11 „reiðar“ konur

Þegar ég heyrði að meðal best metnu mynda ársins 2022 héti ein Konur tala (Women Talking) vissi ég strax að þetta væri mynd fyrir mig og sagði það vini mínum sem hélt að ég væri að grínast (ég er ekki að grínast). Þó finnst honum 12 Angry Men frábær eins og mér en það eru heilmikil líkindi með myndunum. Ekki hef ég fundið myndina á streymisveitunum sem ég hef aðgang að hér þó að tónlistin sé eftir sjálfa Hildi Guðnadóttur. Kannski heldur Sjónvarp Símans að enginn hafi áhuga á konum að tala. Konur tala er byggð á sönnum viðburðum í mennónítanýlendu í Bólivíu, gerð eftir bók Miriam Toews frá Manitoba, leikstýrt af Söru Polley sem er einhver merkilegasti kanadíski leikstjóri okkar tíma. Hún gerist í mennónítasamfélagi þar sem konur hafa ekki lært að lesa og skrifa en nú hefur komið í ljós að karlarnir hafa ráðist á þær og nauðgað með aðstoð lyfja. Nokkrir hafa verið handteknir en hinir eru farnir að ná í þá handteknu og á meðan halda konurnar fund, kjósa fyrst um hvað beri að gera og halda síðan fund ellefu kvenna um hvort þær eigi að yfirgefa samfélagið eða vera áfram og berjast við karlana. Aðeins ein, örótta Janz (sjálf Frances McDormand), vill að þær geri ekki neitt. Á fundinum er einnig einn karlmaður, kennari sem er nýkominn í mennonítaþorpið og heldur fundargerðina af því að konurnar kunna ekki að lesa og skrifa.

Ákvörðunin um að fara eða berjast er tilvistarleg og snýst líka um orðin og sannleikann. Það fyrsta sem rætt er um hvort „fara“ og „flýja“ séu það sama og síðan er kennarinn látinn skrifa upp rökin með og móti en umræðan snýst ekki aðeins um valkostina tvo heldur allt líf kvennanna. Hin yfirvegaða ólétta Ona bendir á að valkosturinn „berjast“ feli í sér að þær verði að hafa skýra mynd um hvers konar samfélag þær vilji skapa í stað þess sem þær vilji eyða. Það er líka rætt um fyrirgefningu sem er mennónítakonunum eðlilega ofarlega í huga en glæpir karlanna eru svo grófir og ógeðslegir að fyrirgefning kemur ekki til greina. Þær eru allar illa farnar eftir hræðilega meðferð og langar margar til að berjast en kannski aðallega til að vera áfram. Harðastar allra eru Mariche og Salome en þegar þær frétta að einn karlinn sé á heimleið skiptir meirihlutinn hægt og rólega um skoðun og velur að fara. Þá snýst ákvörðunin um hvort strákarnir komi með og aðallega þeir sem eru eldri en 12 en yngri en 15. Eru strákar á þeim aldri hættulegir? Þær spyrja kennarann og hann svarar heiðarlega að þeir séu bæði hættulegir en líka börn sem hægt sé að kenna.

Konurnar leggja áherslu á að það sem þær ákveði verði skráð og hengt upp á bænum sem verk kvennanna þó að engin þeirra geti lesið textann, það verk sem þær skapa á þessum fundum er hliðstætt sjálfri kvikmyndinni sem er að langmestu leyti verk kvenna og þetta er einhver myndrænasta og fallegasta mynd frá seinni árum. Sérstaða kennarans Augusts er algjör, hann er hinn blíði maður sem þrátt fyrir þrýsting umheimsins neitar að taka þátt í kúgun karlveldisins en honum býðst ekki að fara með heldur verður hann eftir ásamt Janz og svo þurfi einhver að kenna strákunum sem urðu eftir að verða ekki eins og feður þeirra. Þegar August segist harma það sem gerst hefur segir Ona að það væri gaman að heyra einhvern af þeim seku segja þetta (eins og það væri gaman ef þeir sem þurfa horfðu á þessa kvikmynd). Hann vill helst giftast Onu en hún vill ekki hætta að vera hún sjálf. Hún virðist aldrei reið og konurnar eru ekki reiðar í hefðbundnum skilningi þess orðs heldur á mun dýpri hátt sem kallar á endurmat allra gilda.

Það er mikil innibyrgð reiði í myndinni en líka talsverð gleði og gáski. Konurnar segja sögur, syngja, teikna og tjá sig með öllum hugsanlegum hætti þó að þeim hafi verið neitað um að læra að lesa og skrifa. Kannski gæti einhverjum þótt umræðurnar furðu greindarlegar í ljósi þess að um ómenntaðar konur er að ræða en mér fannst þær sannfærandi, þær tjá sig í einföldum setningum en samt greinandi og með skýra sýn á aðalatriði og aukaatriði. Það eru miklar hræringar meðal kvennanna og ekki minni átök en í 12 Angry Men. Fundurinn virðist iðulega hræðilega óskipulagður en allt er þetta hluti af ákvarðantökunni sem snýst á endanum um það samfélag sem þær eru hægt og hljótt að reisa í eigin huga á rústum þess sem karlarnir skildu eftir í sárum. Þó að röksemdir kvennanna séu iðulega trúarlegar er enga boðun í myndinni að finna, hún snýst fyrst og fremst um ákvarðanatöku þessara kvenna og leit þeirra að styrk þegar eldra samfélag þeirra er afhjúpað og hrunið. Ástæðurnar eru á endanum þrjár: þær vilja öryggi barna sinna, þær vilja vera staðfastar í trú sinni og þær vilja hugsa. Það seinasta er það byltingarkenndasta og það sem kemst næst því að vera boðskapur Söru Polley sem kveður okkur með fuglasöng og einu hressasta lagi 7. áratugarins, sérkennilega á skjön við myndina en á góðan hátt.

Previous
Previous

List og hryllingur

Next
Next

Instakrútt í Eiffelturni