Misskilinn Mozart
Vel þekkt persónugerð úr íslenskum fornsögum er kolbíturinn, óefnilegur ungur piltur sem umbreytist í hetju (stundum vegna nauðsynjar) eftir að hafa eitt bernskunni í leti og ómennsku, gjarnan nálægt eldstæði. Hugtakið er notað um fjölmargar slíkar „öskubuskur“ í Íslendingasögunum og fornaldarsögum en í sjálfum miðaldaheimildunum er orðið reyndar ekkert mjög mikið notað. Þó að erfitt sé að tímasetja fornsögur má vera að þessari hetjugerð vaxi fiskur um hrygg í sögum frá 14. og 15. öld. Eitt dæmi er Ketill hængur úr sögunni sem er við hann kennd sem er bæði kallaður “kolbítur” og “eldhúsfífl” en hetjan Starkaður Stórverksson er kallaður “hímaldi og kolbítur” í Gautreks sögu, í báðum tilvikum er orsökin leti sem jaðrar við stjarfa, og sókn eftir makindum eldstæðisins. Króka-Refur er líka sagður „eldsetinn“ áður en hann sannar sig. Lykilatriði kolbítssögunnar er að enginn á von á að það rætist úr kolbítnum, sagan snýst um óvæntan styrk hetjunnar.
Þar með snúast kolbítssögur um samfélagslegt vanmat, um ungt fólk sem aðrir trúa ekki á en reynist búa yfir ýmsum hæfileikum. Lærdómurinn af vanmatinu er að ekki skuli dæma fólk af hegðun þess í bernsku eða afskrifa of snemma því að kolbíturinn býr yfir hæfileikum sem engan hafði órað fyrir. Að sjálfsögðu sækir minnið styrk sinn í þá staðreynd að margir unglingsstrákar eru býsna álkulegir fram að 17-18 ára aldri (það er beinlínis til sjónvarpsefni af mér frá þeim tíma, takk fyrir) en síðan rætist úr þeim þegar þeir nálgast tvítugt. Miðaldasögur geyma líka fjölmörg dæmi um hið gagnstæða, svonefnda puer senex sem sýna strax í bernsku hvað í þeim býr, það á t.d. við um flesta dýrlinga. Þá eru til hetjur sem eru efnilegar í bernsku eins og Egill Skalla-Grímsson sem getur ort dróttkvætt á 4. ári en nýtur einskis skilnings eða stuðnings föðurins og verður því vandræðabarn þrátt fyrir óumdeilda hæfileika, eins og Mozart hefði kannski orðið ef honum hefði ekki verið leyft að spila á hljóðfæri.
Á 20. öld stofnaði hinn frægi J.R.R. Tolkien klúbb um lestur Íslendingasagnanna sem hann kallaði „kolbítana“ og var þar um augljóst sjálfsháð að ræða. Þar kynntist hann m.a. C.S. Lewis (sjá mynd að neðan) og síðar þróaðist klúbburinn inn í almennan gáfumannaklúbb sem snerist um flest annað en Íslendingasögur. Samkvæmt leitarvélum er eldri hópurinn samt mun frægari alþjóðlega en íslensku kolbítarnir í miðaldasögum sem verðskulda mun meiri fræðilega athygli en þeir virðast hafa fengið hingað til.