Aðeins tengsl

Ég kynntist breska höfundinum E.M. Forster í bíó áður en ég las allar bækurnar hans (líka þessa sem ekki hefur verið kvikmynduð!) og núna á ég þrjár sem ég las aftur og aftur, núna síðast Howard’s End í sumar en kvikmyndin sem framleiðandinn Ismail Merchant, leikstjórinn James Ivory (sem enn lifir) og handritshöfundurinn Ruth Prawer Jhabvala gerðu eftir þeirri bók var fyrsta kvikmyndin sem ég sá í útlöndum, í fyrstu utanlandsferð minni í ágúst 1992. Hún var auðvitað ótextuð og þó að ég skildi ensku fór eflaust margt framhjá mér, t.d. inntak merks erindi um fimmtu sinfoníu Beethovens sem gleður mig æ meir eftir því sem ég horfi oftar á myndina. Myndin skartar Anthony Hopkins, Emmu Thompson, Vanessu Redgrave og fleiri stórleikurum og sérstaklega þau þrjú hafa sjaldan leikið betur en í það sinn. Ég hef oft séð hana aftur síðan og líka sjónvarpsþætti eftir bókinni (sem voru prýðisgóðir þó að erfitt sé að keppa við þau Hopkins) og að lokum pantaði ég bókina að utan og hef lesið margoft, oftar en hinar sem ég á í hillu: A Passage to India og A Room With a View. Forster skrifaði allar sínar skáldsögur 25-45 ára, eftir það samdi hann aðeins smásögur og leikrit og ekki í bílförmum. Síðan sendi hann frá sér eina ágæta litla bók um list skáldsögunnar því að hann var ekki einn af þessum höfundum með minnimáttarkennd sem hatast við bókmenntafræði. Sem maður um fimmtugt skil ég hann vel að hafa einfaldlega hætt þessu, stundum hefur maður bara sagt nóg.

Fyrir neðan titil sögunnar er ein lína “Only connect …“ sem ég hef eðlilega velt mikið fyrir mér. Ýmsum höfundum finnst við hæfi að hefja bækur sínar og einstaka kafla á lýsandi tilvitnunum (ég hef sjálfur gert það, tvær hefjast t.d. á ljóðlínum). Hefði Forster ætlað að segja meira hefði hann gert það og kannski er best að halda því opnu hvað hann vildi tjá en augljóslega vísar þetta til hinna margháttuðu tengsla Wilcox-fjölskyldunnar og Schlegel-fjölskyldunnar sem lýst er í sögunni og sérstaklega Margaret Schlegel sem kemur tvisvar á góðu sambandi við hina þurrpumpulegu nágranna. Systur hennar Helen tekst það raunar líka en það endar með ósköpum. Önnur augljós skýring á orðunum eru tengslin milli heilans (sem Wilcoxættin er fulltrúi fyrir) og hjartans eða tilfinninganna (sem Schlegelættin holdgerir). Þetta eru fjölskyldur með afar ólík gildi en þó eru Margaret Schlegel og hin dularfulla og sveimandi en þó afar jarðbundna Ruth Wilcox á einhvern hátt sálufélagar sem Ruth reynir að tjá með því að gefa Margaret húsið sem nafn sögunnar er sótt í. Ættingjar hennar hunsa þann vilja en allt kemur fyrir ekki og húsið ratar að lokum á réttan stað.

Eitt af því sem ég fór að hugsa um þegar ég las bókina enn einu sinni er að okkur langar sennilega öll til að vera eins og hin gáfaða, listræna og tilfinninganæma Schlegel-fjölskylda (mér fannst frá upphafi að hér sé mínu eigin fólki lýst) sem hugsar heildrænt um allt en ekki hin borgaralega, stífa og peningamiðaða Wilcox-fjölskylda sem nýtur sín best í kaldrökréttu umhverfi nefndarinnar (sjá tilvitnun að neðan) og kann að flokka heiminn í parta. Í bókinni hittast fjölskyldurnar og renna saman á margvíslegan hátt og nánu tengslin sem lýst er þekkja eflaust allir úr sinni stórfjölskyldu. Margaret er sú sem tekur ábyrgð, heldur öllu saman og gefur eftir til að allt gangi upp og verður fyrir aðkasti frá Helen systur sinni sem vill stundum frekar rjúfa tengsl en gefa afslátt. Í fjölskyldum er líka alltaf einhver sem er stikkfrí eins og hinn magaveiki og ofnæmissjúki Tibby Schlegel (augljóslega sú persóna sem ég tengi mest við) eða hinn myndarlegi Paul Wilcox sem þó hefur ekki sjarma Tibbys. Charlie Wilcox telur sig alltaf tala fyrir munn fjölskyldu sinnar þó að enginn beri í raun virðingu fyrir honum eða falli við hann. Og að lokum er það Henry Wilcox sem er bæði góðgjarn en líka hugsunarlaus. Margaret tekur peninga hans og þvermóðsku í sátt en er ekki tilbúin að samþykkja hræsnina og grimmlyndið sem síðar afhjúpast. Til átaka kemur sem hún hlýtur að vinna sem mikilvægasta manneskjan í fjölskyldunni.

Það skortir ekki siðferðisspurningar í verkið líkt og stórvirkið Ferðina til Indlands, einu skáldsöguna sem Forster samdi á eftir þessari (og sem ég skrifaði smávegis um í fyrra þegar hún kom út á íslensku) og þær snúa meðal annars að sambandi Schlegel-fjölskyldunnar við hinn kornunga fátæka Leonard Bast sem er draumóramaður og leggur í miðri bók upp í langa óskipulagða gönguferð út úr Lundúnum án þess að eiga neitt erindi. Systurnar eru æstar að hjálpa honum en í raun gera þær honum þá meira mein en gagn af því að þær hafa góðan vilja en enga praktíska þekkingu. Það er einmitt sá gjörningur sem veldur rofinu milli Henry Wilcox og Helen Schlegel en Forster sýnir með þessu flækjurnar í sambandi ólíkra stétta og tekjutíunda í Englandi á þessum tíma. Bretland var og verður eitt stéttskiptasta samfélag Evrópu og það getur hvílt þungt á framfarasinnuðu fólki eins og Forster. Sögur hans fjalla þó alltaf fremur um ást í víðasta skilningi þess orðs en stéttabaráttu enda hefur hún legið honum meira á hjarta þrátt fyrir alla hans pólitík; hann sagði eitt sinn svo frægt er orðið að ástin væri lýðræðinu æðri. En ástin í bókum Forsters er flókin og það sést hvergi betur en í þessari bók um tvo systkinahópa og misástrík hjónabönd andstæðna.

Previous
Previous

Heimili höfunda

Next
Next

Lestir bruna, fullar af njósnurum