Lestir bruna, fullar af njósnurum
Sama ár og Hitchcock kvikmyndaði sögu Josephs Conrad, The Secret Agent, undir heitinu Sabotage eins og ég ræddi um daginn sendi hann líka frá sér kvikmynd undir heitinu Secret Agent sem var byggð á tveimur smásögum W. Somerset Maugham um hinn dularfulla Ashenden. Þess má geta að Somerset Maugham var mun frægari alþjóðlega um 1950 en flestir aðrir enskir rithöfundar og sérstaklega náði hann vel til lesenda í öðrum heimshlutum (þetta veit ég vegna þess að það er ágæt heimildarmynd um hann á Youtube). Núna hittir maður stundum enska menntamenn (nafngreini engan!) sem hafa aldrei heyrt hann nefndan þó að því verði varla trúað. Hitchcock fékk hinn kunna sviðsleikara John Gielgud til að leika Ashenden en Gielgud fannst reynslan óþægileg og forðaðist kvikmyndir næstu 17 árin (en sættist seinna við kvikmyndaleik sem góða leið til að sjá eigin baksvip). Á móti honum lék Madeleine Carroll sem margir gagnrýnendur hafa talið erkitýpu Hitchcock-kvenhetjunnar (á undan m.a. Grace Kelly og Tippi Hedren) en hún varð í kjölfarið launahæsta leikkona í heimi í nokkur ár. Peter Lorre snýr aftur eftir leiksigur í fyrri mynd Hitchcocks (sjá enn aðra grein mína), er slepjulegur sem aldrei fyrr en í þetta sinn í liði með hetjunni og „comic relief“ sögunnar. Helsti andstæðingurinn er leikinn af Robert Young sem var vinsæll kvikmyndaleikari á 4. og 5. áratugnum en flutti sig þá alfarið í amerískt sjónvarp þar sem hann lék notalegar pabbatýpur sem vissu best. Hitchock-myndir snúast annars sjaldan um að finna skúrkinn; þetta er eitt örfárra dæma um slíka uppljóstrun eftir miðja mynd.
Myndin er ágæt en hefur samt þótt einna síst af þeim sjö myndum sem Hitchcock gerði milli 1934 og 1939, fyrsta blómaskeiði sínu. Ég tók eftir því sama og í seinustu viku: það er engu líkara en frjálslyndi og kvenfrelsi sé heldur meira á þessum tíma en eftir seinna stríð allt fram að aldamótunum. Mikill hluti myndarinnar gerist annars í lest og lestin átti eftir að verða áberandi frásagnarminni hjá Hitchcock. The Lady Vanishes (1938) gerist líka að verulegu leyti í lest og eiga slíkar sögur eflaust ríkan þátt í lestarrómantík nútímamannsins; margir Íslendingar hafa enn ekki sætt sig við lestarleysið en þegar kemur að strætó er engu líkara en þeir hafi horft yfir sig á Sabotage (það þarf að lesa eldri grein til að skilja þennan brandara sem má á minni síðu). Höfundurinn Ethel Lina White (1876–1944) hefur ekki öðlast viðlíka frægð og Conrad en tvær skáldsögur hennar voru kvikmyndaðar, ein þeirra af Alfred Hitchcock sem notaði oft verk kvenna og ég er farinn að halda að hann hafi ekki síst slegið í gegn vegna þess að hann sá ekki aðeins karla heldur líka konur (a.m.k. elskaði mamma heitin þennan afmælisbróður sinn þó að hann hafi fengið hana til að æpa opinberlega í Danmörku þegar hún sá Psycho). Ég hafði áður séð tvær aðrar myndir með sama titli og fléttu (frá 1979 og 2013) en ekki hina upphaflegu fyrr en um daginn sem hluta af Hitchcock-átaki mínu.
Eins og ýmis eldri verk Hitchcocks virðist þetta í fyrstu vera gamanmynd en síðan hefst löng og flókin paranoiu-saga þar sem söguhetjan Iris er grunuð um að vera geðveik þar sem enginn kannast við eldri konuna ungfrú Froy sem er horfin. Ofsóknaræðið er í nánum tengslum við óþægindi Breta við að vera erlendis, vantrú þeirra á öðrum þjóðum og kunnáttuleysi í öðrum tungumálum. Iris nýtur aðstoðar tónlistarþjóðfræðings sem henni var upphaflega illa við en aðrir farþegar virðast allir þátttakendur í samsæri gegn henni, ekkert ósvipað og í martröð en raunar hafa þeir ýmsar ástæður, fæstar illar og sumar ótengdar henni (vilja t.d. ekki vera of seinir heim, missa af mikilvægum krikketleik eða vera vitni í loðnu sakamáli). Úr sakamálinu greiðist að lokum, gamla frúin finnst aftur og lestarfarþegarnir fara að vinna saman að lokum. Sagan er bæði flókin og flækt, geymist illa í mínu minni og erfitt að kyngja henni á köflum, t.d. því að njósnarar miðli upplýsingum með tónum sem næsti aðili þarf að leggja á minnið. Hér er hins vegar komin uppskrift sem reyndist Hitchcock vel, martraðarkennd reynsla krydduð með kímni. Hann er með launfyndnari kvikmyndagerðarmönnum og húmor hans eldist vel.
Þar sem ég er sérstakur áhugamaður um aukapersónur og ætla að helga þeim sérstaka fræðibók þótt síðar verði (planið er allgamalt) er rétt að minnast á vinina Charters og Caldicot sem eru leiknir af Basil Radford og Naunton Wayne. Þeir eru miklir áhugamenn um krikket og ræða fátt annað og þóttu fanga breska þjóðarsál svo vel að persónurnar öðluðust framhaldslíf og fóru að birtast í hinum og þessum kvikmyndum annarra leikstjóra um annað efni á 5. áratugnum, alls tólf, fyrst beinlínis undir þeim nöfnum en eftir höfundarréttardeilu undir ýmsum nöfnum. Radford lést 1952 og Wayne sást lítið á hvíta tjaldinu síðan en frá þeim tíma hafa Bretar elskað tvo náunga sem grínast saman í sjónvarpi (þið munið eflaust öll eftir einhverjum).