Í greipum úthafsins

Við Netflixnotendur höfum verið svo heppin að þar hefur undanfarið verið að finna kvikmyndina The Cruel Sea frá 1953 sem byggð er á skáldsögu Nicholas Montsarrat með sama nafni (1951) en sú var byggð á reynslu hans sjálfs í enska flotanum í orustunum um Atlantshafið. Það er myndinni til happs að hún var gerð átta árum eftir að stríðinu lauk því að hún er alveg laus við stríðsrembu og væmni en lýsir á sannferðugan hátt erfiðu hlutskipti hermanna sem margir voru lítt reyndir í byrjun þess. Þannig er skipstjórinn Ericson með fjóra undirmenn sem allir eru tiltölulega nýkomnir í herinn, höfðu takmarkaða reynslu af sjómennsku og vitaskuld enn minni af sjórustum enda farnast þeim misvel. Einn er svo leiðinlegur að félagar hans losa sig við hann með því að sannfæra náungann um að hann sé að fá botnlangakast, en annar (greinilega byggður á Montsarrat sjálfum) hafnar stöðuhækkun til að fylgja kapteininum allt stríðið á enda. Í lok myndar eiga þeir stuttar og kaldhamraðar samræður sem sýna náin en óorðuð tilfinningatengsl þeirra og gagnkvæma virðingu.

Myndin er óvenjuleg að því leyti að það er beinlínis rætt í henni um samskipti karlmanna þegar kvenhermaðurinn Hallam harmar það að konur fái ekki að kynnast undir svo mikilvægum og válegum kringumstæðum. Ekki eru þau kynni þó öll farsæl, flestir sem fylgja Ericson og Lockhart á upphaflega skipinu eru látnir eða komnir á spítala í lok myndarinnar. Það á m.a. við um Morell sem er svo óheppinn að eiga lausláta konu í landi (mikið „slutshaming“ í gangi sem er ljóður á annars ágætri mynd) og Ferraby sem brotnar undir álagi þegar skipinu hefur verið sökkt. Enginn hallmælir honum enda kringumstæðurnar ótrúlega erfiðar og margir þegar drukknaðir þegar Ferraby fer yfir um. Samt er eins og gefið hafi verið til kynna með myndatökunni allan tímann að hann væri brothættari en hinir.

En það er ekki aðeins flotanum sem er ógnað. Ein átakanlegasta sena myndarinnar er þegar vinirnir Tallow og Watts snúa heim til systur Tallows sem Watts hefur fengið hug á en þá reynist heimili systkinanna rústir einir og systirin komin í gröf með nágrönnum sínum. Gaman er að segja frá því að Ísland er nefnt í myndinni en annars er hún almennt frekar sorgleg á sinn lágstemmda hátt. Átakanlegasta atriði myndarinnar er líklega þegar Ericson getur bjargað sjómönnum en fórnar þeim af ótta við þýskan kafbát sem gæti nýtt tækifærið til að sökkva skipinu hans. Þetta er sannarlega úlfakreppa að vera í og þó að enginn efist um réttmæti ákvörðunar hans (nema sjóliðinn sem æpir „morðingi“ á hann) þá þarf Ericson að lifa með þessari hræðilegu ákvörðun.

Í lok myndarinnar ræða Ericson og Lockhart samveru sína og þá kemur í ljós að þeir náðu að sökkva alls tveimur kafbátum á fimm árum en fannst það samt mikið á þessum tíma. Þessar samræður varpa skýru ljósi á fánýti stríðsins og verðleysi mannslífa í slíkum hildarleik.

Previous
Previous

Misskilinn Mozart

Next
Next

Bryson meðal breskra