Mæður og synir
Persóna Kate Winslet í Mare of Easttown (2021) er kölluð Mare og martröð heitir „night-mare“ á ensku eins og fram kemur á gamansaman hátt í þætti 2. Mara frumstæðrar gremju og árásargirni liggur yfir snotra og sakleysislega smábænum Easttown í Pennsylvaníu. Nema maran liggi á sjálfri Mare sem „lifir með því sem er óþolandi“ eins og hún orðar það sjálf. Hún hefur misst son sinn á sviplegan hátt og elur nú upp brothættan sonarson. Mare of Easttown er óvenjulegur bandarískur sakamálaþáttur, undir talsverðum áhrifum frá enska ruddaraunsæinu — mér datt Happy Valley ítrekað í hug enda Mare hörkutól eins og Catherine Cawood. Stór og flókin fjölskylda og vinir Mare skipta ekki minna máli í þættinum en sjálft sakamálið, morð á ungri stúlku sem virðist í fyrstu tengjast nýlegu mannshvarfi. Ég treysti mér varla til að teikna kort yfir öll tengsl í þorpinu; þau eru margþætt og flókin. Lögreglan er því sífellt að rannsaka eigin ættingja og vini nema lögreglumaðurinn Colin Zabel (leikstjórinn heitir Craig Zobel sem kann að vera tilviljun) sem er aðkomumaður sendur af sýslunni til að hjálpa Mare við lausn málsins og vinnur bug á tortryggni hennar með skynsemi og góðu skapi. Önnur lykilpersóna er Lori, vinkona Mare sem á líka stóra fjölskyldu og er skáskyld stúlkunni sem var myrt. Þær Mare voru áður saman í körfuboltaliði menntaskólans á staðnum þar sem Mare var aðalhetjan en þann innri styrk hefur hún misst með sjálfsmorði sonarins og reiðir sig núna á Lori. Móðir Mare, fyrri eiginmaður og dóttir eru líka mikilvæg í sögunni auk rithöfundarins Richard (leikinn af sjálfum Guy Pearce) sem virðist þroskaðri en flestar aðrar persónur í þættinum. Hann kemur óvænt inn í líf Mare en því miður ræður hún ekki vel við það umrót sem fylgir nýjum manni enda fyrir utan annað með mikinn pabbakomplex sem gerir hana ekki léttari að umgangast.
Líkt og í Happy Valley blæðir stöðugt milli einkalífs, starfs og sakamáls. Líf Mare er endalaus þriðja vakt sem aldrei lýkur þannig að manni finnst hún stundum varla hafa tíma til að leysa flókin sakamál. Meðferð er lykilhugtak í þættinum; Mare er send til sálfræðings eftir að hafa gert afdrifarík mistök í starfi og þá kemur margt úr kafinu um fortíð hennar og sjálfsmorðin í fjölskyldunni. Þó að það sé mikilvægt fyrir hana að leysa lögreglumálin er kannski erfiðasta verkefnið að horfast í augu við eigin missi. Þættirnir njóta þess hve margar sögupersónur eru margþættar og áhugaverðar þannig að þrátt fyrir flóknu tengslin situr maður bergnuminn og vill vita meira um þær allar. Jafnvel ógeðugur fv. kærasti myrtu stúlkunnar og enn ógeðugri kærasta hans eru margbrotnari en virðist í fyrstu. En fólkið sem er þó heilsteyptara eru líka grunsamlegar og breyskar manneskjur og brotnu manneskjurnar finna hvor aðra sem leiðir til ógæfu og dauða. Líkin í lestinni hrannast upp eftir því sem frásögninni vindur fram. Sum eru kómísk eins og þegar ekkill ofsóknaróðustu konu bæjarins ákveður að játa á sig framhjáld í erfinu og mamma Mare reynist blönduð inn í það, lögreglukonunni hrjáðu til óblandinnar ánægju. Annars fær Mare sjaldan ástæðu til að hlæja og ruglaði ekkillinn er raunar sá sem leysir morðmálið.
Veikasti hlekkurinn í sögunni er perrinn á sendibílnum sem kann ekki að taka til heima og reynist búinn að koma sér upp Josef Fritzl kjallara til að geyma brottnumdar stúlkur þó að ég hafi reyndar eytt sumrinu í að hlusta á allmörg hlaðvörp um óleyst sakamál sem benda sterklega til að Bandaríkin séu drekkhlaðin af slíkum perrum. Þá er kaþólski perrapresturinn orðin talsverð klisja. Ég hafði aftur á móti gaman að Gilmoremæðgnafílingnum í dóttur Mare og hljómsveitinni hennar sem heitir því skemmtilega nafni Androgynous og fílar Pat Benatar. Vandamál stelpunnar virðast í fyrstu skemmtilega viðráðanleg (aðallega vesen með stelpur) miðað við allt hið matroðna fólk í Easttown en að því kemur að einnig hún spilar út í kjölfar eiturlyfjaneyslu (öll ungmenni nota eiturlyf í amerísku sjónvarpi 21. aldar) sem minnir á að fleiri en Mare hafa misst strákinn. Önnur viðfelldin og tiltölulega óbrengluð persóna er lögregluforinginn sem er stundum langþreyttur á Mare (sem hneigist enda til að æða í morðingjaleit án þess að staldra við og bíða liðsauka) en henni samt vinveittur.
Samband mæðra og sona er í öndvegi í sögunni. Þannig má segja að horfinn en greinilega ákaflega erfiður sonur Mare sé speglaður í brothættum unglingssyni vinkonu hennar Lori sem mamman hefur greinilega þungar en þöglar áhyggjur af og bindur maður lengi vonir við að henni takist aðeins betur upp en Mare; í lokin eignast hún svo annan son. Fallegt en flókið samband Mare og Zabels er líka vel útfært, Kate auðvitað er frábær leikkona og leikarinn sem fer með hlutverk Zabels er viðfelldinn — smátal hans um að hann langi til að borða áhugaverðari mat er eitt fyndnasta og sorglegasta atriði þáttarins, ekki síst vegna þess að hann hverfur úr sögu skömmu síðar — í kjölfarið lék sami leikari óhræsið Jeffrey Dahmer af engu minni sannfæringu. En einnig Zabel er sonur sem býr hjá móður sinni sem er áferðarfalleg á yfirborði en sennilega ansi yfirþyrmandi fyrir piltinn (það hvarflaði að mér nálægt sögulokum þegar minnst var á Bates College að kannski væri mæðra og sona minnið sótt til vinar míns Hitchcocks) . Þátturinn líður aðeins fyrir brotthvarf Zabels skömmu eftir miðju en að honum horfnum getur Mare þó einbeitt sér að leysa málið sem hún gerir snöfurmannlega. Þegar þar var komið sögu var ég búinn að gefa upp alla von um að lausnin yrði ekki mjög sorgleg en í lokin nær Mare að klifra upp táknrænan stiga sáttar og fyrirgefningar.