Fallandi gengi

Nýlega sá ég leikritið Absolute Hell á netinu sem ég mundi eftir að hafa séð í Sjónvarpinu fyrir löngu en grunaði að ég hefði ekki metið til fulls. Höfundur þess er hinn annars óþekkti Rodney Ackland (1908–1991) og leikritið gerist í Bretlandi árið 1945 og lýsir klúbbi einum í Lundúnum þar sem fínt fólk drekkur við sleitur en klúbbnum fer hnignandi enda margir kúnnarnir virðulegt íhaldsfólk vel við aldur en snautt að fé. Upphaflega hét leikritið The Pink Room eða The Escapists og það kolféll þegar það var frumflutt árið 1952, þrátt fyrir stuðning frá hinu þekkta leikskáldi Terence Rattigan. Þetta leiddi til vinslita Rattigans og Acklands og sá síðarnefndi fékk lítið að gera í leikhúsi í kjölfarið. Hann gafst hins vegar ekki upp og kenndi um ritskoðun sem síðan hafði verið aflétt. Hann endurskrifaði því leikritið og dró fram allt sem áður hafði verið bannað að nefna. Einu jákvæðu samböndin í leikritinu eru samkynja en mikið er um framhjáhald, áreiti og almennt sukk. Leikritið var að lokum sýnt aftur 1988 og hefur verið mikils metið síðan. Í sjónvarpsgerðinni frá 1991 eru Judi Dench, Bill Nighy, Charles Gray, Ronald Pickup og Francesca Annis í helstu hlutverkum, allt mikilsvirtir leikarar. Það er mjög áhugavert miðað við margt sem kemst á fjalirnar nú um stundir þó að ég ætti erfitt með að ná utan um táknrænu þess.

Annað eldra sjónvarp sem mér fannst rétt að gefa annan möguleika er Time After Time, gert eftir skáldsögu Molly Keane. Hún var írsk, fædd árið 1904 og fór snemma að skrifa en notaði nafnið M.J. Farrell. Skáldsögur hennar fjölluðu um írska aðalinn og yfirstéttina sem hún þótti afhjúpa í öllu sínu snobbi og kynþáttahyggju. En um fimmtugt missti hún móðinn og ferli Farrells var lokið í bili, sennilega hafa margir lesendur talið höfundinn látinn. Það var ekki fyrr en vinkona hennar Peggy Ashcroft (já, leikkonan fræga) komst í handrit hennar að skáldsögunni Good Behaviour að Keane féllst á að gefa út skáldverk að nýju, þá 77 ára og nú undir eigin nafni. Skáldsögur undir höfundarnafni Molly Keane urðu alls þrjár, gefnar út 1981-1988. Keane andaðist árið 1996 og naut þá virðingar að nýju, nú sem hún sjálf.

Persónurnar í Absolute Hell eru á öllum aldri en aðalpersónur Time After Time eru aldraðar, eiga það þó sameiginlegt hinum að muna sinn fífil fegri. Fjögur systkini sem greinilega voru einu sinni efnuð búa saman í stórhýsi sem einu sinni var fínt en er nú óðum að breytast í hjall. Þau eru öll bömluð á einhvern hátt, bróðirinn eineygður, systirin með örkumlaða hönd, sú þriðja heyrnardauf og sú fjórða nánast ólæs. Þau gegna hvert sínu hlutverki á heimilinu af talsverðri ákefð án þess að sinna þeim vel. Líf þeirra er frekar hlálegt og aumkunarvert þegar sú fimmta bætist í hópinn: blind frænka þeirra Leda sem virðist mætt á svæðið til að eyðileggja allt og niðurlægja ættingja sína sem mest.

Þetta hljómar eins og uppskrift að harmleik en systkinin virðast hvert um sig sækja styrk í eymd sína og ná sniðuglega að leika á þennan verðandi húskross. Sagan verður því svarthúmorísk, ekki ólíkt verkum Roalds Dahl eða kannski Barböru Pym. Kannski er hún einmitt eins konar úttekt á mannlífinu vegna þess að í henni eru engin mikilvæg atvik, aðeins seigfljótandi mannleg samskipti. Ekki spillir fyrir að fimm úrvalsleikarar fara með aðalhlutverkin: John Gielgud, Googie Withers, Helen Cherry, Ursula Howells og Brenda Bruce, allt þekktir leikarar þegar ég ólst upp en löngu látin núna, gott sýnishorn af þeim miklu hæfileikum sem streymdu úr ensku leikhúsi aldarinnar sem leið.

Previous
Previous

Hrottameiðirinn

Next
Next

Frænkur, flagarar, daðurdrósir og eltihrellar