Ekkert Undraland í þessari mynd

Ég hafði á langri ævi aldrei séð Alice Doesn’t Live Here Anymore sem var í sjónvarpinu þegar ég var tólf ára eins og strákurinn í myndinni. Ég hélt að hún væri svarthvít en augljóslega er það fölsk minning því að hún er í litum og jafnvel við vorum búin að fá litasjónvarp á þeim tíma. Myndin er gerð árið 1974 sem er fyrsta árið sem ég á minningar frá. Þær eru reyndar ekki síst um liti og mig minnir að litirnir á Íslandi árið 1974 hafi ekki verið ólíkir því sem gerist í myndinni. Ég hefði sennilega ekki notið myndarinnar árið 1982, hún er mjög fullorðins. Alice er leikin af hinni óvenjulegu en færu leikkonu Ellen Burstyn. Hún missir leiðinlegan eiginmann í slysi og heldur vestur til Arizona (sem ég veit furðu mikið um af því að bandarískur skiptinemi þaðan hélt einu sinni fyrirlestur um heimaríki sitt í bekknum mínum þegar ég kenndi í MR; ég bauð honum að tala vegna þess að ég sá að hann var sniðugur, vildi kenna MR-ingunum sem fannst þau sjálf sniðugust smá lexíu og það tókst) að leita sér að vinnu ásamt 11-12 ára syni sínum. Það gengur ekkert of vel hjá henni því að hún kann ekkert nema að syngja og dæmist í láglaunastörf. Allir koma við hana af lítilsvirðingu enda er hún kona um fertugt sem hefur eytt ævinni í að vinna heima. Snemma í myndinni spyr strákurinn hvort hún hafi elskað pabbann og hún segist auðvitað hafa gert það en ég trúði henni ekki alveg. Er ekki viss um að hann hafi gert það heldur. Hvorugt þeirra virðist sakna náungans mikið, hvað þá við áhorfendur.

Næsti karlmaðurinn í myndinni virðist fyrst hress og skemmtilegur, á að vera talsvert yngri en hún (á þessum tíma þóttist Harvey Keitel vera 27 ára en var í raun 35) en því miður reynist hann hinn versti dólgur, árásargjarn og ofbeldisfullur, lemur konu sína eins og harðfisk fyrir framan Alice sem hann hefur áður sofið hjá þegar hún hélt að hann væri ógiftur, hótar henni að lokum og segir að hún þurfi að sættast við hið sanna eðli hans. Þetta hljómar alls ekki vel og mæðginin flýja enda þennan dólg í ofboði, heimili þeirra rústir einar og drengurinn haltrandi. Martin Scorsese er frægari fyrir myndir um karlmenn og löggur en stöðu konunnar í nútímasamfélagi en það efni er ekki laust við ofbeldi heldur, það er bara öðruvísi. Eftir alla þessa frekar ógeðugu menn vekur það ákveðna von að sonur Alice Tommy (leikinn af Alfred Lutter sem hætti að leika 15 ára, flutti til Stanford og gerðist raunvísindamaður og viðskiptafrömuður) er af öðru sauðahúsi, einkennilega veraldarvanur, intellektúal, dularfullur og furðu næmur fyrir líðan móður sinnar. Það var einmitt á þessum tíma sem börn í bíómyndum hættu að vera litlir englar eða hressir gormar en urðu í staðinn vel skrifaðar og flóknar persónur og Tommy minnir mig stundum á þá tólf ára drengi sem ég þekki best.

Í seinni hluta myndarinnar erum við komin frá Repúblíkanaborginni Phoenix til Demókrataborgarinnar Tucson. Þar eru mikil læti en samt notalegri andi. Alice þarf að kyngja framavonum sínum og fá sér vinnu á „diner“ þar sem hún er í fyrstu áreitt af annarri þjónustupíu sem Diane Ladd leikur með mikilli sveiflu. Eins og aðrir hrossabrestir er hún ekkert svo slæm við nánari kynni og þær ná saman að lokum yfir kúk- og pisshúmor hrossabrestsins. Þar kynnist hún Alice líka rólegum náunga sem Kris Kristofferson leikur (ekki þó með hattinn úr Með allt á hreinu) en auðvitað eiga bæði hún og við áhorfendur erfitt með að treysta honum samstundis eftir hina hörmulegu reynslu af Harvey Keitel. Öfugt við hrottann reynir þessi gaur að ná til hennar með því að vera góður við drenginn (sem hinn sá ekki) en hann veldur líka átökum milli þeirra þegar Kris lemur Tommy (sem var viðurkennd fullorðinshegðun á þeim tíma) og Alice týnir stráknum í kjölfarið (ekki eina barnið sem týndist í Bandaríkjunum á þeim árum en sem betur fer finnst hann aftur). Þau Kris ná þó saman á ný eftir að hann iðrast og Diane Ladd hefur komið henni á beinu brautina. Drengurinn hins vegar kynnist Íslandsvininum Jodie Foster með drengjakoll og er hún augljóslega rígfullorðin langt fyrir aldur fram eins og tólf ára börn voru þá, líka á Íslandi, kennir drengnum að stela og gefur honum áfengi (þetta voru tímarnir þegar 12-13 ára íslensk börn fóru á fyllerísútihátíðir).

Myndin líður eins og skot þó að í henni séu engir viðburðir að kalla fyrir utan þessi misheppnuðu ástarsambönd og brokkgengar uppeldistilraunir Alice, en það er auðvelt að lifa sig inn í hlutskipti mæðginanna. Myndin er alveg laus við predikun eða dólgafemínisma en lýsir hlutskipti Alice og sonar hennar samt á nærfærinn hátt og hefur því prýðisuppeldisgildi, eflaust enn meira árið 1974 en líka hálfri öld síðar. Eins og sum ykkar vita kannski er Diane Ladd móðir hinnar frægu leikkonu Lauru Dern og hún er líka í myndinni, hér að ofan með gleraugu, kannski ekki svo ólík sjálfri sér þegar vel er gáð.

Previous
Previous

Hún pirringinn lagar með pillunum

Next
Next

Ferð með Freud