Ferð með Freud

Ég held að af ýmsum kjánalegum atriðum í Indiana Jones myndunum sé senan sem pirrar mig mest er þegar Indiana og Marion Ravenwood sleppa frá því að bráðna niður í jörðina þegar sáttmálsörkin er opnuð með því að … loka augunum? Ekki að ég skilji ekki „willing suspension of disbelief“ en mér finnst jafnvel skárra að sleppa frá kjarnorkusprengju með því að skríða inn í ísskáp (sem Indiana gerir í mynd 4) en að loka bara augunum til að lifa af. Þess vegna hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að þau hefðu átt að bráðna líka þannig að enginn slyppi lifandi frá atvikinu nema hermaður númer 2 (sjá mynd að neðan) sem ég persónulega hélt með þegar hér var komið sögu og hefði vel séð fyrir mér heila myndaröð um hann.

Næstasnalegasta atriðið er líklega í þriðju myndinni þegar Indiana ræður þrjár gátur á 12 sekúndum sem engum öðrum hefur tekist að ráða öldum saman bara með því að loka augunum og hlusta á deyjandi föður sinn sem er allt of langt í burtu til að geta talað við hann nema með hugsanaflutningi. Það eina sem bjargar því bulli er þegar svikarinn Walter Donovan eldist um aldir á stuttum tíma og verður að lokum að beinagrind og þegar þeim ósköpum er lokið segir gamli riddarinn sem gætir gralsins: „He chose … poorly“ sem er magnað dæmi um „understatement“ (litotes) og gleður okkur bókmenntafræðingana. Þó held ég að þriðja Indiana Jones myndin eldist einna best og það er ekki síst vegna þess að Sigmund Freud er með í för. Nú er auðvitað vel þekkt að gervallt höfundarverk George Lucas í kvikmyndum er drifið áfram af risavöxnum pabbakomplex (þið eruð fær um að muna dæmin án mín) og sá nýtur sín vel í mynd 3 sem snýst ekki um neitt nema Indiana Jones að pirra sig á pabbanum sem hann kallar „Attila the Professor“ (sem ég geri ráð fyrir að engum finnist fyndið nema prófessorum).

Líklega þarf fornleifatöffarinn að bjarga lífi pabbans í myndinni til að komast á frekar billegan hátt (þetta eru auðvitað myndir fyrir 12-14 ára drengi) yfir pabbakomplexinn en um leið nær pabbinn að sanna fyrir honum að hann er ekkert svo slæmur félagskapur og getur jafnvel unnið andstæðinginn með brellum frá Karlamagnúsi (annað eftirlætisatriði mitt). Um leið deyr dr. Schneider, á yfirborðinu vegna eigin græðgi í fornleifar en í raun vegna þess að hún hefur sofið hjá bæði pabba og syni og engin leið því að láta hana hverfa úr sögunni sem ástkonu annars þeirra eins og hinar tvær konurnar sem birtast í fyrstu þremur Indiana Jones myndunum — þær eru að vísu góðar kvenpersónur en hver um sig eins konan í myndinni og hugmyndaflug kvikmyndastrákanna nær ekki lengra en svo að konur séu annað hvort mömmur eða ástkonur.

Mun fjölbreyttari eru karlkyns andstæðingarnir sem Indiana Jones glímir við, m.a. sá sem sést hér að ofan og hefur bardagann við Indiana á að klæða sig úr að ofan (hvers vegna? Freud hefði kannski orðið matur úr því). Eins er sverðaskakarinn sem bíður Indiana glaðhlakkalega upp á einvígi en hann nennir því ekki og skýtur hann bara (Spielberg og Lucas að lýsa á frati á gamlar ævintýramyndir sem hefðu krafist einvígis hér og koma því á framfæri að þeir séu samt móderne) og svo er það náunginn sem gengur undir nafninu harður nasi á kreditlistanum, segir ekkert og er enda leikinn af ítölskum áhættuleikara en Indiana berst við þann jaxl hálfa fyrstu myndina. Uppáhaldið mitt er samt gleraugnanasistinn sem birtist óvænt og dregur upp eitthvað sem virðist í fyrstu vera ógurlegt pyntingartól en reynist síðan einfaldlega vera herðatré fyrir frakkann hans. Margt má fyrirgefa strákunum Lucas og Spielberg fyrir þetta dásamlega grín.

Previous
Previous

Ekkert Undraland í þessari mynd

Next
Next

Besti byr síma?