Konukjáninn

Nýlega rakst ég á smásögu írska rithöfundarins Williams Trevor (1928-2016) sem nefnist „Mrs Silly“. Ég þekkti nafn hans og vissi að hann þætti smásagnameistari en hafði þó aldrei beinlínis lesið neitt eftir hann. Smásagan er mögnuð, öll frá sjónarhorni drengs sem fer skyndilega að líta sína eigin móður með augum samfélagsins og síðan að skammast sín fyrir hana. Þetta er hræðilega erfið saga í lestri og smám saman rifjaðist upp að ég hefði áður séð mánudagsmynd í sjónvarpinu upp úr henni með Maggie Smith í aðalhlutverki. Það reyndist vera mánudaginn 21. maí 1984, ég 13 ára og á þeim aldri horfði ég bæði á barna- og fullorðinsefni í sjónvarpi. Ég man eftir mömmu við hlið mér að horfa á þessa mynd enda við móðir og sonur eins og í myndinni en ég man ekki hvað hún sagði eða hvað mér fannst nema mig minnti að mér hefði þótt myndin óþægileg. Ég gróf hana því upp á Youtube og horfði á hana aftur enda aðeins rúmlega 50 mínútur.

Ekki fannst mér myndin minna átakanleg en sagan. Þó að ekki sé unnt í leikinni mynd að láta sjónarhorn drengsins takmarka þekkingu hlýðenda sögunnar kemur það samt skýrt fram hjá hinum unga Adrian Ross Magenty (sem síðar lék Tibby í Hávarðsenda) og maður þjáist bæði með honum og mömmunni. Það sem kemur skýrt fram í myndinni (umfram söguna) er að mamman er í raun og sann kjánaleg. Hún er ekki rík eins og pabbinn og ekki svöl heldur, á það til að tala allt of mikið og um hluti sem öðrum þykja ómerkilegir. Eins á hún til að taka notaleg kurteisisyrði annarra bókstaflega og halda að þeim sé ekki sama um hana (svipuð flétta og í Ölkofraþætti). Þetta skil ég enn betur eftir margar ferðir til Bretlands og kynni af samræðulist þeirra sem getur reynst ókunnugum torveld inngöngu. Konukjáninn kann reglurnar ekki nógu vel og þó að syninum þyki mjög vænt um hann er alltaf hætta á ferðum að hún verði honum til skammar.

Jafnvel fullorðið fólk getur lent í því að skammast sín fyrir sína nánustu þó að það ætti að vera of þroskað til þess. Ekki er hægt að ætlast til sama þroska af óhörðnuðu barni eins og syninum, ekki síst þar sem hann er orðinn háður nýjum vinum sínum og gildismati þeirra sem er allt á einn veg: mamma hans er málglaður plebbi sem enginn frami er af. Pabbinn og stjúpan eru hins vegar fullkomlega gild í hvaða umhverfi sem er. Þau eru ekki sýnd sem vondar manneskjur en eiginlega gerir þetta málið bara verra. Þau njóta yfirburða sem þeim þykja sjálfsögð en vorkenna fyrri konunni fyrir að vera kjánaleg. Þau eru líka rík en kjánalega mamman þarf að gista á ódýru gistihúsi þegar hún fer að heimsækja soninn.

Við sjáum væntumþykju stráksins greinilega en umhverfið vinnur á henni og þegar mamman dettur í fermingu hans og allir hlæja er honum öllum lokið. Við skiljum við hann grátandi undir sæng í lokin, harðneitandi því að þetta hafi verið mamma hans sem datt eins og Pétur afneitaði Kristi. Skömm hans er sennilega mikil bæði yfir mömmunni og eigin svikum. En það er aðeins næstseinasta atriðið, að lokum sjáum við mömmuna sitja spariklædda í herbergi sínu á ódýra gistihúsinu, örvæntingin yfir því að vera ómerkilegur konukjáni sem eina barnið skammast sín fyrir því vel sýnileg í frosnum svip hennar. Í stuttu máli var alveg jafn erfitt að sjá myndina aftur og að lesa söguna og því engin furða að myndin hafi lifað í kollinum á mér þó að þá hafi ég verið barn en ekki fullorðinn sem á það á hættu að börnin í fjölskyldunni skammist sín fyrir hann.

Previous
Previous

Hanna og María

Next
Next

Xavier er hættur