Bryson meðal breskra
Verslunarmannahelgina dró ég Notes From a Small Island eftir Bill Bryson úr bókaskáp mínum, einu bókina sem ég á eftir Bryson sem er Bandaríkjamaður sem hefur búið í Englandi mestalla ævi sína en skrifaði bókina eftir 20 ár þar í landi, á leiðinni til Bandaríkjanna á ný en vill ferðast um England fyrst til að kveðja það. Glöggt gestsauga hans hefur hrifið Breta svo mikið að þessari tilteknu bók er haldið að útlendingum sem vilja skilja þjóðina. Þó að Bryson sé mjög bandarískur, kannski enn fremur af því að hann býr erlendis, tengir húmorinn hann við bresku þjóðina. Bókin er mjög fyndin, ekki síst upphafslýsingin á ensku gistihúsi árið 1973 þar sem allir gestirnir heita Cuthbert Crapspray eða Bertram Pantyshield. Áður en hann samdi þessa ferðasögu hafði hann skrifað talsvert um tungumálið og bresk nöfn heilla Bryson eins og hann ræðir seinna í bókinni:
Bryson heillast líka af þeirri hamingju sem enska þjóðin sækir í svartsýni sína og takmarkaðar væntingar og hvernig hún nýtur af áfergju smávægilegra lífsgæða sem Bandaríkjamenn gæfu lítið fyrir en furðar sig þess á milli á dálæti Breta á lögreglukonunum Cagney og Lacey en þó bendir hann líka á hversu uppteknir Bretar virðast almennt vera af öllu sem gerist í Bandaríkjunum (jafnvel umfram heimamenn sem fylgjast sumir lítið með eigin landi). Eins ræðir hann samgöngur sem sígilt enskt umræðuefni sem stundum nýtist vel til að koma í veg fyrir að samræður gerist innilegar. Annars eru ferðalög Brysons eins og okkar allra hinna, hann borðar ósköpin öll og er vandlátur á mat, furðar sig á hversu Lundúnamiðaðar allar samgöngur eru (því hef ég líka tekið eftir) og á til að vera ansi meinyrtur í garð þeirra sem hann hittir á leiðinni og stundum furðar maður sig á að hann segi frá samræðum þar sem hann kemur fyrir sem hinn versti dólgur (t.d. þegar hann þrasar við gamlar konur um Bandaríkin eða hellir sér yfir skoskan ungling á MacDonalds fyrir asnalegar spurningar sem sá síðarnefndi þarf að spyrja samkvæmt reglum staðarins) en sleppur með það vegna þess að hann er ekki beinlínis fullur af sjálfshóli heldur. Bryson hrífst mjög af sérvitringum eins og fimmta hertoganum af Portland sem skipaði öllum þjónum sínum að hunsa sig og er sjálfur einn þeirra en orðar samt hlutina á einfaldan og alþýðlegan hátt, er fyndinn án þess að rembast um of.
Ferðalagið í bókinni á sé stað um það leyti sem ég kom fyrst til Englands sjálfur (1992, 1994 og 1995) og um leið og mér fannst það mikið ævintýri man ég vel eftir mengun, óhreinindum, ófáum eldri konum með herðakistil og hversu gamalt og slitið allt var eins og Glenda Jackson minnti á í mikilli eldræðu sem hún hélt eftir andlát Margaret Thatcher. Landinu fór mikið fram á árum Tony Blairs, hvað sem manni annars finnst um hann. Einni ferðinni lýsti ég í þessari grein sem einhverjir hafa kannski gaman af því að lesa (fv. háskólarektor sagði mér einu sinni að honum hefði fundist hún óvenju góð). Sjálfur var ég auðvitað ekki miðaldra eins og Bryson á þessum tíma, hefði ekki dottið í hug að ætlast til þjónustu af nokkru tagi en var um leið laus við alls konar líkamleg óhægindi sem Bryson lýsir og ég kannast vel við núna. Þegar Bryson lýsir hrifningu á The Burrell Collection í Glasgow man ég líka hversu uppnumin mamma mín var af einmitt þessu tiltekna safni þegar hún fór með systur minni til Glasgow undir lok 20. aldar.
Hatur Brysons á nútímaarkítektúr er skiljanlegt en verður stundum klisjukennt. Hið sama á við um ábendingar hans um misskiptingu milli Norður- og Suður-Englands en um leið er það sannleikur sem verður líklega aldrei minnt um of á (ekki síst í ljósi Brexit). Óneitanlega er betra að lesa bókina með kort við hendina og þau hefðu mátt vera fleiri. Þá tók ég eftir að Bryson vísar eitt sinn til kápulistaverks sem ekki var á minni kápu en þessi eru kannski örlög mjög vinsælla bóka. Þó að Bryson hafi ætlað að kveðja England með þessari bók var hann fljótlega fluttur þangað aftur og býr þar enn. Hann er mikils virtur þar í landi og Durham-háskóli verðlaunaði hann fyrir fögur orð um þann ágæta bæ með því að gera hann rektor Háskólans um tíma (það er marklítill virðingarsess, eins konar fálkaorða). Hann mun núna orðinn breskur ríkisborgari að auki og væntumþykja hans í garð Bretlands er enda auðlesin út úr bókinni (sem hefur þó móðgað suma).