Köttur og mús, en hver er kötturinn?

Um daginn sagði 12 ára strákur mér að Rope væri eftirlætismyndin hans og ég varð glaður fyrir margra hluta sakir, m.a. að heyra að börn horfi enn á myndir Alfreðs Hitchcock en þar að auki hef ég alltaf talið Rope vanmetna og hana eiga heima á sama stalli og snilldarverkin Rear Window, Vertigo, Psycho og The Birds. Hún gekk hins vegar ekki vel í bíóhúsum á sínum tíma (1948) og í kjölfarið gerði Hitchcock sjálfur lítið úr henni en aldrei skal taka mark á orðum viðkvæmra listamanna um eigin flopp. Áratugum saman var myndin nánast ósýnileg en þegar hún komst aftur í sýningu eimdi eftir af umræðu um að hún væri „gölluð“ en ég tel að það sé af sömu völdum og hún upphaflega féll í grýttan jarðveg, gildismat í kvikmyndaheiminum er mjög karlkyns og mjög heteró. Eðlilega er Vertigo (1958) sem fjallar um þráhyggjukennda ást á konu hátt skrifuð hjá körlunum sem skrifa kvikmyndarýnina. Nokkur seinustu ár hef ég hins vegar rekist á kvikmyndaumfjöllun þar sem Rope er metin eins og ég mun gera hér, er ekki fyrstur með fréttirnar en þó einn af þeim fyrstu, sýnist mér.

Það fer vitaskuld ekki framhjá neinum að Rope var tilraunakennd mynd, fyrsta mynd Hitchcocks í Technicolor og tekin í tíu 4-10 mínútna skotum, klipping næstum óþörf. Eins er sviðið afmarkað eins og í sumum öðrum myndum Hitchcocks, aðeins ein íbúð með New York í glugganum og sú takmörkun hefur vakið aðdáun margra. Undanfarið hafa gagnrýnendur bent á lýsingu og tónlistarnotkun sem ég mun líka drepa á. Á hinn bóginn hefur sjálft umfjöllunarefnið þótt ómerkilegt og jafnvel ég sjálfur hef stundum hallast að því að James Stewart spilli myndinni þó að ég hafi skipt um skoðun á því. Hvað varðar efnið er þetta algeng gagnrýni á verk Hitchcocks og hefur líka verið sett fram um Psycho sem þó sló rækilega í gegn.

Ég hreinlega blæs á slíka gagnrýni. Báðar myndirnar fjalla um kynusla og pervertisma af einhverju tagi en það er ekkert ómerkilegt umfjöllunarefni. Eins samþykki ég ekki að tæknileg fágun Hitchcocks sé á kostnað innihaldsins. Þvert á móti dregur formræn snilld hans inntakið fram og það er ekkert hægt að meta listaverk eftir öðru en formrænni snilld þess þó að inntakið sé auðvitað mikilvægt. Það sótti Hitchcock jafnan annað. Eins og nær allar kvikmyndir meistarans er Rope aðlögun á eldra verki, í þessu tilviki allgömlu leikriti eftir Patrick Hamilton (1904–1962) sem líka kom orðinu „gaslýsing“ inn í heimsmenninguna (sem ég vonast til að verði bráðum Skollaleikur á íslensku eftir að ég skrifaði bók um svipað þema með því nafni) og var innblásið af tilefnislausu morði ríku bandarísku táninganna Leopold og Loeb sem var lengi alræmt, um leið og Nietzscheisiminn og aðallega ofurmenni heimspekingsins eru til umræðu en eðlilega var sú hugmynd óvinsæl rétt eftir síðari heimstyrjöldina. Það verður þó aldrei nema annar textinn og sá sem nær ekki langt undir yfirborðið. Hinn er hið „ónáttúrulega“ samband ungu mannanna, bæði fyrirmyndanna og parsins Brandon og Philip sem morðið virðist einhvern veginn spretta af (eða vera tákn fyrir), á sínum tíma lögbrot líkt og manndráp. Þeir væru útlagar án þess að hafa myrt neinn.

