Alfreð allur

Eftir að ég ræddi Rope um daginn las ég á ný ævisögu Alfred Hitchcock sem leyndist í hillu heima og áttaði mig á að ég hafði séð einar 24 af 29 kvikmyndum meistarans frá Bandaríkjaárunum (1940 og síðar) en hlutfallið talsvert óhagstæðara þegar kom að bresku myndunum 25, þöglu og talmyndum (fram til 1939). Það verður leiðrétt í fyllingu tímans en mér fannst einboðið að reyna að sjá núna þessar fimm myndir (allar svarthvítar) sem eftir stóðu og dundaði við það í júlí. Fyrst á dagskrá var Lifeboat (1944) sem er undanfari Rope þegar kemur að byltingarkenndri nálgun við formið á litlu og skýrt afmörkuðu sviði. Í myndinni eru aðeins 10 hlutverk (þrjár konur), manneskjur fastar á björgunarbát (sviðið verður varla afmarkaðra) eftir að þýskur kafbátur hefur sökkt skipinu. Einn reynist vera skipstjóri kafbátsins, tvö í viðbót týna tölunni en hin sex virðast hólpin í lokin. Mest áberandi er hin kaldhæðna blaðakona Connie, Dorothy Parker týpa sem smám saman tapar öllum sínum eigum og verður um hríð haldin Öskubuskuduldinni en er samt sú sem telur kjark í hópinn þegar mest liggur við; hana leikur Talullah Bankhead sem sjálf var fræg týpa í Hollywood. Á bátnum eru einnig jaxlinn Kovac sem er dæmigerð hasarmyndahetja, nakinn að beltisstað hálfa myndina. Þá má nefna auðkýfinginn Rittenhouse sem er í fyrstu leiðtogi hópsins en missir frumkvæðið og reynist barnalegur hugsjónamaður og gagnslaus í hættuástandi. Afmælisbróðir minn Kanadamaðurinn Hume Cronyn leikur einn af þeim sem björguðust; hann og kona hans Jessica Tandy urðu síðar fræg í bernsku minni fyrir leikritið Rommí (1977) sem endurlífgaði áhuga Hollywood á þeim — á Íslandi léku Gísli Halldórsson og Sigríður Hagalín þetta háaldraða par orðin svo gömul sem 53 ára. Einn farþegi er svartur, með það hlutverk fer hinn stórmerki Canada Lee sem ég notaði tækifærið og fræddist um. Hann spyr hæðinn hvort hann megi líka kjósa þegar farþegarnir vilja iðka þá lýðræðislegu iðju; í sögulok kemur í ljós að hann er kvæntur en um það hafði enginn spurt fyrr. Siðferðisspurningar verksins snúast ekki síst um þýska skipstjórann sem þau bjarga en ráðast öll á að lokum (nema sá svarti en hins vegar báðar konurnar sem eftir eru) og kasta fyrir borð en hann hafði smám saman náð stjórninni með demónskri slægð. Handritið er eftir sjálfan John Steinbeck sem var ekki ánægður með meðferð Hitchcocks á því. Auk þess var myndin erfið í framleiðslu, margir leikarar kvefuðust og hópur trölla veittist að myndinni þegar hún var loksins sýnd fyrir að þýski skipstjórinn væri of „mennskur“ (en ekki hvað?). Síðar hefur Lifeboat verið endurmetin og þykir býsna góð og mér finnst sjálfum Alfreð takast vel upp við þetta frumlega verkefni þó að enn finnist mér hún ekki jafnast á við Rope.

