Jóhannes skírari í þröngum stuttbuxum
Þegar ég var á 14. ári braust Wham á sviðið með látum og eðlilega er ég strax búinn að horfa á Wham-myndina á Netflix, sögu sem hefst þegar George og Andrew hittast í skóla í Hertfordshire á Englandi og verða vinir, 11 og 12 ára, George með risastór gleraugu og hét Georgios Panayiotou (varð ekki George Michael fyrr en 18-19 ára, á fyrstu smáskífu sinni hétu þeir A. Ridgeley og G. Panos). Voru aldavinirnir áfram í miklu sambandi eftir Wham? Um það er lítið rætt í myndinni en ég hef vissar áhyggjur. Þeir félagar fóru að taka sig alvarlega sem poppara árið 1981 (þá byrjaði mamma Andrews að safna úrklippum með þeim og hélt því áfram allan tímann) og sendu frá sér tvö lög sem höfðu ekki náð að slá í gegn þegar þeir fengu óvænt að koma fram í Top of the Pops í nóvember 1982 með dansrútínu sem þeir höfðu æft heima hjá sér og fluttu lagið „Young Guns“ nógu eftirminnilega til að koma sér í 3. sæti breska vinsældalistans en fáir á Íslandi höfðu þó heyrt þá nefnda snemma árs 1983 (ég man eftir að hafa heyrt „Club Tropicana“ síðla það ár en vissi ekki hver flytjandinn var). Á þessum tíma hélt George að Andrew yrði stjarnan í bandinu enda taldi hann félaga sinn mun myndarlegri en sig sjálfan. Mig minnir líka að þegar „Wake Me Up“ var auglýst í íslensku sjónvarpi hafi fylgt mynd af Andrew (fáklæddum) þannig að ég sá hann á undan George en hafði heyrt lagið áður en ég sá mennina. Þar fyrir utan var Andrew sá sem hafði stutt yngri og ósvalari vin sinn frá upphafi og verið leiðandi á fyrstu árum samstarfsins. Andrew var sjálfsöruggur hrekkjalómur í bernsku en George feiminn og hlédrægur. Fljótlega eftir að þeir urðu fagmenn fór George þó að verða meira áberandi með vogaðri sviðsframkomu sinni. Andrew var sterkari þegar kom að fatastíl hljómsveitarinnar (engin skýring fæst í myndinni á gulu uppþvottarhönskunum sem George var með í „Wake Me Up“ myndbandinu). .
Árið 1983 varð þeirra ár í Bretlandi, poppið var að koma inn á ný eftir dauða pönksins og þeir náðu nokkrum hitturum en fengu þó engan fyrstasætissmell. Þeir voru gjarnan í þröngum stuttbuxum á sviðinu, Andrew fyrst rauðklæddur og George í kanarígulu en síðan komu hvítu „Choose Life“ klæðin sem allir muna eftir og urðu svo fræg að komast í íslenska áramótaskaupið (þar sem smellurinn hét „Veika löpp á vondum skó skó“). Á þessum tíma bjuggu þeir þó enn heima hjá foreldrum sínum enda höfðu þeir gert lélega plötusamninga, höfðu verið að hugsa um frægð fremur en fjármuni og höfðu ekki einu sinni framkvæmdastjóra í upphafi. Snemma árs 1984 sló „Wake Me Up Before You Go Go“ svo rækilega í gegn alþjóðlega (m.a. á Íslandi) og skömmu síðar „Careless Whisper“ sem var lag þeirra beggja en alltaf eignað George sérstaklega þó að Andrew ætti meira í laginu en hinum smellinum. Þeir voru ekki teknir mjög alvarlega á þessum tíma þrátt fyrir vinsældirnar en George tók að nálgast tónlistarferilinn með þungri alvöru, varð fljótlega mjög virkur í allri framleiðslunni og smám saman varð Andrew aukaatriði í Wham! þó að hann hefði verið leiðandi í vinasambandinu og í fyrstu í hljómsveitinni. Það reyndist honum örugglega erfitt en á hinn bóginn var hann partípinni umfram allt annað og afstaða hans í myndinni er að þeir George séu fyrst og fremst fornvinir sem hafi um hríð líka verið í hljómsveit. Ef myndin er fyrst og fremst ímyndarsmíð hans eins og mann grunar stundum er Andrew jafn snjall í henni og Harry og Meghan eru hræðileg þannig að það verður trúverðugt að hann hafi ekki aðeins verið sálin heldur líka heilinn í bandinu þangað til tónlistarhæfileikar George kölluðu á að hann tæki yfir. Í myndinni kallar George Andrew skapara sinn, þann sem kom honum af stað — en þurfti síðan að hverfa til að sköpunarverkið gæti blómstrað.
