Hanna og María

Ein bók sem ég hef verið að endurlesa í sumar eru bréfaskipti Hönnu Arendt og Mary McCarthy sem voru vinkonur áratugum saman, báðar frægir rithöfundar og sendu raunar frá sér sín frægustu verk árið 1963. Í báðum tilvikum var þetta samt ekki gósenár fyrir þær því að viðtökurnar voru leiðinlegar og heimskulegar í báðum tilvikum, karlhöfundum þótti The Group leiðinleg kerlingabók (það hugtak var einmitt kynnt til sögu á Íslandi um sömu mundir) og Arendt var sem kunnugt er áreitt af samtökum gyðingu fyrir hluti sem hún hafði alls ekki sagt í bókinni Eichmann in Jerusalem. Þegar ég les þetta velti ég iðulega fyrir mér þeim kvölum að verða svo frægur að „virkir í athugasemdum“ kannist við mann — eins og aðrir skólamenn þakka ég daglega fyrir áhugaleysi fjölmiðla og fésbókar á menntum og vísindum.

Ég reyndi eitt sinn að gefa vinkonu minni þessa bréfabók enda þóttist ég vita að hún hefði smekk fyrir henni. Hún hafði það raunar en tók þessu samt sem láni og skilaði bókinni. Ég reikna því ekki með að ég reyni að gefa hana aftur (nema einhver sem þetta les sé þeim mun spenntari) þó að ég sé kominn á seinni helming ævinnar og þurfi að hugsa fyrir öllum þessum bókum sem enginn mun hafa sérstakar taugar til þegar ég dey. Ég öfunda Arendt og McCarthy af kærleikanum sem skín af bréfum þeirra, ég óttast að bréf mín til vina minna séu mun þurrari (þó varla verri en innkaupalistinn sem er eina varðveitta bréfið frá afa til ömmu). Svo verða auðvitað engin bréf til frá okkar kynslóð, jafnvel ekki þessi örfáu sem póstkerfi háskólans geymir núna. Það er víst best að horfast í augu við það strax að maður muni aldrei prenta þau öll út þó að ég geymi þau bestu samt af tómri þrjósku. Held ég að það sé menningarlegur skaði af því að gáfaðir höfundar eins og Arendt og McCarthy skrifist ekki lengur á? Já, tvímælalaust, þetta er eitt af því fjölmarga sem fær mann til að óttast að hrun siðmenningarinnar sé skammt undan.

Previous
Previous

Taktu kökurnar með

Next
Next

Konukjáninn