Samúð með hundeltum

Mánuði eftir að ég missti af Sabotage í sjónvarpinu fyrir tæpum 40 árum sá ég Hitchcock-myndina Stúlkan var ung (Young and Innocent) en mundi ekki betur eftir henni en svo að mér fannst ég þurfa að sjá hana aftur. Þar undanskil ég auðvitað þekktasta atriði myndarinnar, hina löngu töku sem hefst á gleiðu skoti af heilum hótelveitingasal með dansandi fólki sem þrengist síðan æ meira uns ekkert er eftir nema deplandi auga morðingjans. Þetta var á þeim tíma sem allir morðingjar höfðu einhvern skavanka sem þeir þekktust af — hver man ekki eftir öllum varaþunnu illmennunum í bókum Enid Blyton eða bókinni Kim og ilsigni maðurinn? Fyrir utan klisjuna um fatlaða illmennið er morðinginn beinlínis í „blackface“ þegar hann er gripinn. Í upphafi myndarinnar er hann sýndur depla augunum ákaflega eftir rifrildi við eiginkonuna en samt grunar aldrei neinn hann um morðið, aðeins manninn sem finnur líkið og hafði sennilega haldið við konuna. Eiginlega er óskiljanlegt hvers vegna hann er grunaður og fær auk heldur úthlutað versta lögfræðingi í heimi en ef maður samþykkir þá fléttu er þetta hin ágætasta spennumynd sem snýst um flótta unga mannsins undan réttvísinni (eftir að hafa dulbúið sig með því að setja upp gleraugu) og dóttur lögreglustjórans sem hjálpar honum.

Hitchcock-húmorinn er á sínum stað, kemur vel fram þegar stúlkan kemur í heimsókn til frænku sinnar og gengur inn á töframann að draga langa ræmu úr munninum (í kjölfarið kynnir hún flóttamanninn fyrir frænkunni sem herra „Beachtree-Manningcroft“). Fléttan í myndinni er allsvipuð og í The Lady Vanishes, munurinn sá að hér hjálpar stúlkan útlaganum eftir að hafa smám saman fengið trú á honum en í hinni myndinni aðstoðar tónlistarmaðurinn konuna sem engin annar trúir á svipuðum forsendum. Hundelti maðurinn var sjálfsagt mjög myndarlegur á sínum tíma en maður sér það ekki alveg núna; kannski laðast hún fyrst og fremst að honum vegna þess að hann er hundeltur, er þá haldin svipuðu blæti (hybristófílíu?) og allar konurnar sem eru æstar að giftast fangelsuðum raðmorðingjum. Allar löggur í myndinni eru álíka mikil fífl og lögfræðingurinn og hjúin halda því sjálf í leit að frakka flóttamannsins og komast brátt á slóð depilaugnamorðingjans. Aðalleikona myndarinnar, hin 17 ára Nova Pilbeam, andaðist ekki fyrr en árið 2015, löngu eftir að ég sá myndina hið fyrra sinn. Fyrir utan hana leikur mikill fjöldi afar hvellra barna í myndinni en nöfn fæstra þeirra eru þekkt.

Jamaica Inn var síðasta mynd Hitchcocks fyrir ferðina til Hollywood og þar þurfti hann að eiga við Charles Laughton sem var stórstjarna 4. áratugarins og hafði miklar skoðanir á myndinni. Kannski eru það slíkir kónar sem ollu því að Hitchcock gerði flestar síðustu myndir sínar með lítt þekktum leikurum og haft er eftir honum að fara ætti með leikara eins og nautgripi. Laughton var raunar snillingur sjálfur, leikstýrði aðeins einni kvikmynd (The Night of the Hunter) og hún floppaði en hefur síðar verið réttilega endurmetin sem snilldarverk. Það er Jamaica Inn ekki en Hitchcock gerði aldrei slæma mynd og efnið er áhugavert, skipbrotsræningjar í Kornbretalandi í upphafi 19. aldar. Meðal þeirra sem unnu að handritinu var Joan Harrison (1907-1994) sem Alfred tók síðar með sér til Hollywood og kana hans Alma. Mér finnst blasa við að allar goðsagnir um að Hitchcock hafi verið karlremba séu víðs fjarri, flest sem ég hef lesið bendir til að hann hafi verið einn örfárra karlkyns listamanna á þeim tíma sem voru það ekki.

Myndin er að sönnu skuggaleg og Hitchcock verður þannig mikið úr skilti sem sveiflast í vindinum. Hún reynist líka frekar skuggaleg að inntaki, hin unga Mary (leikin af Maureen O’Hara kornungri) er umkringd af hinum versta rumpulýð en sýnir hetjuskap í hverri raun og er helsta hreyfiafl sögunnar. Einn ræninginn reynist vera laganna vörður í gervi (alveg eins og í Sabotage) en á hinn bóginn er óðalseigandinn sjálfur leiðtogi ræningjanna. Í því hlutverki er Charles Laughton og hlutverkið sniðið að honum, bæði fær hann allar bestu setningarnar og mörg tækifæri til að horfa fyrirlitlega á aðrar persónur sögunnar. Illa fer fyrir ræningjunum að lokum enda önnur sögulok nánast bönnuð á þeim tíma, því miður hefur maður fengið samúð með þeim þegar svo er komið. Sama gildir um sjálfan erkibófann sem virðist í lokin fremur óður en vondur. Myndin gerði stjörnu úr Maureen O’Hara og gekk vel á markaði en þó að hún nái góðu flugi um miðbikið dalar hún undir lokin og geldur þess að Laughton eyðilagði kennsl myndarinnar fyrir Hitchcock. Ef ég raðaði öllum rúmlega 40 Hitchcock-myndum sem ég hef séð yrði hún sennilega í neðri helmingnum.

Previous
Previous

Instakrútt í Eiffelturni

Next
Next

Sívinsæll morðvargur