Heimili höfunda

Um allan heim eru heimili rithöfunda til sýnis fyrir fólk sem elskar bækur þeirra, þar á meðal þá sem aldrei hafa lesið þær (eða ætti maður að segja hlustað á til að vera nútímalegur?) en unna samt hugmyndinni um fólk sem skrifar bækur. Drekkur fólk anda bókanna úr þessum fögru stofum og húsgögnum? Hvað segir rúm rithöfundarins okkur? Ég hef sjálfur átt sama rúm í 25 ár sem er ekkert sérstakt og ég hef alls engar tilfinningar til þess en það hefur gegnt sínu hlutverki ágætlega og ég sef furðu vel í því miðað við önnur rúm en á ekki von á að nokkur eigi eftir að vilja sjá kodda sem ég svitnaði í á þessum örfáu hlýju sumarnóttum á þessu landi. Rúmið er í minni kantinum. Framtaksamari manneskja væri búin að kaupa nýtt. Ég var svo heppinn að rúmið var keypt þegar ég var í útlöndum þannig að ég þurfti ekki að setja það saman því að eigi ann ég IKEA og get ekki sett saman hluti. Sennilega þurfti Emily Dickinson aldrei að hafa áhyggjur af því að einhverjum fyndist hún ætti að kunna að setja saman rúm. Hún þurfti ekki heldur að hafa áhyggjur af flutningum því að hún dó í sama húsi og hún fæddist. Eða af því að enginn keypti bækurnar hennar því að hún gaf aldrei út bók í lifanda lífi. Sennilega væri hún óþekkt ef yngri systir hennar hefði ekki ákveðið að koma ljóðum hennar á prent. Stundum er ágætt að eiga óþekk yngri systkini. Emily Dickinson er stórskáld en finnur maður það með því að stíga inn í svefnherbergi hennar í Amherst sem í fljótu bragði virðist passa einkennilega illa við þær myndir sem maður man eftir af skáldinu?

Sennilega er fáar vísbendingar að hafa úr rúmi rithöfundar um hugsanir hans. Rúm H.C. Andersens er fyrst og fremst venjulegt rúm frá fyrri hluta 19. aldar, þar sjást engar litlar hafmeyjar eða staðfastir tindátar hversu lengi sem leitað er. Satt að segja minnir það ekki einu sinni á prinsessuna á bauninni, sögu sem fjallar þó beinlínis um rúm. En samt er gott að heimili hans er safn því að þar getur fólk séð húsgögn frá 19. öld sem því finnst væntanlega fastara í hendi en textar (þó að það sé raunar misskilningur). Eins gott að fæstir eru fornleifafræðingar því að fyrir þeim eru hlutir líka textar og kannski ekki svo handfastir. Breytir það sögum Andersens í huga lesendanna að sjá rúmið? Tæplega því að þær snúast fæstar um bernskuheimili hans en sennilega er gott að sjá gömul húsakynni (og sjá að rúmið hans er enn minna en mitt en hins vegar með himni) og þekkja útlit þeirra sem þar bjuggu. Mér fannst skemmtilegt upp úr 2000 að segja MR-ingum í 5. bekk að kistillinn sem við stóðum við á Þjóðminjasafni væri kistill Staðarhóls-Páls þar sem ljóð hans var á dagskrá það misseri og 16. aldar kistill ókunnugs manns er aldrei jafn heimilislegur og kistill mannsins sem orti „Eikarlundinn“.

Sum hús rithöfunda eru auk heldur glæsihús sem gaman er að skoða óháð því hver bjó þar. En eitthvað segja þau kannski um höfundinn, a.m.k. ef hann flutti sjálfur í húsið ótilneyddur. Módernískt heimili Halldórs Laxness í Mosfellsdal segir manni að hann hafi viljað fylgjast með og heyra til sínum samtíma, framvarðarsveitinni. Þar er líka stofa sem er kjörin til tónleikahalds og erinda, öfugt við mína stofu sem er fulllítil fyrir sjö og miðja hennar er óþægilegt eldgamalt borð með oddhvössum hornum en hjartað er sófinn þar sem ég horfi á sjónvarpið (sem lesendur þessarar síðu ættu að vita allt um). Ég kom einu sinni í Gljúfrastein meðan Halldór lifði og það minnir mig á kynslóðina sem hann heyrði til og ég kynntist lítillega á fyrstu 30 árum mínum. Skriðuklaustur segir eitthvað annað um Gunnar Gunnarsson en obbann af sínum verkum skrifaði hann samt áður en hann flutti þangað og hóf að spilla þeim af engu minni áfergju en George Lucas sínum verkum. En er ekki dæmigert að höfundur Sögu Borgarættarinnar hafi reist sér slíkan herragarð? Arkítektinn var víst nasisti, sér maður það líka á húsinu? Skriðuklaustur er sannarlega tignarlegt heimili og veitir örugglega innblástur, óháð stjórnmálaskoðunum arkítekts eða andagift höfundarins.

Langflestir höfundar bjuggu á ýmsum stöðum sem er kannski ágætt því að þá geta fleiri eignast örlítinn hlut í höfundinum. Helgir dómar dýrlinga gátu sannarlega dreifst víða á sínum tíma og kannski líður fólki sem stígur inn í hús höfundarins svipað og þeim sem lágu á bæn við löngutangarkjúku Krists á miðöldum. Það gat verið leið til frelsunar og kannski finnur fólk sem heimsækir heimili látins rithöfundar fyrir frelsistilfinningu og þátttöku í arfi aldanna. Þátttaka í menningunni er mikilvæg, kannski það sem núna minnir einna mest á trúrækni fyrri alda og hús er kannski greiðara inngöngu en sumir textar. Sennilega hafa ekki allir sem sótt hafa heim hús Hermans Melville á Englandi náð að komast í gegnum Moby-Dick (en kannski er safnið ómaksins virði þó ekki væri nema einn gestur fylltist óþreyju og læsi þá hvalkynjuðu bók). Það er synd að Melville var ekki auðugri og hafði ekki kynnst 21. aldar arkítektum og gat því ekki reist sér hús sem leit út eins og hvítur hvalur.

Langflestir höfundar sem ég hef lesið um hafa verið á móti ævisögum rithöfunda og sagt að fólk ætti frekar að lesa textana. Nýlega las ég aftur í ævisögu Wystans Audens eftir Humphrey Carpenter þar sem Carpenter heitinn hefur einmitt leikinn á því þversagnakennda hlutskipti að hafa sett saman ævisögu manns sem sagðist ítrekað vera á móti ævisögum höfunda (umræðunni lýkur á að Carpenter telur að Auden hefði kannski verið jákvæður; sjálfur er ég ekki jafn viss). Ég játa að ég er á svipaðri línu og Auden. ef til vill þess vegna hef ég ekki farið í mörg rithöfundahús en líður samt alltaf ágætlega þar, communio sanctorum og það allt.

Previous
Previous

River og Keanu

Next
Next

Aðeins tengsl