Myndin hefst á rólegri götusenu sem lýkur á öskri og skipt er inn í íbúðina þar sem sambýlismennirnir Brandon Shaw og Philip Morgan eru í óða önn að kyrkja skólafélaga sinn David sem þeim finnst ómerkilegri en þeir. Síðan fela þeir lík hans í kistu og halda boð fyrir ýmsa aðstandendur Davids og kennara sinn Rupert Cadell. Kistan er ekki ómerkilegasta persónan í myndinni og er gott dæmi um snilld Alfreðs. Hann hafði einstakt auga fyrir hlutum sem hann lætur myndavélina og þar með áhorfendur verða starsýnt á og þessir hlutir verða allir að risavöxnum en stundum óræðum táknum. Í þessu tilviki er kistan tákn Davids sem er beinlínis í henni en líka þess sem aldrei er minnst á sem er það að Brandon og Philip búa saman sem par á einkennilega sjálfsagðan hátt sem ekki er rætt. Bæling bandarísks kvikmyndaheims árið 1948 var vitaskuld slík að aldrei mátti nefna hvert sé eðli sambands Brandon og Philip en einmitt þess vegna eru síðbúin áhrif þagnarinnar þau að sambandið sé sjálfsagt og krefjist ekki umræðu. Eðli óræðs sambands Philips og Brandons er þó kannski sá „glæpur“ ársins 1948 sem myndin fjallar táknrænt um og kistan verður um leið tákn um — og líka reipið sem Philip er æstur að fela en Brandon vill flagga, en kannski er reipið líka í augum Philips áminning um dauðann sem bíður morðingja — og glæpurinn sem er ekki lengur glæpur og hefði aldrei átt að vera reynist mun áhugaverðari saga en morð undir áhrifum ofurmennishugmynda heimspekikennarans.

Þetta vissi Hitchcock auðvitað þótt hann talaði svo lítið um það að sumir túlkendur hafa talið hann áhugalausan um þessa aukamerkingu myndarinnar. En vísbendingar eru svo margar í myndinni að fullorðnir nútímaáhorfendur geta varla misst af þeim, allt frá því að Brandon og Philip kasta mæðinni eftir morðið og ræða það síðan eins og elskendur skrafa um nýliðna kynlífsathöfn. Auk heldur valdi Hitchcock ekki aðeins handritshöfund (Arthur Laurents) sem var „hinumegin“ heldur líka tvo aðalleikara, Farley Granger (sem þá var í sambandi við Laurents) og John Dall. Hann reyndi að fá Cary Grant til að leika kennarann og hefði hlutverkið fallið vel að vafasömu orðspori hans (Grant bjó árum saman með hasarleikaranum Randolph Scott milli hjónabanda sinna) og James Mason (sem er nefndur í myndinni) hefði líka gert því góð skil en hann endaði með ofurstreitaranum James Stewart sem virðist líða fremur óþægilega í hlutverkinu. Eftir nokkur áhorf er mér farið að falla þau óþægindi og finnst þau styrkja myndina. Eins er tónlistin sem Philip leikur í myndinni æskuverk Poulenc og það er engin tilviljun heldur því að einnig franska tónskáldið var upp á karlhöndina. Hitchcock sjálfur var á hinn bóginn í einu farsælasta hjónabandi Hollywood með Ölmu sinni en lét eitt sinn svo um mælt að Alma hafi bjargað honum frá því að gerast „a poof”, eins og hann orðaði það. Nútímaskilningurinn væri kannski sá að hann fann konu til að elska en hafði samt persónulegan skilning á umfjöllunarefni bíómyndar sinnar, hugsanlega bæði beint og óbeint. Hitchock hafði oft á orði að hann væri ljótur og utangarðs og hann sagðist hafa gaman af að pynta áhorfendur (en þrátt fyrir sögur um annað fannst flestum hans þægilegur í viðkynningu) og hið ónefnda í kistunni gæti þess vegna verið utangarðsstaða hans sjálfs og áhugi á myrkviðum sálarinnar.

Eitt af því sem heillar við Rope er hvernig Hithcock tekst þrátt fyrir þann mikla aga sem felst í tökunum löngu (sem eru ein skýring á að myndin er aðeins 80 mínútur) að draga fram alls konar smáatriði eins og honum er lagið. Sviðsmyndin er þannig séð hversdagsleg og það er hið notalega og vinalega umhverfi íbúðarinnar sem gerir myndina „unheimlich“ í freudískum skilningi (Freud er beinlínis nefndur í myndinni), þessi vettvangur morðs er eins sakleysislegur og hugsast getur. Vinaleg birtan í myndinni (fram að sögulokum) er líka sérkennilega á skjön við myrkraverkið sem er geymt í kistunni. Alfreð hrellir okkur síðan stöðugt með að leyndarmálakistan verði opnuð og Brandon segir endalausa tvíræða brandara sem vísa til dauða Davids, hið sama gera gestirnir stundum óvart, Brandon til yndis. Sem frægt er orðið bönnuðu bandarískir framleiðendur Hitchcock að „skemma“ myndir sínar með gálgahúmor þegar hann kom vestur 1939 en hér halda honum (og Laurents) engin bönd, eins og fram kemur í skrítlunni um brúðina sem ætlaði að stríða manni sínum með því að loka sig inn í kistli en fannst þar beinagrind 50 árum síðar.