I Confess (1953) er jafnvel enn gleymdari núna en mikilvæg fyrir Hitchcock sem var kaþólskur. Undirbúningurinn tók óvenju langan tíma (kanadíska spennukvikmyndin Le Confessionnal (1995) er sviðsett á þeim erfiða tíma sem myndin var tekin og Hitchcock er þar persóna) og leikstjóranum kom ekki saman við aðalleikarann Montgomery Clift sem var af „method acting“ skólanum, vildi ræða persónu sína löngum stundum við Hitchcock og fylgdi ekki alltaf leiðbeiningum. Á sínum tíma var Clift leikari af stærð við sjálfan Brando, frægur fyrir að hafna bitastæðum hlutverkum sem aðrir unnu svo verðlaun fyrir; hann fór illa út úr bílslysi árið 1956 og bar aldrei barr sitt eftir það, lést að lokum á 46. ári eftir bága heilsu. Svipur hans í hlutverkinu er iðulega fullur af ótjáðum tilfinningum og margræðri sálarkreppu sem hann hefur sjálfsagt sótt djúpt í eigin tilfinningalíf; auk heldur muldrar hann stundum eins og Marlon sem eflaust var lítt við skap Hitchcocks. Söguþráðurinn er sá að húsvörður við kaþólska kirkju í Quebec játar morð fyrir prestinum sem getur ekki komið upp um hann nema rjúfa sakramenti skriftastólsins, jafnvel ekki þegar grunurinn tekur að beinast að honum sjálfum þar sem morðinginn var í prestsgervi og þá er hann lentur í alvarlegri kreppu sem fáir aðrir en kaþólskir fá skilið og mörgum gagnrýnendum féll fléttan illa. Ef við tökum kaþólsku kirkjuna og lögmál hennar alvarlega er myndin aftur á móti áhrifamikil. Hún hefst á fallegum skotum úr borgarlandslagi þar sem kirkjur gnæfa yfir götur eins og ferleg fjöll, táknræn lýsing á því hvernig reglur og hefðir kirkjunnar drottna yfir kaþólskum og auðvitað aðalpersónunni. Eins má velta fyrir sér hvort hinn lágkúrulegi morðingi (sem maður vorkennir og fyrirlítur en er varla hræddur við) sé undir áhrifum frá kenningum Boethiusar um illskuna sem skort á góðu. Drjúgur hluti fléttunnar sést í endurliti Anne Baxter sem lék margar bersyndugar konur á sínum tíma og hér gamla ástkonu prestsins frá því löngu áður en hann gerðist klerkur (en jafnvel það hneykslaði kaþólska áhorfendur sem vildu trúa á skírlífi presta sinna). Fléttan er grundvölluð á gömlu leikriti Frakkans Paul Anthelme Bourde og hann á til að drekkja siðferðislega vandanum í melódramatískum vendingum. Það er í stuttu máli ekki sagan sem gerir myndina þess virði að sjá heldur handbragð meistarans sem dregur fram hið erfiða val prestsins sem sögukjarnann með mörgum nærmyndum og til skiptis þrungnum eða steinrunnum svipbrigðaleik Clifts sem nær hámarki í áhrifamiklu lokaatriði þar sem presturinn auðmýkti hefur verið sýknaður en stendur andspænis æstum dómstól götunnar.

Þó að Stage Fright (1950) heyri tæknilega til ameríska tímabili meistarans er hún tekin í Englandi og endurspeglar ást Hitchcocks á Lundúnum (og fjölleikahúsum og garðveislum sem iðulega eru svið stórviðburða í myndum hans). Leikararnir eru enskir fyrir utan stjörnurnar tvær, Jane Wyman (þá nýlaus við Reagan) og Marlene Dietrich. Sú fyrrnefnda er prýðileg í gamansömu hlutverki og Marlene er nokkurn veginn hún sjálf. Allar stjörnur Hollywood vildu vinna með Hitchcock og þetta er ein af fáum myndum hans þar sem aðalleikonan syngur beinlínis („The Laziest Gal in Town“ eftir Cole Porter í fullri lengd). Marlene var bæði stjórnsöm og hafði óvenju mikla tækniþekkingu þannig að hún lét stundum til sín taka í tökunum en Hitchcock tók því með húmor. Ung leikkona (Wyman) ræður sig sem vinnukonu hjá stjörnunni Charlotte Inwood (Dietrich) til að hreinsa kærasta sinn af grun um morð og í einni drepfyndinni senu reynir hún að setja upp gleraugu sem allir þekkja hana þó aftur með en hafa þau ein áhrif að hún sér ekki neitt. Fyrir utan Wyman og Dietrich er hinn nú gleymdi en fjallmyndarlegi Richard Todd áhrifamikill í sínu hlutverki; hann var ein af stjörnum ársins 1950. Ensku leiklistarljónin Sybil Thorndike og Alistair Sim eru fyndin í aukahlutverkum; Sim er einn þeirra sem léku háaldraða menn um fimmtugt. Þráðurinn er ekki ósvipaður The Usual Suspects, upphaf myndarinnar er frásögn í endurliti sem reynist ótrúverðug og var það umdeilt meðal gagnrýnenda á þeim tíma. Hitchcock er enn að spreyta sig á löngum tökum sem voru rækilega undirbúnar eins og í Rope en Stage Fright hefur fengið litla athygli gagnrýnenda, kannski vegna þess að hún er ívið líkari eldri myndum meistarans en þeim sem nú fóru í hönd, raunar er plottið breytt endurtekning á Young and Innocent með aukinni kaldhæðni (og sumar senur í myndinni gengu síðar aftur í Frenzy; kannski er þess vegna sem Stage Fright hefur fallið milli stafs og hurðar). Hitchcock fær mikla útrás fyrir svartan húmor sinn. Marlene fer með setningar eins og „The only murderer here is the orchestra leader“ og „Oh darling, don’t confide in me, pour some tea“ og svo er löng lykilsena með hinni þekktu Joyce Grenfell sem var Edda Björgvins Breta á þessum tíma. Fyndni er ríkur þáttur í höfundarverki meistarans og dregur ekkert úr spennunni. Hann virðir líka rómönsuregluna um að ef einn kavalér reynist ótraustverður er annar mættur að fylla skarðið. Sögulokin eru dramatísk í besta Hitchcock-stíl og eins atriðið þegar lítil stúlka með blóðuga dúkku er látin höfða til samvisku annars morðingjans. Niðurstaðan er að Stage Fright sé kannski vanmetnust af öllum þessum myndum.

