Instakrútt í Eiffelturni

Alice Oseman er tæplega þrítugur enskur höfundur sem sló ung í gegn fyrir nútímalegar sögur sínar um nútímaleg ensk ungmenni sem öll eru hinsegin og kynsegin á allan mögulegan hátt þannig að nýja stafrófskverið sem hefst á L er næstum fullnýtt af henni. Mér skilst að unglingar elski bækurnar og þættina og skil það vel, þeir eru uppfullir af sjarma og ég sá syrpu tvö um daginn, það tekur 4-5 tíma, hámark tvö kvöld. Aðalpersónan er bangsalegi boltadrengurinn Nick sem verður ástfanginn af hinum tággranna Charlie sem er með átröskun og varð fyrir miklu einelti eftir að strákahneigð hans uppgötvaðist (þetta var líka fléttan í mun átakanlegri mynd frá 1998 sem ég sá áður en leikararnir í Heartstopper fæddust). Þrátt fyrir þá erfiðleika er samfélagið í þáttunum næstum ótrúlega vinalegt, kennararnir hinsegin og kynsegin líka og stundum finnst manni angistin næstum eins og tóm tannkremstúba sem þarf að kreista mikið til að fá úr henni seinustu dropana. Ekki að maður sé ekki vel kunnur angist sjálfur en samt alinn upp á þeim tíma sem öll vanlíðan var álitin sjálfsvorkunn og hef aldrei látið áföllin koma í veg fyrir að ég sinnti náminu og vinnunni, var í hrikalegri ástarsorg og almennri kreppu þegar ég tók stúdentsprófið en einkunnirnar endurspegluðu það ekki og skrifaði MA-ritgerðina mína raunar í miðjum ragnarökum þegar faðir minn lá fyrir dauðanum og mánuðina eftir því að erfiðleikar geta aukið vinnusemi. Kannski þess vegna fannst mér pirrandi hvernig gengið var að því sem vísu í syrpu 2 af Heartstopper að mótlæti eyðilegði öll próf fyrir öllum alltaf. Fólk er líklega enn meira mismunandi en þáttur sem snýst um hve mismunandi fólk sé gerir í raun og veru ráð fyrir. Ég er ekki heldur alveg handviss um að það sé hægt að troða öllum regnboganum inn á amerískt „prom“ eins og Heartstopper gerir í lokin; þægileg lausn samt.

Sjarmi þáttanna er ótvíræður, þeir fljúga hjá á leifturhraða, það eina sem var erfitt að horfa á fyrir mig voru atriðin í Eiffelturninum (hvers vegna eru ekki „trigger warning“ fyrir lofthrædda á öllu sjónvarpsefni og netinu yfirleitt). Í sérstöku uppáhaldi hjá mér er persónan Tao sem verður ástfanginn af bestu vinkonu sinni Elle sem er trans og vandinn sá einn að þau hafa verið bestu vinir lengi og finnst erfitt að endurskilgreina samband sitt. Enginn annar vorkennir þeim verulega og áhorfandinn ekki heldur, Tao er bara sauður sem vanmetur sjálfan sig óskaplega en það gerir lítið til því að enginn annar gerir það og augljóslega eiga þau eftir að ná saman í fjölmörgum listasafnaferðum sínum eftir að hafa átt misheppnað deit í bíó með magn af poppkorni sem Jesús hefði fundist svindl að fæða manngrúann með. Annað gott par voru kennararnir sem fara með krökkunum til Parísar, sérstaklega sá sem hegðar sér eins og kennarar gerðu í mínu ungdæmi og fær krakkana alltaf til að þagna.

Kannski er það besta við þessa aukasögu um Tao og Elle að það er ekki búið að semja mýmargar nýja reglur um hvernig parið eigi að hegða sér. Einhvern veginn er það þannig að eftir margra alda ófrelsi í kynferðismálum eru regluverðir ófáir jafnvel meðal yfirlýstra frjálslyndra og helsta efni þessarar syrpu er hvernig rugbygaurinn Nick eigi ólokið að sinna tilkynningaskyldu sinni um einkalífið, skyldu sem maður var farinn að vonast til að hyrfi en virðist jafn ríkur þáttur í nýja heiminum og hinum gamla og það jafnvel þó að það ætti að blasa við öllum hversu ástfangnir þeir Charlie eru. Að vísu er Charlie iðinn að segja honum að það sé engin sérstök regla í gildi en einhverjar væntingar svífa yfir vötnunum sem íþyngja Nick talsvert og áhorfandanum líka. Par er auðvitað ekki par nema á Instagram sé. Stundum dæsi ég yfir efni sem á að vera nýstárlegt en öll þemun svona ævaforn og spyr sjálfan mig hvers vegna margra alda trúarbragðareglur um hjónabönd, einkvæni og hina miklu ógn af kynlífi voka enn yfir öllum núna íklæddar rómantískum búningi og koma í veg fyrir að fólk sé hamingjusamt? (Öðru hvoru grunar mig að Alice viti þetta vel þó að það sé ekki áberandi í þáttunum).

Eftir þættina er ég enn forvitinn um systur Charlies sem Alice hefur víst skrifað um sérstaklega en ég veit lítið um enn — og hvað varð af stráknum sem verður fyrir aðkasti ásamt Charlie en fær aldrei að vera með í klíkunni? Eins væri gaman að vita meira um fyrrverandi kærasta Charlie sem vildi hafa sambandið leynilegt. Hann er meðhöndlaður nánast eins og Adolf Hitler fyrir vikið og labbar að lokum aleinn og aumkunarverður burt úr þættinum og fær ekki að vera með í þessu regnbogalitaða „promi“ (kynnt af tísthertoganum Stephen Fry) sem nútíminn á að sameinast um og er álíka róttækt og borgarstjórn Reykjavíkur (Bretar og Ameríkanar verða seint avant garde). Engin önnur skýring er gefin á hegðun þess fyrrverandi önnur en sú að hann sé illmenni sem aðeins eignist kærustur og kærasta til að fara illa með þau en miðað við allt ofbeldið í fornum og nýjum samböndum sem daglega berast fréttir um er illska hans ekki svo augljós, einna helst er hann sekur um fremur misheppnaða fýlustjórnun. Auðvitað væri gaman ef 100% jafnræði ríkti í allri ást en ég er ekki einu sinni viss um að við séum að færast í þá átt og enn minna viss um að mannkynið standi almennt undir þessum nýju kröfum sem jaðra stundum við að minna á gömlu kröfurnar úr kaþólskum helgiritum um hina fullkomna manneskju.

Previous
Previous

11 „reiðar“ konur

Next
Next

Samúð með hundeltum