Hverful merking andartaksins

Um daginn varð ég að viðurkenna fyrir vini mínum að ég hefði aldrei séð Before-myndirnar þrjár sem hinn ágæti Texasbúi Richard Linklater hefur gert og er ég þó aðdáandi leikstjórans (gat nefnt fimm myndir hans sem ég hefði séð) en þar sem vinur minn er jákvæður sendi hann mér allar myndirnar þjár og ég horfði á þær á einum sólarhring til að kynnast þeim sem einu verki. Þegar Before Sunrise kom út (1995) fór ég mikið í bíó og mér finnst eins og ég hafi séð hana kynnta 40 sinnum. Mér datt aldrei annað í hug en að þetta væri venjuleg unglinga- eða ástarmynd og hafði engan sérstakan áhuga, leiddi hana hjá mér. Held að viðtökurnar hafi almennt verið á þá leið að hún væri í gáfulegri kantinum fyrir slíkar myndir en hún fékk engin verðlaun. Níu árum síðar hins vegar hafði orðspor Linklaters aukist talsvert og framhaldsmyndin fékk allt aðrar viðtökur.

Að mörgu leyti eru Before Sunset (2004) og Before Midnight (2013) eins og bókmenntagreining á fyrstu myndinni sem snýst um par sem eyðir nótt saman í Vínarborg hvort á sinni leið; í tónlistinni er talað um tilbrigði við stef. Í annarri myndinni eru þau ekki lengur ungmenni heldur komin á fertugsaldur og hvort um sig í misheppnuðu hjónabandi. Þau eru ekki viss um að þau geti endurheimt þessa einstöku nótt sem þau trúðu varla á til að byrja með. Í raun er myndin eins og breytt endurtekning, atvikin eru svipuð og eins heimspekilegur efinn sem þau tefla stöðugt fram gegn lostanum og aðlöðuninni sem þau neita að trúa á. Fyrir þessu féllu gagnrýnendur vitaskuld flatir. Ég er sjálfur beggja blands og velti fyrir mér hvort fyrsta myndin hafi í raun ekki náð að gefa alveg nóg í skyn þó að heimurinn þyrfti risavaxna neðanmálsgrein í formi annarrar bíómyndar til að skilja það. Auðvitað er parið á öðrum stað en fyrst en samskipti þeirra ekki ósvipuð sem kannski er til marks um hve mikla samleið þau eigi.

Í þriðju myndinni ræða þau þetta allt við gríska vini sína, full af sama efa um hvort fyrstu fundir þeirra hafi í raun verið rómantískir eða ekki og leika hjónaband sitt fyrir vinina. Þetta er allt eins póstmódernískt og hugsast má, grísku vinirnir eru nánast fyrstu persónurnar í myndaflokknum fyrir utan spákonu og skáld í fyrstu myndinni en þegar þau hverfa úr sögunni eru söguhetjur okkar enn að velta fyrir sér sambandi sínu sem er bæði til í alvörunni og í skáldsögum mannsins sem hefur reynt að veita því merkingu í tungumálinu og finna kjarnann í hversdagsleika sem hafði sterk áhrif á hann sjálfan. Það er ekki hlaupið að slíku eins og margir höfundar vita. Linklater sjálfur ætlar sér hið sama og nýtir 18 árin sem líða milli mynda eins og hann gerði líka í kvikmyndinni Boyhood sem var tekin á ellefu árum (2002-2013), sjálfsagt þekktasta dæmi um „hæga kvikmyndagerð“ í sögunni.

Það sem kannski heillar við Before-myndirnar er að þær leiða saman ævina og augnablikið. Það er ekkert sérstakt við aðalpersónurnar en þó allt því að við erum öll einstök þó að við séum samt hvert öðru lík — þetta er hluti af galdri tilvistarinnar. Það lýsir kjarki hjá Linklater að segja slíka sögu án allra hefðbundinna söguþráðarbrellna en sá hefur löngum verið metnaður hans, að gera bíómyndir sem eru sneið úr lífinu og fanga augnablik sem eru ekki endilega söguleg.

Previous
Previous

Alfreð barnadrápari

Next
Next

Trönu hvöt