Seinna hluta árs 1984 leið vart sá dagur að Wham! væri ekki í fréttum. Meiri fréttir var að hafa af kvennamálum Andrews en George sem á þessum tíma var ekki búinn að segja mörgum frá strákaáhuga sínum, að vísu Andrew sem studdi George (sem hann kallar ‘Yog’ í myndinni) í einu og öllu að eigin sögn. Hógværð hans við hlið félagans sem reyndist hafa heldur meiri hæfileika er aðlaðandi áratugum síðar en George talar líka fallega um fornvin sinn í myndinni. Samt finnst mér ólíklegt að þeir hafi verið nánir vinir eftir tónlistarskilnaðinn. Árið 1985 fóru þeir í fræga ferð til Kína en popparar frá Vesturlöndum voru ekki hversdagslegir gestir þar í landi á þeim tíma. Þar með voru Wham! orðnir frægir líka meðal fólks sem ekkert fylgdist með poppinu og í kjölfarið fylltu þeir íþróttavelli í Bandaríkjunum og ekki lengur hægt að afgreiða þá sem bólu. En þá var sjálfur dúettinn að flosna upp. Á Live Aid ofurtónleikunum sama ár söng George Michael með Elton John en Andrew var í bakröddunum. Samkvæmt nýju myndinni var Andrew þó jafnvel ívið tilbúnari en George að láta gott heita með hljómsveitina þegar árið 1986 hófst. Áttaði sig kannski á því að hann væri þegar orðinn tunglið í þessu sambandi. Á sínum (stutta) tíma var þó ekki skynjun aðdáenda að hann væri neitt aukaatriði í Wham! Og kannski er þessi mynd um hann frekar en hinn.
Sumarið 1986 héldu félagarnir kveðjutónleika og hvorugur sýndi síðan áhuga á því að endurvekja Wham! Líklega höfðu þeir óvenju góðan skilning á því að Wham! væri hljómsveit tvítugra ungmenna en ekki fullorðinna manna og að æskan er tímabundið ástand (eins og reyndar lífið). George Michael beið langur en stundum brokkgengur ferill sem súperstjörnu en Ridgeley vildi fremur slá í gegn sem ökuþór í formúlunni og flutti til Mónakó þeirra erinda. Það gekk reyndar ekki en hann giftist inn í Bananarama og hefur lifað góðu lífi fjarri sviðsljósinu og notið ágóðans af vinsælu lögunum, ekki síst „Careless Whisper“ sem hann átti mikið í. Það hvarflar að manni að myndin tengist tilraunum hans til að mala enn meira gull og koma um leið að sinni hlið málsins. Jafnvel þó að maður átti sig á því er hægt að dást að því hversu haganleg hún er og falleg á köflum. Það er ekki hægt að horfa á hana án þess að finna til hlýrra strauma til þeirra beggja, þess sem dó og þess sem lifir.
Í myndinni eru eldri George og Andrew sögumenn, við heyrum þá segja frá öllu ævintýrinu mörgum árum síðar — en við sjáum þá aldrei eldri en 23 ára sem er líklega það mest sláandi við þessa mynd; hún fjallar um tvítuga stráka og þeir eldast ekki, eru ungir að eilífu. Þó að annar sé nú látinn og hinn kominn á sjötugsaldur erum við í Wham-myndinni stödd eingöngu á 9. áratugnum, á skammri ævi hljómsveitarinnar sem dó árið 1986, eins og ætlunin sé að ljúka mildum lofa um lífsins perlu í gullnu augnabliki.