráka út úr klámblöðunum sem eru öll saman á einum vænum klámblaðabúðarvegg ætluð kúrekaklæddum graðnöglum. Atriðið þar sem Mike ræðir ást sín við hinn óviljuga Scott við varðeld var að verulegu leyti samið af River Phoenix sjálfum; það var mun straumlínulagaðra í upphafi en River vildi hafa það langt og óþægilegt til að endurspegla hversu berskjaldaður sá sem elskar væri á slíkum stundum og fyrir vikið hafa eflaust margir fundið sig í því. Þar með breytti hann allri myndinni og ber kannski mesta ábyrgð á því hve fersk hún er ennþá. Um leið setur hann óvæntan kærleik í fremur nöturlegt og ógæfulegt líferni þeirra félaga sem ella einkennist iðulega af harðneskjulegri sjálfsbjargarhvöt.

Vegna þess að River Phoenix dó ári síðar (á trölladaginn 1993) og þeir Keanu Reeves urðu miklir vinir utan bíómyndarinnar hættir manni til að gleyma stundum persónunum og sjá leikarana í staðinn eins og á risastóru kynningarmyndunum á Piccadilly forðum, það er eins og í söguþræðinum hafi leynst forspá um vini sem hurfu hvor í sína átt, annar í faðm dauðans en hinn náði á þann hátind Hollywood að verða (að vísu mjög óvenjuleg) hasarmyndahetja.

Previous
Previous

Allir drepa yndi sitt – og þó

Next
Next

Heimili höfunda