Floridaferðir tvíbura

Sumrin eru tiltektartíminn og stundum les ég þá bækurnar sem ég hef áður lesið með það fyrir augum að gefa þær síðan og fá þannig pláss fyrir 50-100 nýju bækur ársins sem mér hefur mistekist að koma fyrir. Það er nauðsynlegt að grípa í gömlu bækurnar, hvers vegna annars að eiga þær? Fyrir utan getur maður hætt að lesa þær í miðju kafi ábyrgðarlaus af því að maður er búinn að lesa þær áður. Nokkrar hef ég losað mig við í ár eftir að hafa fundið að ég myndi líklega ekki sækja þær í hillur aftur. Þar sem ég er krabbi (trúi ekki á stjörnumerki en stundum eiga þau óhugnanlega vel við) finnst mér erfiðast að gefa eitthvað af æskuheimilinu en bækur sem ég eignaðist nýlega eru léttari. Um daginn voru það bækur Jan Terlouw (sjá nýlega grein um hann) og síðan dró ég úr hillum bækur um bandarísk stjórnmál sem ég sé þó ekki ástæðu til að skrifa um en að lokum aðra af tveimur tvíburabókum sem mamma átti og taldi marktækar. Ég man eftir annarri úr hillunum heima sem barn, öfugt við mömmu hafði ég ekki akademískan áhuga á fyrirbærinu enda þekkti ég ekki annað en að vera tvíburi. Mamma var hins vegar ekki undirbúin en þegar hún eignaðist óvænt tvíbura um þrítugt fékk hún áhuga á fyrirbærinu en flestar bækur um þá taldi hún gagnslitlar. Önnur var eftir Scheinfeld en hin Nancy Segal sem ég greip einmitt úr hillunni um daginn.

Mamma var með meistarapróf í sálfræði og þó að hún hætti öllu vísindastarfi um þrítugt og hætti að vinna við fagið um fertugt var hún samt mjög meðvituð um vísindi og gaf lítið fyrir sjálfshjálparbækur. Eitt sinn var henni gefin ein slík (látum hana ónefnda) og þegar ég kem heim lyfti hún þeirri bók og bók sem ég átti þátt í og hafði gefið henni og sagði: „Önnur er vísindi en hin er ekki vísindi“ (mamma talaði stundum næstum í ljóðum eins og Óðinn) og þótti mér það mikið lof um mína bók. Hún keypti líka bókina eftir Segal sem ég erfði síðan og fannst ágæt. Segal hefur talað við marga tvíbura um æsku þeirra og líkindi (og þeir eru alls ekki alltaf sammála um hvernig bernskan hafi verið og kemur það mér ekki á óvart). Bókin er mjög vísindaleg en þegar ég las hana núna finnst mér Segal full trúuð á erfðir. Ekki bókstafstrúuð en hún vill gjarnan sjá það sérstaka við tvíbura enda er hún sjálf tvíburi og með tvíburafræðasetur. Ég er alls ekkert ósammála í stórum dráttum en hefði stundum þegið aðeins meiri heimildarýni. Eitt af því sem hún ræðir lauslega eru hinir svokölluðu „Jim-tvíburar“ sem ólust upp hvor í sínu lagi og hún rekur hér að neðan.

Segal hengir ekki sinn fræðilega hatt á þessa tvíbura eða þessi „compelling” líkindi en ég hefði þegið meiri umræðu um hvað eru rök í málinu. Tökum t.d. fyrstu þrjú atriðin, að þeir giftust konum með sama nafni, áttu son með sama nafni og um tíma hund með sama nafni. Í ljósi þess að þeir eru ekki aldir upp saman er þetta sérkennileg tilviljun og ekkert annað. Hvorki Segal né nokkur annar sem hefur minnsta áhuga á erfðum getur trúað því að það sé í genum fólks hvaða nafni makinn heitir. Nöfn eru tungumál en ekki líffræði og atriði 1-3 geta aldrei verið nema fáránlegar tilviljanir. Kannski bjuggu þeir báðir á svæðum þar sem Linda og Betty eru algeng nöfn? Atriði 4-8 gætu hins vegar tengst skapgerð þeirra eða þáttum sem ráðast af erfðum, ekki að þeir hafi laðast að sömu strönd í Florida en hugsanlega að þeim hafi liðið vel á sjávarströndum. Hugsanlega gætu erfðir líka skýrt áhuga þeirra á löggæslu og þá staðreynd að þeir reyktu á tímabili og drukku bjór þó að tegundavalið sé ómerkilegt sönnunargagn (þessi kynslóð reykti slatta og drakk og í ljósi þess að jafnvel ég þekki Salem og Miller Lite sem hef aðeins komið fjórum sinnum til Bandaríkjanna þá eru þetta væntanlega algengar tegundir og eins bláar Chevrolet-bifreiðar). Eins gæti það tengst genum að þeir nöguðu neglurnar en eina atriðið af þessum átta sem mér finnst fremur líklegt að geri það eru höfuðverkirnir. Hér hefði Segal að ósekju mátt leiðbeina lesendum aðeins betur um fúafen rökfræðinnar.

Segal minnist líka á Harold og Bernard Shapiro í bókinni en þeir voru báðir háskólarektorar á sama tíma (í Princeton og McGill) og hún getur þess að þeir hafi líka verið deildarforsetar nákvæmlega sömu ár (sem er önnur tilviljun, ekki að frami þeirra hafi verið á svipuðum brautum en nákvæmu ártölin hafa augljóslega ekkert með genin að gera). Segal telur greind tvíbura fylgjast að (engin mótmæli við því á þessum bæ) og að greind hafi sennilega meiri áhrif á líf fólks en persónuleikinn (kann líka að vera rétt). Þess vegna sé engin tilviljun að þessir ágætu Shapiro-bræður hafi báðir náð langt í háskólaheiminum. Um þetta getum við verið sammála. Ólíkt Jim-tvibbunum giftust þeir konum með ólík nöfn (!) en hvorugur þeirra skildi (kann að tengjast erfðum en örugglega uppeldi) og þeir eru báðir enn á lífi að nálgast nírætt (sem er sennilega tengt erfðum). Segal rekur líka ólíkindi þeirra og bendir á að hugsanlega hafi nærsamfélagið ýkt áhugaleysi Bernards á íþróttum vegna þess hve mikinn áhuga Harold hafði áhuga á þeim og eins var meira gert úr hæð Harolds en ella vegna þess að hann var aðeins hærri en Bernard. Það er einmitt þegar Segal fjallar um umhverfisþættina sem bókin verður áhugaverðust enda mismunur í eðli sínu áhugaverðari en líkindi, eins og Tolstoj vissi.

Previous
Previous

Fornleifar og funi

Next
Next

Köttur og mús, en hver er kötturinn?