Alfreð barnadrápari
Þau ykkar sem héldu að ég hefði nú afgreitt Alfred Hitchcock í bili þekkja illa kappsemi mína og þrautseigju (ég get varla sagt að ég skilji hana sjálfur enda falin undir mildu yfirbragði). Nú er enginn hægðarleikur að sjá elstu myndir Alfreðs og deila má um hvort sumar séu raunverulega höfundarverk hans en úr því að ég var byrjaður fannst mér rétt að hafa séð a.m.k. allar myndir hans frá 1934 áður en sumarið yrði úti og það merkti sex myndir í viðbót sem ég mun segja frá hér. Ég var einna spenntastur fyrir Sabotage sem ég var sá aumingi að sjá ekki í sjónvarpi síðla árs 1983, sennilega af því að sýningar á henni hófust kl. 11 um kvöldið og sennilega hefur verið seinkun á dagskrá sem var ekki óalgengt á þeim árum. Nú hef ég bætt fyrir þá vanrækslusynd en áður lesið mikið um myndina, ekki síst hið mjög umdeilda atriði sem er löng og tafsöm ferð unglingspiltsins Stevie um götur Lundúna sem lýkur með því að drengurinn og allir aðrir í strætisvagninum þar sem hann hefur komið sér fyrir springa í loft upp. Þar braut Hitchcock harkalega gegn sögusamúðarreglum með því að drepa dreng á langdreginn og spennandi hátt og viðbrögðin voru slík að hann gerði það aldrei aftur, a.m.k. ekki fyrr en í Psycho en sú persóna var þó a.m.k. ekki alsaklaus eins og Stevie.
Bandaríska leikkonan Sylvia Sidney leikur eldri systur Stevies, frú Verloc, og dapurt andlit hennar er áberandi í kvikmyndinni sem er gerð eftir sögu Joseph Conrad (ekki aðeins notaði Hitchcock ekki titil Conrads heldur tók hann titilinn til handargags á aðra kvikmynd SAMA ÁR sem hann gerði eftir sögum Somerset Maugham). Frú Verloc er gift taugaveikluðum hryðjuverkamanni sem er talinn á að setja af stað sprengju (þá sem kemst aldrei á áfangastað en drepur Stevie og aðra strætófarþega). Þau reka bíóhús sem er notað á áhrifamikinn hátt í myndinni sem er ótvírætt ein af toppmyndum Hitchcocks; eins deila margar persónur myndarinnar (m.a. Stevie) áhuga Alfreðs sjálfs á morðum og hryllingi sem skapar skemmtilegan kontrapunkt við óhugnað hryðjuverkanna. Frú Verloc er að lokum bjargað af löggu sem er fremur daufleg persóna en það er mikill húmor og gleði í öllum öðrum persónum, m.a. öldruðum sprengjugerðarmanni og hryðjuverkasellunni sem inniheldur m.a. kornungan en auðþekktan Peter Bull (úr Dr. Strangelove).
Hin myndin sem mér lá á að sjá var fyrri The Man Who Knew Too Much (1934) en endurgerð þeirrar myndar hef ég séð mörgum sinnum og held talsvert upp á þó að ég telji hana ekki mesta snilldarverk meistarans. Sú síðari er fagmannlegri að flestu leyti og betur útfærð, einkum þar sem hún er laus við fremur leiðigjarnt umsátur um hús glæpamannanna í lokin sem dregur þá eldri niður. Atriðið i Royal Albert Hall er eins í báðum myndum og sama tónlist notuð (um óveðursskýin), það er enn betur útfært í seinni myndinni en var stórgott í þeirri fyrri. Eins eru prýðileg atriði í upphafi á svissnesku hóteli og um miðja mynd á tannlæknastofu og barnið sem er rænt er ensk stúlka en ekki amerískur strákur, þar af leiðandi ekki nándar nærri jafn hvimleitt. Báðar gerðir hafa eftirminnileg illmenni og sú fyrri nýtur krafta sjálfs Peter Lorre, slepjulegasta leikara allra tíma sem bætir talsvert fyrir hve lítt spennandi karlkyns aðalleikari myndarinnar er.
Eitt af því sem vekur athygli við Hitchcock og skýrir aðdáun framfarasinnaðs fólks eins og foreldra minna á honum er hversu fullar myndir hans eru af sterkum konum. Í þessari er mamman meistaraskytta og bjargar málum með þeim hæfileika þó að eiginmaðurinn sé meira áberandi á sviðinu mestalla myndina, eftir að hún hafði áður bjargað málum á ögurstundu með háu öskri sem Doris Day endurtók síðan árið 1956.