Fornleifar og funi

Ég hef átt ævisögu breska rithöfundarins Angus Wilson (1913–1991) eftir Margaret Drabble lengi og dró hana út úr bókaskápnum heima nýlega, ákvað í kjölfarið að horfa á sjónvarpsþáttargerðina f Anglo-Saxon Attitudes á Youtube en það er eina skáldsagan eftir Wilson sem ég á og keypti í Danmörku á sínum tíma en hafði áður séð þættina í sjónvarpinu fyrir löngu. Sagan fjallar um fræðilegar niðurstöður fengnar með svikum sem er óneitanlega áhugavert viðfangsefni fyrir fræðimenn eins og mig, í þessu tilviki í fornleifum en sagan um Piltdownmanninn sem Charles Dawson „fann“ árið 1912 (sama ár og svikin í sögunni gerast) mun hafa verið innblástur Wilsons sem vann sjálfur hjá The British Museum áður en hann gerðist atvinnurithöfundur. Í bókinni fléttar hann fornleifauppgröft og svik saman við ástalíf gallaðra einstaklinga og lætur fornleifasvikin varpa ljósi á svik í persónulegum samskiptum. Löngu eftir að ég sá þáttinn fyrst vekur það athygli að sjá Kate Winslet kornunga ásamt tvíburanum Nicholas Haley (ég birti mynd af honum af öðru tilefni í gær) og í þættinum birtist líka Daniel Craig á unga aldri, löngu áður en hann varð frægur sem James Bond.

Að einhverju leyti minnir sagan mig á Urðarkött eftir sjálfan mig þar sem svik í einkamálum og stofnanamenning háskólamanna eru einnig leidd saman án þess að ég væri síhugsandi um Wilson á þeim tíma. Angus Wilson langaði til að fjalla um bæði samfélögin sem hann lifði og hrærðist í hversdagslega, fræðimanna- og safnvarðasamfélagið annars vegar en hins vegar samfélags ólöglegs kynlífs sem hann sjálfur lifði og hrærðist í og í því síðarnefnda voru allar stéttir og samfélagshópar í sérkennilegu félagi sem oft gott einkennst af svikum og baknagi en af öðru tagi en hjá vísindamönnum. Annað sem vekur sérstakan áhuga í þættinum er staða hinnar dönsku eiginkonu aðalpersónunnar sem hann giftist út úr vandræðum. Sú er hræðilega og yfirgengilega jákvæð og barnsleg (leikin mjög eftirminnilega í þáttunum af hinni stórvöxnu Elizabeth Spriggs) og ætlar að sigra hið kuldalega og bælda samfélag með væmni og rómantík að vopni. Það gengur misvel hjá henni og sérstaklega illa þegar hún tekur að sér hinn írska Larry Rourke (leikinn af syni skáldsins Brendan Behan sem drakk sig í hel) án þess að átta sig á að hann er vandræðagripur sem stelur öllu steini léttara og misnotar alla sem hann kynnist. Í sögunni eru ótal slíkir vandræðagripir og misnotarar en líka hræsnarar og farísear og Wilson leyfir okkur að meta hvorir séu verri.

Aðalpersónan Gerald Middleton er dæmigerður bældur enskur efri millistéttarmaður sem notar orð eins og „bounder“ og þar að auki hefur háskólapróf sem rammgerða brynju til að verjast áreiti umheimsins. Á efri árum ákveður hann að takast á við svindl í fornleifaheiminum sem honum var trúað fyrir á yngri árum af vini sínum (sem setti styttu af heiðnum frjósemisguði í gröf kristins biskups) en hefur þagað um það alla tíð síðan, m.a. vegna meðvirkni og vondrar samvisku þar sem hann hafði sofið hjá eiginkonu vinarins óheiðarlega. Öll hans ævi síðan hefur einkennst af hálfvelgju og svikum en núna loksins ætlar Middleton að taka afstöðu þó að það kosti hann og aðra sitt. Slík sannleiksleit er ekki óalgengt þema í skáldsögum frá fyrri hluta 20. aldar en Wilson þótti takast vel upp að lýsa heimi enskra fræðimanna og þessi skáldsaga hefur haldið nafni hans á lofti síðan, umfram seinni skáldsögur hans sem voru þó samdar af engu minni metnaði en fengu minni náð fyrir augum gagnrýnenda og almennings.

Söguhetjan Gerald Middleton er góð lýsing á hinum stikkfría karlmanni af betri stigum sem öllum fellur við og enginn ónáðar og sagan fjallar eiginlega um þörf hans á gamals aldri fyrir að vera einu sinni ekki stikkfrí. Þetta finnst mér áhugavert efni því að ég hef kynnst ýmsum stikkfrí efri millistéttar karlmönnum um ævina og skil vel löngun þeirra heppnu til að vera áfram stikkfrí. Flestar aðrar persónur sögunnar (og þáttanna) eru á hinn bóginn afar breyskar og brothættar, hvergi nærri jafn virðulegar eða óaðfinnanlegar eða stikkfrí. Líf þeirra allra einkennist af óreiðu og rugli sem hinn stikkfríi karlmaður kemst upp með að forðast og það er sú deigla sem gerir verk Angus Wilson áhugaverð. Í heimi sem er fullur af prófessorum og glæponum er stundum óljóst hvorir eru ósiðlegri.

Previous
Previous

Forngermanskir forverar

Next
Next

Floridaferðir tvíbura