Hún pirringinn lagar með pillunum

Áfram stelpur (1975) var ein af hljómplötunum heima hjá mér í bernskunni og mikið spiluð enda femínískt heimili (þó að það væri kannski ekki rætt svo mikið) og tiltölulega fátt um hljómplötur við allra hæfi. Ég vissi aldrei neitt um hvaðan lögin komu og pældi ekki einu sinni í söngkonunum, aðeins myndinni framan á (eftir Sigrúnu Eldjárn) sem sýndi konurnar í söngvunum, m.a. þessa sem heldur á Andrésblaði sem sannarlega var reynsluheimur minn líka á þeim tíma. Platan var dregin fram öðru hvoru ár eftir ár og ég man eftir augnablikum þar sem mér fannst konurnar aðeins of kvartsárar og önugar við karlana og þegar ég uppgötvaði Íslendingasögurnar níu ára fannst mér leiðinlegt þegar hæðst var að þeim. Kannski er ég enn á því en hitt finnst mér ekki lengur eftir að hafa kynnst karlveldinu betur: Gummi, Siggi og hinir karlarnir í ljóðunum verðskulda hvert hvæs sinna eiginkvenna og ástmeyja.

Smám saman varð ég hrifnastur af sögunum fremur en baráttusöngvunum sem hrifu mig þó fyrst. Kannski er það þróun stjórnmálanna seinustu hálfu öld sem gera mig lítt spenntan fyrir baráttusöngvum; baráttumenn og gerviróttæklingar nútímans eru flestir galtómir af innihaldi og annarri róttækni en frösum og skrumi. Núna löngu seinna er ég enn á þeirri línu; kannski er ég bara mest fyrir kabarett. Fyrir nokkrum árum hlustaði ég á plötuna (nú á Spotify) heilt sumar og fannst þessi lög best: 1. Þyrnirós, 2. Framtíðardraumar, 3. Í eðli þínu ertu bara reglulega kvenleg, Signý, 4. Einstæð móðir í dagsins önn, 5. Sagan af Gunnu og Sigga. Flestöll lögin á plötunni munu samin af Svíanum Gunnar Edander (f. 1942) en Leif Nylén (1939-2016) samdi þó lagið sem mér finnst best. Þau eru úr tveimur leikritum, Tjejsnack (1971) og Jösses flickor (1974). Á Íslandi voru þau notuð í kabarett sem hét „Ertu nú ánægð, kerling“. Upphaflega eru lögin sungin af sænskum leikkonum og söngkonum: Lottie Ejebrant, Marie Selander og Ullu Sjöblom. Á Íslandi voru þau sungin af Kristínu Á. Ólafsdóttur (Þyrnirós), Margréti Helgu Jóhannsdóttur (Framtíðardraumar, Einstæð móðir), Steinunni Jóhannesdóttur (Í eðli þínu) og Sigrúnu Björnsdóttur (Sagan af Gunnu og Siggu). Þær syngja allar jafn vel eða ívið betur en þessar sænsku að minni hyggju en smekkurinn kannski að einhverju leyti menningarbundinn. Louise á sænsku varð Signý á íslensku sem vakti auðvitað athygli mína þar sem það er nafn mömmu minnar. Íslensku þýðingarnar eru almennt mjög góðar en mig grunar að Þrándur Thoroddsen og Böðvar Guðmundsson eigi þær bestu.

Kristín kemur sínu lagi efst með sinni tregafullu og ljóðrænu röddu. Hún var á sínum tíma ívið frægari sem söngkona en leikkona en hinar leikkonurnar syngja þó allar vel líka en með meiri áherslu á kátínuna en tregann. Það er líka eitthvað við Þyrnirósarsögnina sem höfðar til mín: konuna sem bíður alla daga eftir prinsinum, bryður valíum, er á sósíalnum, drekkur og fer stundum á strætistöðina að kanna hvort hann sé kannski að koma. Þar að auki er saxófónn Gunnars Ormslev á miklu flugi í laginu. Margrét Helga á tvö lög af þessum bestu og syngur þau hvort á sinn hátt sem er til marks um fjölhæfni hennar. Með tíð og tíma hef ég orðið æ hrifnari af hjúkkulaginu hennar (greinilega samið áður en femínisminn ákvað að sætta sig við að sum störf væru og yrðu „kvennastörf“) þó að ég hafi fyrst á fimmtugsaldri áttað mig á að stórmilljónerinn í laginu hét ekki Halldór heldur var hann „haldgóður“. Steinunn er með góðan mæðulegan tón í sínu lagi sem fellur vel að efninu, konunni sem smám saman festist í hjónabandi og börnum. Sigrún syngur sitt lag eins og hæðin tröllkona.

Það er merkilegt hve margt í samfélagsumræðu nútímans á netinu minnir á endasleppa róttækni 8. áratugarins og líklega er ástæða er til að hafa af því áhyggjur hve fátt er um nýjar hugmyndir, ekki síður en hinu hversu rækilegt afturhaldið varð sem við tók upp úr 1980. Hitt blasir þó við að uppgjörið sem boðað er í Áfram stelpur var ekki aðeins löngu tímabært heldur hefur íslenskt samfélag sem betur fer breyst heilmikið hægt og rólega og a.m.k. hefur þeim fækkað sem finnst sjálfsagt að konur fórni sér fyrir eiginmenn sína og séu „reglulega kvenlegar“.

Previous
Previous

Mulaney þurrkaður

Next
Next

Ekkert Undraland í þessari mynd