Hrottameiðirinn

Eddukvæðin eru bæði mislöng og miserfið. Meðal þeirra síst torræðu eru Reginsmál, bæði vegna þess að kvæðið er bæði ljóð og lausamál, sagan vel þekkt og fátt um flókin heiti. Reginsmál er í raun hluti af langri syrpu ásamt Fáfnismálum og Sigurdrífumálum, a.m.k. eins og þau eru sett fram í Konungsbók eddukvæða. Þetta eru kvæðin sem tengjast æsku Sigurðar Fáfnisbana, þ.e. áður en kvennamál og Gjúkungar verða honum að aldurtila. Það eina sem hann þarf að glíma við í æsku eru dreki og svikull dvergur og það reynist honum ívið léttara en hinar hversdagslegu þrautir sem fylgja mannlegu samlífi.

Fyrstu yfirferð þýðenda yfir kvæðið er lokið og það sem ég staldraði einna helst við er 20. vísan en seinni hluti hennar er: „dyggva fylgju / hygg ek ins dökkva vera / hrottameiði hrafns“, bæði vegna þess að fylgjur í norrænum miðaldatextum eru flókin og iðulega misskilin fyrirbæri en síðan er það efinn um hver sé dökkur. Hér talar Hnikar sá sem Sigurður Fáfnisbani leitar ráða hjá og hann virðist fullyrða að Sigurður njóti gæfu, en er hann þá að segja að Sigurður sé dökkur og hvers vegna kallar hann unglinginn „hrottameiði hrafns“?

Hér skapast vandi af því að um stakyrði er að ræða og gæti verið „hrottameiðr“ eða „hrottameiðir“, þ.e. tré kennt við sverð (hermaður) eða sá sem veldur meiðslum með sverðinu (líka hermaður eða kannski konungur sem gefur öðrum sverð). Hrotti er aftur á móti vel þekkt í sverðskenningum og líka hrafn — en hvers vegna ætti að kenna hermann við hrafn þegar búið er að kenna hann við sverð? Hrafnar eru vitaskuld algengir í orustukenningum eddukvæða og dróttkvæða og oft tengdir vökva; skáldin eru æst í að draga fram hrafninn sem blóðþyrsta hræætu. En hér er eiginlega kennt tvöfalt sem fleiri dæmi eru vissulega um en ég hlýt samt að staldra við úr því að um stakyrði er að ræða.

Kenningar eru auðvitað annað og meira en tilvísun, sjálf myndin í kenningunni skiptir líka máli, t.d. það að sverð sé kallað hrotti og að rætt sé um hrafninn sem étur hræin. Eins er spurning hvort fylgjan sé dökk eða hermaðurinn og þá um leið hvort fylgjan eða hermaðurinn sé dygg. Fylgjur gátu verið í dýrslíki og kannski er með kenningunni gefið til kynna að fylgja þess sem sverðinu beitir sé einmitt sá dökki fugl. Hvað sem því líður held ég áfram að glíma við þessar línur því að í edduþýðingum má ekki hlaupa eins og spói yfir akur.

Previous
Previous

Peter Ustinov og oríentalisminn

Next
Next

Fallandi gengi