Xavier er hættur

Nýlega tilkynnti kanadíski leikstjórinn Xavier Dolan í viðtali við El Pais að hann væri hættur að gera kvikmyndir sem teldist kannski ekki til tíðinda nema vegna þess að hann er aðeins 34 ára. Tilefnið er að seinustu myndir hans hafa ekki gengið nógu vel fjárhagslega eða fengið útbreiðslu og honum finnst tilgangslaust að slíta sér út fyrir listaverk sem fáum líkar. Þess vegna stefnir þessi Cannes-verðlaunaði kvikmyndagerðarmaður sem er næstum 20 árum yngri en ég að því að lifa rólegu lífi og gera auglýsingamyndir í framtíðinni.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa og Xavier mættu hefðbundnar ásakanir um að hann væri í fýlu og að listamenn væru tilætlunarsamir. Fátt er jafn stöðugt og réttlátt reiði almennings í garð listamanna sem setja sig á háan hest. Ég verð að játa að ég stend með Xavier hér. Hvers vegna ætti hann að vinna til einskis? Ógæfa hans var kannski að slá í gegn 19 ára með kvikmyndinni Ég drap mömmu þar sem hann lék einnig aðalhlutverkið (sjá að ofan) og síðan naut hann mikillar aðdáunar næstu ár fyrir myndir sem voru góðar en auðvitað naut hann líka aldursins. 19 ára strákur sem gerir góða bíómynd er frétt en ekki lengur þegar hann er farinn að nálgast miðjan aldur. Eins og ég skil þetta vill Xavier gera listaverk en ekki iðnaðarvörur og þar með er áhættan talsverð á tímum þar sem fátt skiptir máli annað en sala og gróði og þeir sem standa að gæðumatinu standa ekki alltaf undir því hlutverki. Ég fór á nýlega mynd leikstjórans, Matthias & Maxime, og fannst hún stórgóð en ekki síst undirtextinn og af slíku missa gagnrýnendur iðulega. Líklega hefur þessi mynd (sem raunar fékk allmörg kanadísk verðlaun) því fallið í grýttan jarðveg hjá sumum. Kannski hefur ekki hjálpað henni að vera ástarmynd um tilfinningahefta karlkyns vini, málefni sem sannarlega þarf að tala um en nýtur ekki endilega vinsælda hjá neinum sem tjá sig um list í nútímanum.

Markaðslegi mælikvarðinn er enginn vinur listarinnar en Xavier Dolan nefnir líka ástand heimsins sem ástæðu. Honum finnst erfitt að vinna að listaverkum í heimi þar sem öfgar og skortur á umburðarlyndi verða æ meira áberandi. Þetta er ekki erfitt að skilja þó að hvað getum við svo sem gert í því annað en reynt að vera betri manneskjur og hafa smitáhrif? Sjálfsagt hefur reynst honum erfitt líka að hafa verið svona vel tekið á unga aldri. Sum okkar eldri listamenn erum vön strögglinu og sinnuleysinu og með heldur rammgerðari brynju en maður sem náði að gera fimm alþjóðlega viðurkenndar kvikmyndir á aldrinum 18-25 ára hefur komið sér upp. Á hinn bóginn kannast flestir listamenn við hið handahófskennda gæðamat sem einkennir menningarheiminn og finnst mörgum erfitt að hafa skilað af sér verki sem er alveg jafn gott og þau fyrri en fellur af einhverjum ástæðum ekki í kramið. Seinasta stráið fyrir Dolan var víst áhugaleysið sem streymisveiturnar sýndu sjónvarpsþætti hans La nuit où Laurier Gaudreault s'est réveillé sem ég væri meira en til í að sjá en veit ekki hvenær tækifærið gefst hér á landi.

Það sem mig langar kannski mest að segja er að ég virði ákvörðun hans að hætta, alveg eins og Gretu Garbo og Agnetu úr ABBA á sínum tíma. Mér finnst krafan um að allir listamenn þurfi að hlaupa sitt maraþon að eilífu ósanngjörn og krafan um að þeir séu lírukassaapar til að fjölmiðlar taki mark á þeim fráleit. Ég kysi helst að gæðamatið í bókmenntaheiminum væri ekki jafn yfirborðskennt og rithöfundar þyrftu ekki að mæta í fjölmiðla fyrir jólin með kókostoppauppskriftir. Ég kysi að verðlaun snerust eingöngu um gæði en ekki skrum. Undrabarn eins og Xavier græddi fyrst á því að vera áhugaverð saga sjálfur en horfist í augu við þann veruleika þegar hann er orðinn þrítugur. Eðli málsins samkvæmt er hlutskipti hans sem kvikmyndagerðarmanns enn erfiðara en rithöfunda og málara sem ekki þurfa að eyða stórfé og miklum tíma í að skipuleggja verk sem fjöldi manns tekur þátt í en þögn og fálæti ríkir um. Ég vona samt að hann snúi aftur dag einn en enginn á neina kröfu á að listamaður haldi áfram að sinna list sinni ef viðbrögðin eru ekki fullnægjandi, eða bara yfirleitt.

Previous
Previous

Konukjáninn

Next
Next

Jóhannes skírari í þröngum stuttbuxum