Frænkur, flagarar, daðurdrósir og eltihrellar

Nýlega skemmti ég mér við að lesa gagnrýni um söngleikinn Oklahoma eftir þá Rodgers og Hammerstein og kvikmyndina sem ég sá í sjónvarpinu 12 ára og fannst frekar kjánalegt og froðukennt miðvestursblæti. Gagnrýnin sem ég las einkennist hins vegar að því að gagnrýnendur eru ekki sammála um neitt sem bendir til að Oklahoma sé í raun texti fullur af undirtextum sem alls ekki er einfalt að greina. Kannski er skýringin sú að upphaflegi leikritshöfundurinn Lynn Riggs (1899-1954) var bæði af Cherokee-ættbálkinum og upp á karlhöndina sem varla var alltaf auðvelt í Oklahoma. Í textanum er fjallað um samskipti kynjanna, stéttaátök og stöðu útlendingsins í menningunni og hægt virðist að túlka söngleikinn bæði sem femínískan og andfemínískan sem er kannski ekki óvænt í ljósi þess að meðal persónanna eru „glyðra“ og „eltihrellir“ sem eru kannski hvorugt öll þar sem þau eru séð.

Þannig er auðvelt að afgreiða Ado Annie (leikin af Gloriu Grahame í myndinni) sem glyðru og sumir gagnrýnendur kvarta yfir drusluniðurlægingu (eða „slutshaming“) hennar en hún fær samt orðið tvisvar í söng og skýrir bæði eigin málstað og bendir kærastanum á að hann sé sekur um tvöfalt siðgæði. Í raun virðist fremur blendið hvort textinn fordæmi hana eða ekki (þó að einstakar raddir geri það vitanlega) og eins er með farandsalann Ali Hakim sem er greinilega jaðarmaður í samfélaginu og þar að auki flagari en samt ólíkt snjallari en aðrar persónur leiksins og fer létt með að leika á þær.

Oklahoma virðist þar að auki lýsa eins konar mæðraveldi þar sem hin reynda og roskna Eller frænka (sem á samt til að reyna við ungu mennina meðan hún strokkar smjör) fer sínu fram eins og Njáll á Bergþórshvoli forðum og kemur unga fólkinu í hjónaband milli þess sem hún skikkar samfélagið allt til. Eins og Njáll er Eller frænka ekki hrædd við neitt og stöðu hennar aldrei ógnað og hún er áberandi sterkasta persóna verksins sem ekki er á giftingaraldri þó að hún fái sitt fram með kænsku fremur en skipunum, ekki ósvipað íslenska lagaspekingnum.

Margir gagnrýnendur hafa bent á að sakleysisleg ímynd söngleiksins sé í raun aðeins yfirborð og í raun sé hann „kynósa“ eins og Sveinn Skorri kennari minn kallaði það forðum. Feminiskir gagnrýnendur sjá reðurtákn út um allt en miðað við ósætti þeirra virðast þau vísa hingað og þangað. Mest er þó deilt um persónuna Jud Fry sem Rod Steiger lék í myndinni frá 1955. Hann er eins konar eltihrellir (og var mjög myrk persóna í upphaflegu leikriti Riggs) en sumir gagnrýnendur standa samt með honum vegna bágrar samfélagsstöðu hans og fyrirlitningar annarra persóna á honum. Undanfarið hefur hann verið leikinn af leikurum af afrísku ætterni til að leggja áherslu á útlagastöðu hans og eykst samúð með honum (sem ég túlkaði sem sjálfsvorkunn á sínum tíma) talsvert. Aðrar uppfærslur túlka hann sem tæran eltihrelli og mér finnst það í sjálfu sér nógu frumlegt á sínum tíma þegar lítið var rætt um slíkt áreiti.

Previous
Previous

Fallandi gengi

Next
Next

Forngermanskir forverar