Besti byr síma?

Í 13. erindi Völundarkviðu kemur fyrir stakyrði sem engum hefur tekist að skýra sæmilega sem er orðið „besti byr síma“ sem jöfrar leggja á Völund og hann binda. Merking orðsins virðist því ansi skýr samhengisins vegna: um e.k. fjötur eða band er að ræða. Orðið „besti“ er einfalt að tengja við bönd eða fjötra („bast“ er vel þekkt á miðöldum) og eins er orðið síma eða sími (t.d. „örlögsímu“ í Reginsmálum) tengt þræði og þráðum (þó að þræðir séu horfnir úr símum nútímans). Hvernig „byr“ (vindur) eða „býr“ (af so. „búa“) tengist málinu hefur fáum tekist að skilgreina en eins og sjá má að ofan er enginn vafi á að þetta stendur í Konungsbók eddukvæða. Frasinn hefur ekki verið notaður síðan og verður varla nema símafyrirtæki taki hann til handargagns í auglýsingu („besti býr síma!“). Sem merkir vitaskuld að það er enginn hægðarleikur að setja fram skothelda merkingarskýringu. Við eddukvæðaþýðendur höfum enn ekki fundið réttu þýðinguna en ég er spenntur.

Er hægt að draga lærdóm af þessu? Líklega fyrst og fremst þann að margt í eddukvæðum er ekki og verður sennilega aldrei skiljanlegt nema tímavél finnist. Þessi kvæði segja vissulega sögu en þau rekja hana aldrei nákvæmlega heldur má iðulega finna í þeim svipmyndir úr sögunni sem ætlað er að kalla hana fram í kolli upphaflegra hlustenda, enn fremur vísanir til glataðs samhengis og einkennilegt orðalag sem hvergi annarstaðar má finna og kann að vera ævafornt. Stundum einkennast þau af fornlegu og hugsanlega samgermönsku orðalagi, eins og sjá má í Völundarkviðu (meira um það síðar!), orðafari var jafnvel orðið lítt skiljanlegt á tíma Konungsbókar. Þess vegna má vera að eitthvað annað hafi upphaflega átt að standa í þessu vísuorði og síðar hafi „bestibyrsíma“ verið túlkun skrifara eða kvæðamanns. Um það er ekki gott að segja þar sem samhengi kvæðisins er glatað en ekki er auðvelt að skilja skrifara sem breytir því sem stendur í orð sem annars eru ekki til.

Völundarkviðan fjallar um smið sem hugsanlega er álfakonungur þó að hann virðist raunar búa einn og ekki ríkja yfir neinum. Hann er einnig skíðameistari og skotveiðisnillingur en er fangaður af valdagírugum og fégjörnum konungi uns hann smíðar sér tól (e.t.v. vængi) til að fljúga og flýja. Hér má sjá líkindi með Daidalos hinum gríska sem smíðaði Λαβύρινθος eða völundarhúsið — staldrið aðeins við til að leggja saman tvo og tvo hér! Bönd eru algeng og mikilvæg í norrænum goðsögum (auðvitað líka í grískum, t.d. Prómeþeifssögninni) og skipta greinilega öllu máli í þessari sögu. Völundur er eitt fjölmargra norrænna goðmagna sem þarf að fjötra. Eins og oft kemur það fyrir lítið og hefnd hins bundna er yfirgengilega grimm og skeytingarlaus uns hann flýgur hlæjandi burt í lok kvæðisins. Sem lýkur þó ekki þar heldur á endurminningum Böðvildar um skammvinna, sára en ljúfa samveru þeirra Völundar á ögurstundu. Þetta er snjöll bygging sem ýmsir nútímahöfundar hafa stolið.

Previous
Previous

Ferð með Freud

Next
Next

Sverðið í steininum