Forngermanskir forverar

Meðal allra fornustu eddukvæða er Völundarkviða; þó er hún ekki endilega erfiðust í þýðingu og alls ekki torskildust eddukvæða en skyldleiki hennar við germönsk kvæði tekur af öllu tvímæli um að hún muni ættuð úr fornu kvæði sem var þá væntanlega ort áður en tungurnar klofnuðu í vestur- og norðurgermönsk mál. Sú gerð sem við eigum getur þó varla verið eldri en frá 9. öld vegna stóra brottfalls (synkópu) en í kviðunni eru sjaldgæf orð sem eiga sér svo skýrar hliðstæðar í vesturgermönskum málum að varla getur verið um annað en beinan skyldleika að ræða, einkum í ljósi þess að sama efni er miðlað. Einnig eru til myndir sem virðast sýna fléttu Völundarkviðu en öfugt við orðin eru myndirnar of margræðar til að þær einar dugi sem rök fyrir háum aldri.

Í erindi 27 í Völundarkviðu kemur fyrir svo hversdagslegt orðalag sem „bar hann hana bjóri“ en þar er karlmaður að halda áfengi að konu til að geta komið fram vilja sínum í kjölfarið. Þetta gæti 21. aldar Íslendingur líka sagt án þess að þykja neitt tiltakanlega fornyrtur (og því miður er stundum ástæða til). En í sömu vísu kemur einnig fyrir orðið „íviðgjarna“ (sem raunar er leiðrétt í handritinu) og virðist skylt fornenska og fornsaxenska orðinu „inwid“ sem er fjandskapur eða illúð. Hugsanlega er orðið „íviðja“ (sem e.t.v stendur í Völuspá) dregið af þessu og eru þá íviðjurnar níu heiftúðúgar verur. Á fornsaxnesku er Júdas sagður „inwideas gern“ sem væri þá „íviðgjarn“ á íslensku og er þar komið orðið úr 27. vísu Völundarkviðu. Erfitt er að fá málfræðilega reglu í vísuna en merkingin virðist vera sú að Völundur sé fullur illgirni eins og Júdas og lái honum hver sem vill miðað við framkomu konungsfjölskyldu Njáranna við hann.

En þetta er ekki eina dæmið um orðalag í Völundarkviðu sem á skýrar hliðstæður í vesturgermönskum textum og hinar eru enn áhugaverðari. Í erindi 35 er sagt að Böðvildur konungsdóttir sé „barni aukin“ eftir að Völundur hefur legið hjá henni (heldur fallegra orðalag en „ófrísk“ eða „ólétt“) og þetta sjaldgæfa orðalag kemur einnig fyrir í fornenska kvæðinu Deor (ýmist kallað Angurljóð Deors eða Tregróf Dýra) sem finna má í Exeterbókinni fornu. Tvö erindi þess ágæta enska tregrófs fjalla einmitt um Völund, Níðuð og Böðvildi og þar er sú síðasttalda sögð vera „eacen“ sem er svo líkt orðalaginu í 35. vísu hinnar norrænu kviðu að um textavensl hlýtur að vera að ræða og báðar kviður að eiga sér forngermanskan forvera, hvernig sem hann hefur nú hljómað en þar hefur forveri orðsins „aukin“ verið.

Þessi og fleiri dæmi benda til þess að líka hafi verið til enskar og þýskar Völundarkviður enda kemur Völundur líka við sögu Þiðreks af Bern á miðöldum. Hann er sem sagt samgermönsk menningarhetja (til viðbótar við skyldleikann við hinn gríska Daidalos sem smíðaði einmitt völundarhúsið) og hið íslenska eddukvæði er því hluti af risavaxinni samgermanskri hefð sem jafnvel á sér enn eldri rætur. Ekki veit ég hvort okkur þýðendum Völundarkviðu tekst að láta þetta endurspeglast í enskri þýðingu okkar sem nú er unnið að en sannarlega er það áskorun að vera með norrænan texta eldri en Íslandsbyggð í höndunum.

Previous
Previous

Frænkur, flagarar, daðurdrósir og eltihrellar

Next
Next

Fornleifar og funi