Taktu kökurnar með

Guðfaðirinn birtist á Netflix og togaði í mig í byrjun júní. Það er talsvert verkefni að horfa á þessar myndir og ég hef stundum látið þær framhjá mér fara þegar þær birtast á evrópsku stöðvunum sem ég hef aðgang að en núna var ég tilbúinn og sá fyrri tvær myndirnar tvö kvöld í röð en þá þriðju hef ég séð tiltölulega nýlega þannig að hún er mér í fersku minni. Þó að Guðfaðirinn sé vel upp byggð saga eru það fyrst og fremst senurnar sem eru eftirminnilegar, t.d. langa upphafið í brúðkaupi dóttur Vitos Corleone þegar „þegnar hans“ streyma til foringjans til að lýsa yfir hollustu sinni og biðja hann um ýmsa greiða. Corleone heldur svo yfir þeim ræður þannig að við fáum góða innsýn í gildi hans og siðferði. Svona veislusenur nýttust natúralistum 19. aldar vel sem samfélagsspegill, ég þykist muna eftir einu boði í Nönu eftir Zola sem teygðist yfir marga kafla. Um leið er öll Corleonefjölskyldan sýnd í upphafi sögu, þar á meðal sonurinn Michael sem er utangarðs og er ætlað líf utan glæpa. Myndin fjallar svo öll um hvernig hann dregst smám saman inn í glæpina, m.a. vegna þess að hann er klár og leiðtogaefni sem aðrir synir guðföðurins eru ekki. Hitt eftirminnilegasta atriðið í myndinni (ja, að hestinum slepptum) er þegar hann fremur sitt fyrsta morð og þarf að leita að byssunni á salerninu. Eftir það verður ekki aftur snúið.

Mig minnir að ég hafi haft mikla samúð með Fredo þegar ég sá myndirnar fyrst en núna er hún eiginlega öll gufuð upp og ég stend með Michael. Kannski hef ég fengið meiri innsýn í einmana tilveru leiðtogans. Eftirminnilegasta atriðið í Guðföðurnum 2 — sem er annars mun losaralegri og óeftirminnilegri en fyrri myndin þó að núna hafi ég þó náð betra sambandi við hana en áður (fortíðasenurnar eru mjög góðar sem slíkar en trufla nútímasöguna sem maður á í nógu miklum vandræðum með að komast inn í) — er einmitt þegar Michael áttar sig á lygum Fredos og skilur hvernig í öllu liggur. Áður hefur verið löng sena á Kúbu sem er það sem stendur helst eftir hjá mér núna úr þessari kvikmynd, það gerspillta samfélag sem Battista réð yfir og mafíósarnir vilja taka þátt í áður en þeirri tilteknu illu veislu lauk.

Eftirleikurinn er vitaskuld ekki jafn góður og hinar myndirnar tvær en sú mynd eldist þó ágætlega og leikur Sofiu Coppola skemmir ekki jafn mikið fyrir og manni fannst um 1990. Aftur á móti er áberandi hvernig myndirnar endurtaka hver aðra, t.d. klippimynda-atriðið í öllum myndunum þegar Michael gengur frá öllum andstæðingum sínum í einu lagi og kannski ívið frumlegra í fyrstu myndinni en í þriðja sinn. Meðal andstæðinganna er eftirminnilegastur gamla brýnið Eli Wallach í hlutverki Don Altobello. Eli Wallach var frábær leikari sem hafði fyrir sið að vera alltaf aðeins á skjön við hina augljósu leið að hlutverkinu (t.d. í Hetjunum sjö). Öll sterkustu atriðin í myndaflokknum lúta að refsingu svikara, t.d. það sem ég vísa til í titlinum þegar byssan er skilin eftir hjá svikaranum dauðum en kökurnar teknar með.

Vinur minn sem ég ræddi myndirnar við um daginn hefur líka lesið skáldsögu Puzos sem var upphafið að öllu saman en ég hef að þessu sinni ekki lesið bókina og raunar aðeins eina bók eftir Mario Puzo sem 100 ára Íslendingur gaf mér árið 2009 og hafði þýtt sjálfur. Fannst Puzo kunna vel til verka en man lítið eftir bókinni sem hét Omerta og er á svipuðum slóðum og fyrri mafíósabækur Puzos. Hann skrifaði líka bækur um annað en mafíuna og líklega væri áhugaverðara að lesa þær.

Previous
Previous

Köttur og mús, en hver er kötturinn?

Next
Next

Hanna og María