List og hryllingur
Nýlega andaðist kvikmyndasnillingurinn William Friedkin sem ég hef áður rætt hér á þessum síðum og ræði kannski á ný innan skamms. Hann gerði a.m.k. fjórar frábærar myndir milli 1970 og 1980 en var þá kominn yfir sitt besta eða kannski fékk hann einfaldlega ekki sömu tækifæri og áður eða að ég hef ekki kynnt mér verk hans nógu vel (undanfarið hef ég hlustað á nokkur viðtöl við hann og finnst drepfyndið þegar hann svarar spurningum eins og Kári Stefánsson). Ég hef ævinlega verið viðkvæm sál og er enn og það tók mig langan tíma að manna mig upp í að sjá ýmsar helstu hryllingsmyndir 20. aldar eins og Særingarmanninn (The Exorcist) sem Friedkin leikstýrði en eins og allir (eða: þeir örfáu Íslendingar) vita sem hafa lesið bók mína The Troll Inside You fjallar myndin um hluti sem mér eru mjög hugstæðir: ótta, óhugnað, þjóðfræði og kaþólska trú. Svo að ég haldi áfram að tala um mig hef ég talsvert glímt við þá algengu hugmynd seinustu fimm árin að skáldsögur sem innihalda morð og glæpi geti ekki verið bókmenntir (eða kannski eru það aðeins mínar) og hið sama á víða við um hrylling en það hugtak er bæði notað yfir ódýrar draslmyndir (sem eins og vinkona mín Carol Clover sýndi fram á fyrir 30 árum geta samt verið fræðilega áhugaverðar og jafnvel ekki alslæm list) og bestu kvikmyndir 20. aldar en í þeim flokki er The Exorcist ótvírætt, ásamt The Shining, Psycho (og Frenzy og The Birds eftir sama höfund), Rosemary’s Baby og Silence of the Lambs. Aðeins þá síðustu hef ég séð í kvikmyndahúsi og var svo spenntur í hléinu að ég skalf, þó hafði mest lítið gerst á þeirri stundu en eins og Friedkin vitnar oft í Hitchcock um snýst spenna ekki um að hræðilegir hlutir gerist heldur biðina eftir þeim.
Þó að margar spennu- og hryllingsmyndir séu ódýrar merkir það ekki að þær hljóti ævinlega að vera það en samt er núna búið að flokka bókmenntir og spennu afgerandi í tvennt í helstu íslensku bókmenntaverðlaununum og það speglar íslensk viðhorf til bókmennta vel; þau snúast alfarið um flokkun og merkimiða og kannski er það vegna gjafabókahefðarinnar, ef bækur eru alltaf keyptar handa öðrum en ekki manni sjálfum er mikilvægt að þær séu skýrt flokkaðar og síðan er fólk flokkað eftir hvað það les. Nú er það þannig að þó að ég hafi undanfarin ár sent frá mér sex sakamálasögur fer því fjarri að ég sé mjög handgenginn sakamálasögum umfram aðrar bókmenntir og hvað þá að ég einskorði mig við þær. Þess vegna finnst mér allur fjöldinn sem segist ekki vilja lesa slíkar bækur (og það er talsverður fjöldi, hef ég komist að seinustu árin) vera eins og fólk sem vill ekki sjá Psycho, Rosemary’s Baby og The Shining sem er skiljanlegt ef viðkomandi er taugasjúklingur en ekki hægt að skýra með listrænum metnaði því að það er ekki margt í kvikmyndaheiminum sem tekur þessum verkum fram.
Í raun finnst mér þessi flokkun ekkert ósvipuð flokkun íslenskra fornbókmennta eftir því hvar og hvenær sagan gerist og velti því stundum fyrir mér hvort til hafi verið lesendur (eða áheyrendur) sem vildu aðeins heyra sögur sem gerðust á Íslandi undir lok 10. aldar og aðrir sem neituðu að hlusta á sögur sem gerðust utan Norðurlanda. Nú eru nánast engar vísbendingar um það enda voru bækur ekki gefnar á þeim tíma og þegar lestur snýst um samtal sálarinnar við sjálfa sig en ekki að sviðsetja sig sem róttækt menningarsnobb með sóma og sann þá eru það allt aðrir þættir sem skipta máli en hvar eða hvenær sagan gerist eða hvort það er morð í henni eða yfirnáttúrulegt efni eða annað sem Íslendingar nota stundum til að skýra hvers vegna þeir forðist tiltekið lesefni— stundum hugsanlega af því að þeir leggja ekki í að segja við höfundinn að þeir séu sannfærðir um að hann skrifi lélegar bækur og finnst skárra að segjast ekki hafa áhuga á því sem hann kunni að vilja tala um (fólk er samkvæmt minni reynslu alveg ófeimið við slíkt) .
Það er auðvitað ekki svo margir áratugir síðan fólk fór almennt að ræða kvikmyndir sem listaverk, á tímabili voru þær á svipuðum stað og söngvakeppni sjónvarpsstöðanna sem margt snobbað fólk annarstaðar en á Íslandi fyrirlítur enn, eitthvað sem óhætt var að segjast ekki hafa áhuga á, óháð einstaka listamanni. Nú er það þannig að flestar eða allar bíómyndirnar sem ég hef nefnt í þessari grein eru myndræn útfærsla eldri skáldsögu (stundum ansi frjálsleg, ég held að Stephen King standi enn við það að þó að The Shining sé merkilegt listaverk sé hún léleg aðlögun skáldsögu hans) og síðan eru kvikmyndir auðvitað samvinnuverk margra sem er flókið fyrir þá sem líta á alla list sem daufa endurómun snilldarinnar sem býr í listamanninum. Í öllum þessum tilvikum eru skáldsögurnar þokkalegar en myndin betri vegna þess að auga listamannsins sem gerði aðlögunina nær að bæta einhverju sérstöku við, stundum fyrir áhrif málara eins og Magritte. Þetta hefur auðvitað alltaf átt við. Sumt síðmiðaldaefni um Artúr konung er mun betra en það sem var til fyrr og Hamlet er sannarlega ekki síðra listaverk en Amlóða saga. Þó að snjallir listamenn séu alltaf á einhvern hátt frumlegir á það ekki endilega alltaf við um efnisvalið.
Þó að myndir Friedkins og hinna sem ég ræddi hér séu á öðru plani en flestar hryllingsmyndir eiga þær þó sameiginlegt með þessum litlusystkinum að vilja skapa spennu, óhug og hrylling hjá áhorfendum. Þegar listaverkið er flókið er það auðvitað ekki eina markmið þess en samt markmið og það merkir að það er alveg hægt að ræða Psycho í sömu andrá og Keðjusagarmorðingjann í Texas þó að ekki sé um jafn góð verk að ræða; ég horfði á ágætis hryllingsmyndasögu á Youtube um daginn sem ég held að sé aðeins einn náungi á eigin rás en sá var óhræddur við að leggja listrænt mat á hryllinginn (a.m.k. miðað við Íslendinga). Í þessu felst tvíeðli listaverks sem sækir styrk sinn í hið einfalda, það þarf ekki að velja að gera hryllingsmynd eða góða mynd, stundum er hægt að gera hvorttveggja.