Peter Ustinov og oríentalisminn

Ég var alinn upp í mikilli aðdáun á Peter Ustinov sem enn ber engan skugga á og ég hvet ykkur öll til að horfa á myndband með honum þar sem hann lýsir reynslu sinni af kvikmyndum stórmyndarinnar Spartacus og hermir skemmtilega eftir Charles Laughton. Ég þekkti ekki neinar af frægustu myndum Ustinovs þegar ég var barn en hafði kynnst honum í hlutverki Hercule Poirot og sumarið 1983 fór ég í Tónabíó og horfði á hann leika í Charlie Chan og bölvun drekadrottningarinnar, vitandi ekkert um þennan havaíska lögreglumann sem sló í gegn í Hollywood fyrir stríð, Charlie Chan þá leikinn af hinum sænska Warner Oland (1879–1938) en persónan reyndist mjög vinsæl og átti sér langt framhaldslíf. Það hefur því ekki virst fráleitt að reyna að endurvekja hann árið 1981 en myndinni var mótmælt af Bandaríkjamönnum af asískum ættum þó að ég vissi ekkert um það á sínum tíma. Ég þekkti enga leikstjóra á þessum tíma en leikstjóri myndarinnar var Clive Donner sem líka leikstýrði What’s New Pussycat? sem foreldrum mínum þótti mjög fyndin.

Miðað við alla mína nostalgíu var annað óhugsandi en ég græfi þessa mynd upp aftur, fyrst á dvd og síðan sá ég hana á tölvunni um daginn. Öfugt við fyrstu tvær Poirot-myndir Ustinovs er hún ekki beinlínis góð, eiginlega óttaleg vitleysa með fáránlegum persónum og tilgangslausum eltingarleikjum. Samt líkar mér vel við hana enda mikil fjöld í henni af frægum leikurum: Roddy McDowall, Rachel Roberts, Brian Keith, Michelle Pfeiffer (þá enn ófræg), Angie Dickinson og Lee Grant sem enn lifir á 98. ári og er af rússnesku kyni (heitir upphaflega Ljova), eins og þær Natalie Wood og Helen Mirren. Ég hélt alltaf sérstaklega upp á Lee Grant í þessari mynd og komst síðar að því að hún var ein þeirra sem var bannfærð fyrir kommúnisma á McCarthy-tímanum en líka vegna þess að hún er úr leikhúsum New York og leikur aðeins öðruvísi en kvikmyndaleikarar. Brian Keith brillerar líka í sínu hlutverki en sjálfur Ustinov þorir ekki að beita sér, eru kannski þröngar skorðar settar í þessum Charlie Chan búningi og hefur eflaust ekki viljað vera „grínverji“. Angie Dickinson hefur líka lítið að gera í myndinni, er samt mjög illúðleg drekadrottning og ég féll fyrir því á sínum tíma en í raun eru öll morðin framin af allt annarri persónu.

Myndin gerist í San Francisco og hæðótt landslagið leikur mikið hlutverk. Drjúgur hluti myndarinnar er „detta-á-rassinn-grín“ sem Chevy Chase var sérfræðingur í á sínum tíma. Af einhverjum ástæðum féll pabba ekki við Chevy þannig að við fórum ekki á myndir hans en mig minnir að okkur hafi fundist Richard Hatch þolanlegri en sá leikur klaufabárðinn í þessari mynd. Sá er sonarsonur Charlie Chan sem rekur leynilögreglustofu en er svo lélegur í starfi sínu að hann hefur ekki einu sinni fundið kött sem er þó eina verkefni hans. Löngu seinna sér maður samt að Michelle Pfeiffer trompar Hatch fullkomlega og engin tilviljun að hún varð meiri stjarna en hann þegar fram liðu stundir.

Það mikilvægasta við þessa sjarmerandi en slöppu gamanmynd er kannski að Charlie Chan kallar son sinn alltaf „Number One Son“ og pabbi heitinn fór að nota þetta á mig eftir þetta; kannski er það þess vegna sem ég hef tilfinningatengdan áhuga á myndinni. Fyrir utan asíska grímubúninginn (sem er þó mun skárri en Mickey Rooney í Breakfast at Tiffany’s) er myndin ekki heldur mjög vond en þó aðeins verri en það sem maður hefði búist við af öðru eins leikaravali.

Previous
Previous

Kurosawa og kynuslinn

Next
Next

Hrottameiðirinn