Annað endurtekið umfjöllunarefni eru hendur hins listræna Philips sem Farley Granger leikur (ég skrifaði aðra grein um þann ágæta leikara í vor). Öfugt við Brandon virðist Philip ekki skemmta sér í boðinu og slakar aðeins á við píanóið, grínast ekki með morðið, virðist iðulega á barmi örvæntingar og sýnir hugsanlega iðrun (þó að það sé túlkunaratriði því að hann virðist aðallega hafa áhyggjur af því að nást). Sumum finnast hinar mörgu næstumjátningar Philips pirrandi (þær eru beint upp úr Glæp og refsingu sem pirraði mig þegar ég las þá bók tvítugur). En skelfing Philips er ekki galli á myndinni heldur kannski einmitt aðalatriðið. Hræðsla hans skapar empatíu áhorfenda og dregur fram að myndin fjallar um ungan mann sem er hræddur við að vera afhjúpaður (sem er hálfu sterkari saga ef við höfum undirtextann alltaf í huga). Samt er það hann sem beinlínis fremur morðið eins og sést í upphafi og hann leikur líka á píanó með sömu höndum og að sögn mun hann forðum hafa kyrkt kjúklinga með þeim líka. Í myndinni spáir hin aldraða frú Atwater fyrir Philip (sem er í krabbamerkinu eins og ég og undir áhrifum tunglsins) að hendur hans muni gera hann frægan en áhorfendur vita eins og hann sjálfur að það þarf ekki endilega að vera fyrir píanóleik.

Í fyrstu er beinlínis gefið til kynna að Philip sé „sá veiki“ í sambandinu, hann segist beinlínis vera hræddur við Brandon eftir morðið og skrækir af ótta þegar hann sér kyrkingarsnúruna lafa út úr kistunni, Rupert velur að yfirheyra Philip fyrst en síðan er æ betur dregið fram að hendur hans séu morðingjahendurnar, Philip sýnir sífellt meiri árásargirni (með vaxandi áfengisdrykkju) og maður fer að velta fyrir sér að þrátt fyrir taugaveiklun hans og hið svala yfirborð Brandons sé Philip kannski hættulegri en Brandon sem er allur í teoríunni (kannski aðeins skrefi nær verknaðinum en Rupert) og guggnar hratt þegar hann er gripinn með vopn. Sannarlega er Philip sá eini sem beinlínis ógnar öðrum og Hitchcock var reyndar alls ekki hættur að kanna þessa hlið á Farley Granger (sem er einn þeirra leikara sem talar um meistarann sem sérstakt ljúfmenni) því að síðar gerði hann með honum myndina Strangers on a Train sem er líka full af hómóerótískum undirtónum en kannski voru þeir nógu miklir undirtónar til að hún félli í kramið árið 1951 en fékk ekki sömu meðferð og Rope.

Eftir leik kattarins að músinni (en hvor er músin? eins og Philip kallar upp í taugaveiklun sinni) kemur afhjúpunin. Mörgum hefur í tímans rás þótt veikasti hlekkur myndarinnar fordæmingin á ofurmennishugtakinu og heimspekingurinn og misheppnaði uppalandinn Rupert sem hefur brugðist skyldum sínum með því að koma vafasömum hugmyndum inn í koll Brandons (undirtextinn kannski sá að hann hafi sofið a.m.k. hjá Brandon en kannski þeim báðum). Í lokin afneitar hann öllum þessum hugmyndum sem alvörulausri hugarleikfimi, hálfpartinn hafnar rökvísi sinni og heimspeki og afhjúpar drengina sem leyfðu sér að fremja morð (og búa saman sem par) eftir að hafa sagt þeim berum orðum að þeirra bíði aftaka. Síðan skýtur hann út um gluggann með byssu Brandons sem þeir hafa tekist á um og lögreglan er greinilega á leiðinni (og þar með fangelsun, réttarhöld, dómur og aftaka ungu mannanna) en lokasenan er samt einkennilega friðsæl og þar með ekki síður „unheimlich“. Neonskiltin fyrir utan blikka og breyta stöðugt litunum í íbúðinni, Rupert fær sér sæti, Brandon hellir drykk í glasið sitt og Philip sest og fer aftur að leika Poulenc ofurlágt undir sírenuvæli laganna. Fyrir utan Psycho felur sennilega enginn endir hjá Alfreð í sér minni hugarlétti fyrir áhorfendur.

Previous
Previous

Floridaferðir tvíbura

Next
Next

Taktu kökurnar með