Sívinsæll morðvargur

Í vor horfði ég á heimildarmynd í Ríkisútvarpinu um Kobba kuta (eða kviðristu) og breska vísindamenn sem eru að reyna að beita nútímalegum aðferðum til að hafa upp á hinum forna morðvargi. Það er vitaskuld ekki hægt því að gögnin eru ekki lengur til en þó er hægt að útiloka ýmsa sem hafa verið grunaðir í tímans rás, þar á meðal sonarson Viktoríu drottningar. Mikilvægasta niðurstaðan var að örugglega væri hægt að fjölga fórnarlömbum Kobba kuta í sex en fimm þeirra eru almennt viðurkenndar. Engar skýringar hafa fundist á því hvers vegna morðunum linnti en nokkrir hinna grunuðu voru teknir úr umferð eða dóu fljótlega. Síðar hafa auðvitað fundist morðingjar sem náðu að myrða mun fleiri en kutinn, þar á meðal Jórvíkurkviðristarinn Peter Sutcliffe sem náði 13 áður en hann var færður í fangelsið þar sem hann lést nýlega úr covid. Það sem vakti athygli við Kobba á sínum tíma var ekki síst læknisfræðilegi öfuguggahátturinn í tengslum við morðin og síðan auðvitað voru blöðin orðin nútímaleg og blésu málið út eins og þau gátu.

Velta má fyrir sér morðum sem afþreyingarefni lengi og vel, ekki síst nú á dögum þar sem heimildamyndir um morðingja gefa leiknu afþreyingarefni síst eftir í vinsældum og jafnvel útvarpið er meira í sönnum sakamálum en sinfoníum. Kannski er þetta ekkert nýtt og undir slíkan áhuga er ég líka seldur án þess að skilja hvers vegna; í sumar hef ég þannig hlustað á skuggalega marga hlaðvarpsþætti um sönn sakamál af ýmsu tagi. Fyrir utan þáttinn um kutann horfði ég í vor á mynd um ameríska skiptinemann Amöndu Knox en hún og kærasti hennar Raffaele voru dæmd fyrir aðild að morði ekki síst fyrir múgæsingu sem fjölmiðlar tóku ríkan þátt í þar sem glyðruleg nethegðun Amöndu skipti ekki minnstu máli, m.a. sú staðreynd að hún hafði gefið sér notendanafnið „Foxy Knoxy“ á MySpace. Eflaust höfum við mörg gert eitthvað álíka kjánalegt á netinu og haldið að það skipti engu máli en notendanafnið varð lykilatriði í herferðinni gegn Knox sem var nokkur ár í fangelsi á grundvelli slappra sönnunargagna og er enn alræmd í netheimum (en hlaðvörpin sem ég hlustaði á standa þó mörg með henni). Eins slæmt og réttarkerfi ýmissa landa getur orðið virðist það oftar skárra en réttlæti fjölmiðla.

Mjög margt kvikmynda- og sjónvarpsefni tengt Kobba kuta og öðrum sönnum morðsögum hefur legið undir ámæli fyrir að kynda undir löngun almennings til að horfa á limlestar konur því að langalgengasta mynstrið er að karlkyns raðmorðingjar drepi konur (einstaka drepur aðra karla og svo er einstaka kona sem tengist raðmorðum og er þá yfirleitt hötuð meira en karlinn sem hún aðstoðaði). Eru miðlarnir hér aðeins að svala þörf eða eru þeir að lýsa þetta eðlilegt með því að nærast á því? Sennilega er hið síðara ekki alls kostar rangt og við öll sem horfum á svona þætti þurfum að játa á okkur samsekt, alveg eins og almenningur sem mætti að horfa á aftökur fram á 20. öld (og keypti póstkort undir lokin). Ég horfði t.d. í fyrra á þáttinn um Jeffrey Dahmer en þar reyndu framleiðendurnir að leggja meiri áherslu á fórnarlömbin í von um að sleppa við fordæmingu siðprúðra fyrir að upphefja morðingja (það mistókst). Mér skilst að framhald sé væntanlegt (þátturinn var alls ekki slæmur).

Ein áhugaverðasta myndin um Kobba kuta er frá 8. áratugnum og hét Vændiskvennamorðinginn (eða Murder by Decree) þar sem Sherlock Holmes var bætt við söguna af Kobba kuta enda eru Hoimes og morðinginn samtímafyrirbæri, sá nafnlausi þó til í raun en hinn ekki. Christopher Plummer og James Mason fara með hlutverk Holmes og félaga hans Watson en morðin reynast vera frímúrarasamsæri og morðinginn nátengdur bresku hirðinni. Ekkert bendir til að þessar samsæriskenningar eigi nokkurn rétt á sér en þær falla auðvitað vel að nútímalegri óbeit fólks á yfirstéttinni og myndin er góð að mig minnir (sá hana fyrir 30 árum eða svo).

Previous
Previous

Samúð með hundeltum

Next
Next

Migið í munn