Migið í munn
Lokasenna er eitt af lengri goðakvæðunum í Konungsbók eddukvæða, alls 65 erindi auk lausamáls. Það er ekki mjög torskilið miðað við sum hinna, helsti vandinn er að vísað virðist til alls konar sagna um goðin sem ekki hafa varðveist ella og er sá vandi sígildur þegar kemur að heiðinni trú, það sem varðveitt er af hinum fornu norrænu trúarbrögðum er aðeins brot af því sem til hefur verið, margt hefur brenglast og mun fleira hefur týnst. Við vitum ekki heldur hvort Lokasenna er samin í heiðni eða kristni, vegna skamma og svívirðinga Loka um goðin var sennan stundum tengd við trúskiptin nálægt árþúsundamótum en það má ímynda sér fjölmargar aðrar skýringar á ávirðingum Loka um goðin, m.a. að kvæðið sé staðfestandi eins og ýmsir hafa rakið og ég hef sjálfur rökstutt, ekki ósvipað karnivalinu. Í kvæðinu sé siðferði guðanna gagnrýnt en siðferði er ekki mikilvægt fyrir guði því að þeir eru hafnir yfir hegðunarreglur, jafnvel sínar eigin. Á hinn bóginn er ekki ýjað að því að goðin séu vanmáttug eða auðveldir andstæðingar þannig að þess vegna þarf það ekki að vera samið á trúskiptatíma en raunar var trúskiptatíminn á Norðurslóðum ansi langur, jafnvel 800 ár ef allt svæðið er undir.
Í lausamálstexta í upphafi kvæðisins er Loki rekinn úr veislu goðanna en hann snýr aftur að því er virðist aðallega til að gera hróp að ásum (í kvæðinu er talað um „jöll og áfu“ sem eru hvorttveggja stakyrði, annað hefur verið tengt við færeysku en hitt kann að vera mislestur og handriti breytt). Síðan rekur hann vammir guðanna rækilega. Þau hafa ýmist verið kokkáluð, stunda kynlíf í öðru skyni en fjölgun, með báðum kynjum og ýmsum óleyfilegum aðilum. Mitt uppáhald er þegar í ljós kemur í vísu 34 að Njörður aðhyllist það sem kallað hefur verið „golden shower“ í nútímanum ásamt annars óþekktum Hymismeyjum (e.t.v. dætrum titilpersónu Hymiskviðu). Þetta er á við lýsingar Suetoniusar á hegðun Rómarkeisara en líkt og Æsir voru keisararnir sjálfir guðir eftir dauðann og frægt er þegar Vespasíanus andaðist og hinstu orð hans áttu að hafa verið „Ég er að breytast í guð“.
Ásgeir Blöndal Magnússon skýrir orðsifjar beggja orða en ekki af neinu öryggi þar sem orðin finnast ekki í ritmáli nema í þessu eina kvæði og ógerningur að átta sig fyllilega á þeim þó að þýðendur séu flestir á að þau hljóti að merkja t.d. „fjandskap og meiðyrði“ í ljósi þess sem síðan gerist. Hvergi er öfuguggaháttur Loka skýrari en í þessu kvæði (nema kannski þegar hann þykist vera gýgurin Þökk). Hann á ekki heima með goðunum, lumar á hvers konar slúðri um þau og stærir sig af því að hafa kokkálað sum þeirra en sofið hjá öðrum. Nú er Loki alls ekki eitt af guðunum samkvæmt Snorra-Eddu og Völuspá kallar hann „jötunn“ en samt er hann í þeirra hópi og virðist jafnvel upphaflega hafa verið sannt guðmagn sem tók þátt í sköpun mannkynsins en síðan lét fallerast. Í því ljósi eru líkindi nafnsins við demóninn Lúkífer áhugaverð (þó að hér verði engar keltaalþýðuskýringar framdar) en Ásgeiri Blöndal finnst eðlilegra að tengja þetta so. ljúka og vissulega eru endalok mikilvæg fyrir allar goðsögur og Loki lykilpersóna í endalokagoðsögnum heiðinnar trúar.
Þáttur Loka sem veisluspillis er kannski dæmigerður fyrir hlutverk hans yfirleitt, hann er afl sem kemur hlutunum á hreyfingu og hrærir í goðum og mönnum. Hugmyndin virðist sú að þessi hreyfing sé það sem síðan dregur heiminn til endaloka sinna enda er eðlileg samsvörun milli hreyfingar og endanleika.