Árið 1957 var gjöfult fyrir Henry Fonda en þá lék hann í einni bestu mynd allra tíma, 12 Angry Men, sló líka í gegn í The Tin Star ásamt Anthony Perkins og svo lék hann í The Wrong Man fyrir Hitchcock sem var ekki sótt í annað skáldverk eins og flestar myndir Alfreðs heldur grein í tímaritinu Life og birtist Hitchcock í upphafi myndarinnar og segir okkur að þetta sé sönn saga; svipuðu hlutverki gegndi hann í sjónvarpsmyndaflokknum Alfred Hitchcock Presents (1955–1965) en þar leikstýrði hann þó aðeins 18 þáttum af alls 361. Fann hann kannski upp sannraglæpahlaðvörpin sem núna eru eitt vinsælasta frásagnaform heimsins? Sagan fjallar um Christopher „Manny“ Balestrero (1909–1998), tónlistarmann sem var sakaður um vopnað rán vegna þess að hann líktist hinum seka (eins og sjá má að neðan). Atriðið þegar konurnar á skrifstofunni þykjast bera kennsl á hann sem leiðir til ógæfunnar er eitt hið áhrifamesta í myndinni, þar fáum við að sjá hinn blásaklausa Manny með augum annarra. Síðan sjáum við lögguna tuddast á manngreyinu, býsna algeng saga í myndum nútímans en óvenjuleg á þessum tíma þannig að kannski er The Wrong Man sú mynd Hitchcocks sem vísar mest til nútímans.

Henry Fonda er sannfærandi í aðalhlutverkinu, við trúum að hann sé saklaus en um leið eru viðbrögð hans við ásökununum sektarleg. Vera Miles leikur eiginkonuna (Balestrerohjónin voru í raun álíka gömul en Miles 24 árum yngri en Fonda) en í seinni hluta myndarinnar fær hún taugaáfall af sektarkennd, endar á spítala og lengi óvíst að hún jafni sig yfirleitt. Vera (sem lifir enn) er sannfærandi tragísk. Hún átti síðan að leika í Vertigo en varð ólétt og vann mest lítið með Hitchcock á þeim fimm árum sem hún átti að vera helsta stjarnan hans, þeim báðum til nokkurrar gremju. Í þriðja aðalhlutverkinu er Anthony Quayle sem birtist ekki fyrr en í miðri mynd sem verjandinn, sá fyrsti sem tekur málstað Manny eftir martröð handtökunnar og sendir þau hjónin í leit að fjarvistarsönnun um allt fylkið en ýmis vitni reynast hafa látist og þannig virðist allur heimurinn í samsæri gegn hjónunum. Illar tilviljanir og órökrétt sektarkennd eru algeng þemu í myndum Hitchcocks og í The Wrong Man birtast óttinn og sektin nakin og óskreytt, að ógleymdri tilviljuninni sem bjargar Manny að lokum þegar rétti ræninginn er gripinn við annað rán en það þýðir ekki að konan jafni sig strax. Balestrero sjálfum mun hafa fallið myndin vel.

Í Herra og frú Smith (1941) vann Alfreð með sjálfri Carole Lombard, þá nýkominn til Hollywood. Þessi mynd er ekkert lík höfundarverki hans yfirleitt þar sem hún er farsi og glæpir, ráðgátur eða spenna koma ekkert við sögu; myndin á ekki heldur neitt sameiginlegt með síðari mynd með því nafni með „Brangelina“-parinu. Fyrir utan atriði á heimssýningunni í New York 1939 eru fá minni sem eru vel þekkt úr Hitchcockheiminum. Efni farsans er að í ljós kemur að hjónaband Smith-hjónanna er ekki formlega löglegt og þeim er sagt að ganga frá formsatriðunum en herra Smith er ekkert að flýta sér að kippa því í liðinn þannig að frúin þarf að refsa honum með því að dandalast með vini hans. Auðvitað fer allt vel að lokum og persónuleiki Carole Lombard ber uppi myndina. Einhvern veginn finnst mér að ef þessi mynd hefði verið gerð um 2000 hefðu Matthew McConaughey og Kate Hudson verið í aðalhlutverki. Í henni eru allmargar fyndnar senur en fátt sem minnir á Alfred Hitchcock og tónlistin minnir sannarlega ekki á Bernard Herrmann.

Allar fimm myndir voru vel þess virði, ekki aðeins til að ná fullu húsi Hitchcock-mynda frá seinni hluta ferils hans heldur eru þetta góðar myndir hver um sig og ég skil æ betur hvers vegna mamma heitin var svo ánægð með að eiga sama afmælisdag og meistarinn.

Previous
Previous

Systur skrifast á

Next
Next

Kurosawa og kynuslinn