Systur skrifast á

Sjaldan líður lesanda eða áhorfenda eða jafnvel aðeins þeim sem fylgist með fréttum meira eins og hann liggi á gægjum en þegar erfðamál, fjölskylduerjur eða forræðisdeilur rata á paðreim opinberrar umræðu. Iðulega eru þær jafnvel verri en verstu deilur í húsfélagi vegna þess hve illvígar og tilfinningahlaðnar þær verða gjarnan, hlutdrægnin sjaldan meiri eða blindan á annan málstað en eigin, í stuttu máli getur gagnrýninn lesandi engu treyst sem málsaðilar segja sem er í sjálfu sér gott bókmenntafræðilegt prinsip en þó ekki því að lesandi reynir iðulega að finna einhvern til að standa með og ákafur málflutningur hefur iðulega öfug áhrif á reynda lesendur. Það merkir þó ekki að slíkar frásagnir geti ekki verið bókmenntir og bók Vigdísar Hjorth, Arfur og umhverfi, er það óumdeilanlega; hún er nýkomin út á íslensku þýdd af skáldinu Ísak Harðarsyni sem andaðist nýlega. Sagan fjallar um erfðamál, sifjaspell og systkinaerjur og þó að hún sé yfirlýst skáldsaga og allar persónur heiti öðrum nöfnum hefur hún verið skilin ævisögulega þannig að hún fjalli um Hjorth-fjölskylduna og systir höfundarins Helga Hjorth „svaraði” sögunni með eigin „skáldsögu” um sömu fjölskylduerjur.

Ekkert af þessu vissi ég þegar ég las bókina sem mér rannst mjög áhrifamikil þótt ég velti fyrir mér um tíma hvort sifjaspellaminnið væri orðið klisja, hugsun sem gufar upp þegar maður fréttir að höfundur sé hugsanlega að rekja eigin sögu. Í kjölfarið hefur sprottið upp umræða í Noregi sem er hliðstæð íslenskri umræðu um samband ævisögu og skáldsögu og ein spurning er hvort fólk eigi sitt eigið líf eða hvort það sé öllum heimilt söguefni. Spurningin virðist í fyrstu einkennileg í ljósi þess hversu mikill hluti skáldverka (kannski hvert einasta á einhvern hátt) grundvallast á sögulegum staðreyndum eða ævisögulegum, allt frá upphafi skáldsagna á 18. öld. Spurningin er enda kannski ekki hvort ævi annarra sé heimilt söguefni heldur hvernig. Enginn getur stöðvað skáldsagnahöfund (fremur en blaðamann) sem vill skrifa bók um hann. En um leið geta höfundar varla ætlast til að fólkið sem þeir skrifa um hafi engar skoðanir á hvaða saga sé sögð og hvernig. Eins er ekkert óeðlilegt að orð eins og „misnotkun” séu notuð þótt varla se hægt að setja höfundum skorður með lögum án þess að hugtakið „ritskoðun” skjóti líka upp kollinum.

Er hægt að búa til reglur um hversu nálæg saga megi vera raunveruleikanum? Dugir orðið „skáldsaga”? Er nóg að breyta nöfnunum eða er það óheiðarlegt ef við blasir samt hverjir séu þar á bak við? Hversu mikla ábyrgð ber skáldsagnahöfundur á því að margir eða jafnvel flestir lesendur taki skáldverkinu sem sannri sögu? Helgu fannst frásögn systur sinnar greinilega ekki sanngjörn og það er áhugavert að hún svarar með annarri „skáldsögu”, einkum í ljósi þess að hún er lögfræðingur.

Ég geri ekki lítið úr þessum vanda en kjarnaspurningin hlýtur að lúta að því hvernig höfundurinn notar veruleikann. Dregur hann upp skrípamyndir af öðrum? Er frásögnin rógur? Ef mikilvægum staðreyndum er breytt en engum sem eru almennt þekktar, er þá skáldið að ljúga? Sjálfur hef ég iðulega nýtt veruleikann og hefur þá fundist mikilvægt að breyta annað hvort miklu eða engu sem máli skiptir. Ég hefði miklar efasemdir um að fullyrða að fólk sem auðvelt er að bera kennsl á sé t.d. kynferðisglæpamenn ef ég hefði enga vitneskju um það og ef það er almenn samstaða um að það sé ósiðlegt, hlýtur höfundur ekki að telja sig segja satt um slíkt og þar með er skáldsagan þá ekki eins konar ákæra? En þá kemur að merkimiðanum, hlýtur hann ekki að hvetja til að ákærunni sé ekki endilega trúað? Allt þetta velkist um í kollinum eftir lestur harmsögu sem hugsanlega allir í Hjorthfjölskyldunni telja eign sína.

Previous
Previous

Trönu hvöt

Next
Next

Alfreð allur