Kurosawa og kynuslinn

Enn hef ég ekki séð hinn margumrædda þátt Succession en hins vegar notaði ég tækifærið og horfði á Ran eftir meistarann Kurosawa þegar hún skaut upp kollinum á norrænni sjónvarpstöð. Ég er í hægfara námskeiði um japanska kvikmyndagerð hjá sérfræðingum og hef lært nokkuð síðan ég sá Ran síðast fyrir tæpum 30 árum. Hún er eins og margir vita innblásin af Lé konungi Shakespeares en ekki er þó hægt að kalla hana aðlögun þar sem hinn upphaflegi innblástur er áhugi Kurosawas á sögu Japans á 16. öld; það var ekki fyrr en síðar sem hann sá líkindi með sögunni sem hann var hugleiða og leikriti Shakespeares um hinn aldraða konung sem ber ekki skynbragð á tryggð eigin barna og gat nýtt sér þau líkindi til að bæta ýmsu skrítnu við söguna.

Samband Kurosawas við japanska listheiminn var alltaf brokkgengt og Ran var að hluta til erlend framleiðsla m.a. þess vegna. Kurosawa hafði dottið úr tísku úr Japan á 7. áratugnum og hélt til Hollywood en vinnulag hans var Bandaríkjamönnum lítt skiljanlegt og hann fékk orð á sig fyrir að vera snarruglaður eftir að hafa flæmst burt úr stórmyndinni Tora, Tora, Tora (1970) sem floppaði raunar illa þegar upp var staðið. Eftir nokkur myrk ár rétti hann sig hins vegar við með því að vinna með Sovétmönnum að myndinni Dersu Uzala (1975) sem Bandaríkjamenn veittu óskarsverðlaun. Í kjölfarið gerði hann Kagemusha (1980) og síðan Ran (1985) sem báðar fengu alþjóðleg verðlaun líka. Ran reyndi hins vegar mikið á hann og meðal annars missti hann konu sína meðan á myndatökum stóð.

Hirðfíflið fær mun stærra hlutverk í Ran en í Lé konungi; með hlutverkið fer Ikehata Shinnosuke sem gekk undir sviðsnafninu Peter eða Pita og frammistaða hans er nútímaleg með miklum kynusla enda var Pita frumkvöðull í japanskri drag-menningu svo snemma sem um 1970 og til eru áhugaverð viðtöl við hann frá þeim tíma þegar hann svarar því hvort hann telji sig karl eða konu og fleiri gáfulegum spurningum sem fylgdu blaðaumfjöllun um kynusla á þeim tíma; svör Pita eru bæði brilljant og nútímaleg. Þegar Pita sló í gegn alþjóðlega í Ran voru fáir heimsfrægir drag-leikarar til og kannski má teljast óvænt að 75 ára leikstjóri yrði til að kynna heiminum slíka stjörnu. Áhrifin voru kannski takmörkuð og má tengja við sígilda stöðu hirðfíflsins sem boðbera sannleika sem ráðamönnum leyfist þó að hunsa.

Hinn blindaði Tsurumaru er önnur áhugaverð persóna sem er fyrst tekinn í misgripum fyrir stúlku en reynist vera strákur sem leikur á flautu. Aðrir hafa leikið Tsurumaru grátt, andstætt gráglettni hirðfíflsins teflir Kurosawa hér fram raunverulega tragískri persónu og sumir gagnrýnendur sjá Kurosawa sjálfan í honum vegna þess að eftir skipbrot hinna ríku og valdamiklu lýkur myndinni á honum í einsemd sinni á fjallstindi, e.t.v. milli lífs og dauða því að blindur maður gæti slysast til að detta af fjallinu og manni finnst þetta ansi táknræn útlistun á smæð mannsins í heiminum sem hugsanlega er aðalefni myndarinnar.

Previous
Previous

Alfreð allur

Next
Next

Peter Ustinov og oríentalisminn