Mulaney þurrkaður

Ég hef eflaust sagt mörgum að ég hafi engan áhuga á uppistandi og leiðist formið. Þetta var einu sinni satt en þó vil ég nú draga að hluta til baka opinberlega því að ég hef öðru hvoru horft á erlent uppistand í sjónvarpi seinustu árin og líkar það sumt vel en raunar ekki allt, er almennt hrifnari af Bretum en Bandaríkjamönnum, og veit hvaða uppistandara ég á að forðast. Tvo hef ég beinlínis mætt að sjá á Íslandi eftir að hafa þegið gott boð þar um: Dara O’Brian og Söru Milligan. Sara var raunar með upphitara sem var alls ekkert slæm en fékk mig þó til að skilja að jafnvel þegar kemur að þessu formi sem ég einu sinni lagði fæð á er ég farinn að átta mig á muninum á því sem er skítsæmilegt og því sem er virkilega gott.

Einn af þeim sem hefur skemmt mér hvað mest í ár er náunginn að ofan, John Mulaney sem er frá Bandaríkjunum (Chicago), er kaþólskur og segir fyrst og fremst skrítnar sögur um undarlegt fólk sem skýrir að einhverju leyti hvers vegna mér líkar hann því að ég ólst upp með fólki (einkum pabba og ömmu) sem sagði sögur. Hann sýnir líka reglulega hve miklu máli skiptir hvað er sagt, hvaða orðalag er notað og hvernig er farið með textann því að frásagnarröddin skiptir miklu fyrir húmor hans. Hann notar eigin persónu mikið, mjúka manninn sem lætur iðulega vaða yfir sig og biðst afsökunar á öllu. Sumar sögurnar eru atvik sem hann segir að hafi komið fyrir sig og maður efast ekki eitt augnablik um að þetta hafi allt gerst. Sagnaskemmtanir hans eru nú orðnar fimm, þrjár á Netflix en fjórar elstu á Spotify (það er í fínu lagi að hlusta bara, a.m.k. eftir eitt áhorf) en sú nýjasta er tiltölulega nýkomin á Netflix. Ég geri ráð fyrir að hver klukkutíma skemmtun hafi smám saman mótast og þróast og nái hámarki í upptökunni.

Auðvitað er ekki allt jafn gott hjá honum, ég er með topp tíu lista sem ég hef sent nokkrum vinum (besta atriðið af öllum er þegar hann lýsir gagnslitlum sumarstörfum sínum). Nýjasta rútínan heitir Baby J og er ljúfsár því að hún fjallar um fíkniefnavanda Johns — sem er undirtexti sem kemst stundum upp á yfirborðið í hinum fjórum og er því ekki óvæntur en á hinn bóginn lítur maðurinn einstaklega sakleysislega út og er fjarri staðalmynd fíkniefnasjúklinga — og hvernig vinir hans komu heim til hans í svokallað „intervention“ sem Bandaríkjamenn virðast vanir en ég hef aldrei heyrt um á Íslandi. Auðvitað getur hann ekki skýrt þetta nema rekja ævisögu sína og fara yfir feril sinn sem er einmitt það sem getur gert uppistand áhugavert, hvernig fólk tekur eigið líf og býr til sýningu úr því (fyrsta slíka sýningin sem virkilega fangaði mig og ég sá í sjónvarpi var með Carrie Fisher sem hafði sannarlega frá nógu að segja, raunar af svipuðu tagi, og hafði raunar skrifað bækur um það).

Skemmtun eins og þessi hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum þegar fíkniefnavandi var ekki lengur til umræðu og enginn skemmtikraftur hefði stigið viðkvæmur og berskjaldaður fyrir áhorfendur með kímnina eina að vopni. Í fyrri þáttum sýndi Mulaney styrk sinn en þessi fangar athyglina vegna þess að í honum fer fram grimm og heiðarleg sjálfsskoðun sem er laus við væl, eða öllu heldur annað en það kómíska væl sem er vörumerki Mulaney og gerir hann fyndinn ásamt léttúðugri fjarlægð, auga fyrir smáatriðum, sérkennilegum persónum (t.d. læknirinn Dr. Michael sem útvegaði honum eiturlyf), lykkjubyggingu í anda miðalda þar sem atriði hverfa og birtast aftur þegar við eigum minnst von á og skondnum setningum sem sumar jafnast á við það sem bestu höfundar skrifa („When you're a cokehead you see the world in terms of surfaces“) fyrir utan að hann er meistari krossbragðsins. Eins og venjulega fannst mér þessi nýja rútína fyrst ekki jafn fyndin og þær gömlu sem ég hef heyrt oftar en hún vinnur á og núna finnst mér hún sú besta.

Previous
Previous

Jóhannes skírari í þröngum stuttbuxum

Next
Next

Hún pirringinn lagar með pillunum