Trönu hvöt
Hamðismál hin fornu eiga sér sennilega eldfornt upphaf þar sem sjálfur Jordanes segir frá því í De origine actibusque Getarum frá 6. öld að árið 375 hafi Gotakonungurinn Ermanaric verið illa særður af mágum sínum Sarus og Ammius eftir að hafa látið hesta troða systur þeirra Sunilda. Öll þessi nöfn ganga aftur í Hamðismálum og efnisatriðin eru svo svipuð að sögnin sem þar er rakin hlýtur að vera a.m.k. þriggja alda þegar kvæðið er samið. Frá Ermanaricus er raunar sagt enn fyrr, í sagnariti Ammianus Marcellinus frá lokum 4. aldar en hann er ekki með öll þessi efnisatriði. Á 9. öld birtist sami konungur sem Iormunrek eða Jörmunrekkr á norrænu málsvæði og frá árás Hamðis (Ammius) og Sörla (Sarus) til hefndar fyrir Svanhildi systur þeirra er sagt í kvæðinu sem við Hamði er kennt en þar eru þau systkinin orðin börn Guðrúnar Gjúkadóttur sem er vel þekkt persóna úr öðrum germönskum og norrænum kveðskap.
Eins og líklegt má teljast um svo fornt kvæði er margt loðið í því sem erfitt er að þýða, þannig hefst það á því að „tregnar íðir“ eru sagðar hafa sprottið „á tái“ og ekkert af þessu er vel skiljanlegt. Á hinn bóginn er dularfyllsta setningin í 17. erindi kvæðisins, „trýtti æ trönu hvöt“, skotið inn þegar þeir Hamðir og Sörli hafa gengið fram á systurson sinn hangandi í tré og rennur væntanlega kalt vatn milli skinns og hörunds, skömmu áður en sjálf viðureignin við Jörmunrek hefst. Þeir hafa þurft á hvatningu móður sinnar að halda en veikt sjálfa sig í kjölfarið með því að drepa hálfbróður sinn Erp að tilefnislausu (Móri hefði kannski skilið þá!) en núna er stund sannleikans runnin upp. Hvað merkir þá sögnin „trýta“? Ásgeir Blöndal Magnússon er ekkert of viss, hefur fá dæmi og virðist einna helst hallast að „gagga“ eða „ymta“. Einhvern veginn sér maður ekki fyrir sér að gagg í trönu geti verið eggjandi eða hvetjandi, „hvöt“ er ekki heldur neitt sérstaklega algengt orð í fornsögum en getur vísað til hugrekkis og festu („hvatur“ maður er öruggur í sinni ætlan og hugrakkur). Getur verið að gaggið í trönunni minni ungu mennina á móðurina sem hafði áður hvatt þá? Er Guðrún Gjúkadóttir tranan?
Jörmunrekur hefur enn ekki birst þegar hér er komið kvæði en hann er eftirminnileg persóna og meðal eftirlætislína minna í gervöllum eddukvæðunum er þessi lýsing: „Hló þá Jörmunrekkr, hendi drap á kampa, beiddist að bröngu, böðvaðist að víni“. Þar sem böð merkir orustu má vel sjá Jörmunrek fyrir sér við víndrykkjuna en eins ímynda sér hlátur hans og hvernig hann drepur hendinni ofurlétt á glæsilegt skegg sitt (seinna á hann eftir að hrista sitt rauða hár með gullker í hendinni). Brangan vísar líka til ófriðar, þó að víndrykkja konungsins sé ófriðleg og hömlulaus óskar hann ekki eftir illdeilum við þá bræður (eða óskar hann þeirra? Orðið „at“ er margrætt hér). Í öllu falli hefur hann litlar áhyggjur af gestunum og kannski ber að skilja trönugaggið í því samhengi, lítil von er um sigur og ekki veitir af hvatningu fuglsins.
Þó að kvæðið sé eitt það elsta á íslensku er áhugavert hversu myndrænt og hljómrænt það er, bæði er lýsing konungsins lífleg en eins getum við heyrt kynlegt fuglagarg ættað úr mannlegum tilfinningum ungu mannanna sem hyggjast hefna en eru dauðir í kvæðislok sem jafnframt eru lok Konungsbókar eddukvæða.